Ný Hólmsheiði í uppsiglingu. Hvað þar næst?

Nú er áratugur síðan Hólmsheiði dúkkaði upp sem þetta líka fína flugvallarstæði fyrir Reykjavík. 

Flest af því sem varð til þess að þessi staður brotlenti níu árum síðar lá ljóst fyrir í upphafi. 

Í stað þess að með lengingu austur-vestur brautarinnar á núverandi flugvelli er hægt að hafa aðflug og fráflug að vestanverðu yfir sjó og að austanverðu yfir autt svæði í Fossvogsdal, yrði það aðflug, sem mest yrði notað á Hólmsheiði yfir Grafarvogs- og Grafarholtshverfi. 

Völlur þarna yrði miklu nær Esju-Skálafelli og Vífilsfelli-Bláfjöllum en núverandi völlur. 

Og síðast en ekki síst yrði nýr völlur á Hólmsheiði í 500 feta hæð yfir sjó með tilheyrandi fleiri snjóa- og hálkudögum á veturna. 

Flugvöllur í Hvassahrauni yrði enn viðkvæmari fyrir sviptivindum, ókyrrð, úrkomu, lélegu skyggni vegna nálægðar Reykjanesfjallgarðsins og nálægðar við Suðurnes en Hólmsheiði og tíu kílómetrum fjær miðju byggðar höfuðborgarsvæðisins en núverandi flugvöllur, auk þess sem ferðaleiðir innanlands nema til Vestmannaeyja myndu lengjast um 50 kílómetra, 25 á landi og 25 í lofti. 

Það er fráleitt að láta aðeins nokkurra mánaða athuganir á veðri og skilyrðum í lofti og á landi nægja fyrir svo afdrifaríka ákvörðun sem hátt í hundrað milljarða króna framkvæmd krefst. 

Því að gerningarnir við gerð nýs flugvallar eru í raun þrír: 1. Að byggja nýjan flugvöll með öllu því sem það krefst, svo sem byggingum fyrir starfsemi sem tengist honum. 

2. Að rífa og eyða Reykjavíkurflugvelli með þeim mannvirkjum, sem honum tengjast

3. Að byggja nýja byggð á því flugvallarstæði.

Hugmyndin um flugvöll nálægt Straumsvík kom fram um 1960 og var slegin af eftir að Flugráð hafði sjálft sest upp í flugvél og gert var eitt aðflug með ráðið að vallarstæðinu í dæmigerðri stífri suðaustanátt, lang algengustu vindáttinni á þessu svæði og síðan lent á skaplegan hátt á þáverandi og núverandi flugvelli.

Nú er verið að leggja til annað Hólmsheiðarævintýri, Hvassahraunsævintýrið.

Og þegar því lýkur, hvað næst? 


mbl.is Óábyrgt að kanna ekki möguleikann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki orð að marka.

Það er ekki marka orð hjá hollenska fjárfestinum, sem er búinn að semja við Mosfellsbæ um lóð fyrir 50 milljarða einkaspítala. Segir að íslenskt heilbrigðisstarfsfólk muni ekki vinna við spítalann en er þegar byrjaður á að bera víurnar í íslenska hjartalækna og aðra, sem gera eigi spítalann að dýrseldu sjúkrahúsi. 

Segist vera í samvinnu um að reisa sólarkísilver á Grundartanga þótt því sé harðlega neitað. 

Ekki er ætlunin, segir hann, að ryðjast inn á íslenska markaðinn og rústa honum, - en svo kemur þessi dásamlega útskýring: "Það er ekki hægt að rústa því sem þegar er búið að rústa."

Þeir ríku Íslendingar sem þegar hafa efni á því að fara framhjá hinu "rústaða íslenska heilbrigðiskerfi" til þess að kaupa sér dýrar lækningar, sem pupullinn á biðlistunum getur ekki veitt sér, munu spara sér ferðakostnað með því að skipta við komandi lúxussjúkrahús og tryggja það endanlega að hér verði tvöfalt heilbrigðiskerfi, - annars vegar rústum líkast kerfi fyrir venjulegt fólk og hins vegar rándýra lúxusþjónustan fyrir þá ríku. 


mbl.is Sverja af sér tengsl við Burbanks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirringin heldur áfram.

Sigmundur Davíð hélt að hann gæti tekið ráðin af eigin þingflokki og þingflokki Sjálfstæðismanna í vor með því að fara með frágengna pappíra um þingrof á Bessastaði til undirskriftar fyrir forseta Íslands. Hann hélt greinilega, að úr því að Ólafar Jóhannesson gat þetta 1974 og Tryggvi Þórhallsson 1931, yrði þetta létt verk. 

Athugaði ekki, að 1974 var það mat Kristjáns Eldjárns að ekki yrði mögulegt að mynda ríkisstjórn í kjölfarið, en núna var það vilji beggja þingflokka stjórnarflokkanna að halda stjórnarsamstarfinu áfram. 

Athugaði ekki að Ólafur Ragnar Grímsson hafði það veruleikaskyn sem SDG hafði ekki og að grátklökkur þingmaður Framsóknar í fyrsta viðtalinu eftir þennan einstæða viðburð sagði allt sem segja þurfti um þann trúnaðarbrest við þingflokkinn, sem þarna bættist við trúnaðarbrestinn gagnvart þjóðinni í Wintris-málinu. 

Í grein í Morgunblaðinu heldur veruleikafirringin áfram. SDG þakkar sér efnahagsbatann, sem dæmalaus stórfjölgun ferðamanna og lágt olíuverð hafa skapað fyrst og fremst, nokkuð sem hann og flokksmenn hans töldu ómögulegt á fyrsta áratug þessarar aldar þegar "eitthvað annað" en stóriðja var óhugsandi í þeirra augum. 

Nú hamast hann gegn því samkomulagi og loforðum, sem gefin voru eftir brotthvarf hans í vor og heimtar að allt sé sett í uppnám með því að svíkja þau og eyðileggja þann samstarfsanda, sem hefur birst síðustu vikur með sameiginlegri vinnu stjórnar og stjórnarandstöðu við að skapa góða vinnuumgjörð og anda í samræmi við gefin loforð beggja aðila þar um. 

Þegar Höskuldur Þórhallsson bendir á hvílíkt uppnám verði hjá öllum af þessum sökum saka jafn veruleikafirrtir stuðningsmann SDG og hann er sjálfur, Höskuld um að vilja sprengja ríkisstjórnina.

Sigmundur Davíð og viðhlæjendur hans eru í sama gír og þegar farin var endemis sneypuför til Bessastaða í vor, og virðast halda að SDG sé með þingrofsréttinn ennþá ásamt forsetanum. 

En sá réttur er nú í höndum Sigurðar Inga Jóhannssonar og komandi forseta sem betur fer. 

Já, firringin minnkar ekki, heldur virðist hún fara vaxandi. 


mbl.is Myndi sprengja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróf vanvirðing í hvívetna.

Þeir sem nú vilja nota eitt stærsta "túrbínutrix" Íslandssögunnar með því að vaða inn í Mosfellsbæ með ígildi nýs Landspítala og byggja hann allan fyrst og klára svo allt hitt síðar, væntanlega á þeim forsendum að ekki verði aftur snúið, segjast ekki ætla að ráða neitt íslenskt heilbrigðisstarfsfólk en eru þegar byrjaðir að gera það.

 

Og ekkert hefur verið gert til að kanna nánar afleiðingar þessa alls eða huga að því sem eftir er að gera. 

Þeir segja að vísu napran sannleika þegar þeir lýsa biðlistum og vangetu íslenska heilbrigðiskerfisins en gera það af fullkominni vanvirðingu og ýkjukenndri lítilsvirðinngu, - þykjast ekki getað rústað neinu, af því að við séum sjálf búin að rústa því algerlega!  

Ekki eru vanvirðing þeirra, tillitsleysi og kæruleysi þeirra síðri varðandi kalt vatn frá vatnslindum í landi Hafnarfjarðarbæjar. 

Nú þegar er of mikið tekið af vatni í Kaldárbotnum vegna þess hve mjög vatnsveitan hefur bitnað á rennsli Kaldár, sem er eitthvert einstæðasta og merkasta vatnsfjall landsins. 

Að ætla að taka fimmfalt meira sýnir algert skeytingarleysi og græðgi.

Gott er að þessu tilboði, sem ekki átti að vera hægt að hafna, var hafnað! 


mbl.is Vatnið ekki óþrjótandi auðlind
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband