Það var ekki allt sem sýndist.

Fyrir sextíu árum þóttust menn sjá í beislun kjarnorkunnar endanlega lausn orkuvanda veraldar.

Hrein og óendanlega mikil orka væri handan við hornið. Ein af röksemdunum fyrir því að flýta virkjun vatnsafls á Íslandi sem mest var sú, að nýta tækifærið áður en kjarnorkan gerði vatnsaflið úrelt. 

En það var ekki allt sem sýndist. Ekki var minnst á að úraníum, sem notað var, var takmörkuð auðlind en ekki óendanleg. 

Ekki var heldur minnst á þann vanda, sem þyrfti að leysa varðandi hinn mjög svo mengandi kjarnorkuúrgang. 

Menn sáu heldur ekki fyrir hættuna á kjarnorkuslysum á borð við Chernobyl og Fukushima. 

Nú liggur fyrir að langt er í frá að hægt verði að leysa orkuvanda veraldar með kjarnorkuverum þar sem úraníum er notað. 

Hins vegar er nú uppi áhugi á þóríum orkuverum, og svipað sagt um þau og sagt var um úraníum orkuverin í den:  miklu hreinni orkuvinnsla, úrgangur nær enginn og gnægð af þóríum. 

En einn galli er þó á gjöf Njarðar, sem sé sá að ekki er hægt að framleiða kjarnorkuvopn með notkun þóríums. 

Það er lýsandi fyrir hugsunarháttinn ef máttur orkunnar til hernaðarnota er svona framarlega í forgangsröðinni.

Og það þarf víst að bíða í einhverja áratugi eftir því að þessi undraorka verði beisluð. 

Og þá mun kannski vakna spurningin hvort allt varðandi hana hafir verið sem sýndist. 


mbl.is Fresta byggingu kjarnorkuvers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannshvörf eru ævinlega hugstæð fólki.

Þótt dauðaslys og morð séu það dramatísk í eðli sínu að þau veki athygli og séu efni í sagnabókmenntir, eru mannshvörf jafnvel enn hugstæðari. 

Það er vegna óvissunnar, hins nagandi efa og hinnar óleystu gátu um það, hvað hafi gerst, hvernig og hvers vegna.  

Þetta á bæði við um heimssöguna og Íslandssöguna. 

Ekki þarf annað en að nefna nöfn eins og Amalía Erhardt, togarann Júlí, Reynistaðabræður, séra Odd í Miklabæ og Guðmund og Geirfinn Einarssyni. 

Hvað Reynistaðabræður og togarann Júlí áhrærir er talið nokkuð víst hvers vegna og hvar þau slys urðu, en engu að síður er mikilvægum spurningum ósvarað, svo sem það hvernig það mátti vera að líkin úr leiðangri Reynistaðabræðra voru ekki öll á sama stað. 

Og ef eitthvað finnst, lík eða munir, eru einstök atriði og hlutir oft efni í endalaus heilabrot eins og til dæmi hönd Jóns Austmanns, sem fannst tugi kílómetra frá þeim stað þar sem þessi dapurlegi leiðangur endaði. 

Í óleystum málum er ekki nóg þótt lík eða morðvopn liggi fyrir ef ekki upplýsist hver var morðinginn og hvar hann sé niðurkominn. 

Þannig var það formlega þegar Gunnar Tryggvason leigubílstjóri var myrtur. 

En formlega var þetta öfugt í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Lögreglan og dómskerfið töldu sig hafa fundið morðingjana en hinir meintu myrtu hafa aldrei fundist né heldur morðvopn.

Einhvern tíma hlýtur sá tími að koma að niðurstaðan verði sú, að málin þessi tvö séu og verði óupplýst með öllu.  

Hvarf M370 er stór óleyst mannhvarfsgáta en flugslysa- og sjóslysasagan sýna, að hún er ekkert einsdæmi.

Margfalt fleiri en Amalía Erhardt, togarinn Júlí og MH370 hafa horfið án þess gátan um hvarfið hafi verið ráðin að fullu. 


mbl.is Hinsta flugleiðin fannst í flugherminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynleg viðbrögð við aðför SDG.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur heldur betur rótað upp í hinu pólitíska ástandi undanfarna daga með því að því að taka sér í hönd sprengju sem hann geti varpað inn í stjórnmálin hvenær sem er.

Sigmundur lætur eins og að samkomulagið, sem gert var í vor um kosningar í haust og afkastamikið og markvisst sumarþing, hafi bara verið til málamynda og að best sé að gefa sér strax þá forsendu að allt fari upp í loft, svo að kosningar frestist fram á næsta vor.

Öll lýsing SDG á viðhorfi sínu sem hann birti í grein í Morgunblaðinu er gersamlega sjálfmiðuð og breiðir yfir þau aðalatriði að í Wintrismálinu hagaði hann sér þannig, að alger trúnaðarbrestur varð milli hans og allra nema fámenns hóps jámanna í kringum hann.

Þingflokkur hans og Sjálfstæðismanna misstu á honum trú sem og forseti Íslands.

Þar að auki lætur SDG eins og hann einn og loforð hans fyrir fjórum árum hafi haft auknar þjóðartekjur í för með sér með því að minnast ekki á ferðaþjónustusprenginguna og lágt olíuverð.

Nú hefur Bjarni Benediktsson brugðist snöfurlega við og segir réttilega að það sé ekkert sem bendi til þess að samkomulagið um kosningar í lok október muni ekki halda.

Að vísu hrukku margir í stjórnarandstöðuflokkunum í kút þegar Sigmundur Davíð ruddist fram með yfirlýsingar sínar, en Bjarni og Sigurður Ingi Jóhannsson hafa tekið annan pól í hæðina og vonandi dugar það til að róa málið niður.  


mbl.is Bjarni segir að kosið verði í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfkæringur eða alvara?

Engu er líkara en að Donald Trump sé að þróa áfram þá aðferð í fjölmiðlun og áróðri að stela senunni hvenær sem það er mögulegt með ummælum af því tagi sem aldrei hafa áður heyrst hjá frambjóðendum til embættis forseta Bandaríkjanna og þótt víðar væri leitað. 

Hljóð og látbragð eru meðal þeirra tækja, sem dýr nota til þess að hafa áhrif á önnur dýr, svo sem með því að urra ógnandi. 

Hjá mönnum er aðferðin þróaðri og byggist í því að nota orð, sem jafngilda vopnum ef svo ber undir. 

Þess vegna ber að líta á orð sem ígildi verknaðar og gæta að því hvað sagt er. 

Donald Trump lítur væntanlega svo á að ofsafengin ummæli hafi verið lykillinn að velgengni hans hingað til og að þessi hegðun hans muni að lokum skila honum inn í Hvíta húsið. 

Kannski mun hann þróa þessa aðferð frekar og slípa hana með því að láta fyrst falla ögrandi ummæli sem beina allri athygli fjölmiðla og bandarískra kjósenda að honum en draga síðan í land, hafandi náð athyglinni tvisvar út á sömu ummælin. 

Kannski segir hann eða gefur seinna í skyn að hin glannalegu ummæli hafi verið sögð í hálfkæringi. 

Gallinn er sá, að þetta er ekki heiðarleg framkoma og að embætti forseta Bandaríkjanna er þess eðlis að það ekki sama hvað sá maður segir. 

Ótal dæmi eru um það í sögunni hve orð geta vegið þungt. 

Þegar Nikita Krustjoff brá fyrir sig rússnesku orðalagi í deilu um ágæti hins kommúniska kerfis og sagði við bandarískan viðmælanda sinn: "Við eigum eftir að grafa ykkur", vakti það hörð viðbrögð Bandaríkjamanna, svo hörð, að síðan þetta gerðist hefur það alveg drukknað, að meining hins rússneska orðalags var alls ekki sú sem þýðing þýðandans gaf til kynna, heldur miklu vægari, svona eins og að Íslendingur hefði sagt: "Við munum salta ykkur", "við munum baka ykkur", við munum steikja ykkur".

Þegar friðþægingarstefna var iðkuð gagnvart Adolf Hitler í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar lá samt fyrir í bók hans "Mein Kampf" hver væri stefna hans og ætlun.

Það átti eftir að verða dýrkeypt að taka þessi ummæli ekki alvarlega heldur skauta fram hjá þeim, þegar hann lét til skarar skríða.  


mbl.is Sakaður um föðurlandssvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert lát á ókeypis auglýsingum.

Ekkert lát virðist vera á ókeypis auglýsingum á íslenskum náttúruauðæfum, sem við innbyggjararnir höfum meira að segja heilmiklar tekjur að við að hjálpa hinum erlendum auglýsendum við myndatökurnar og flutninga á fólki og tækjum. 

Þegar tengt myndband á mbl.is er skoðað, sést, að efni hennar hafa íslendingar hingað til talið gersamlega glatað og ömurlegt, grjót, þoka, súld, sandur og raunar einn foss. 

Grjótið, klettarnir, grjótið, þokan og súldin verið talin svo mikill ljótleiki að helst þurfi að fela það fyrir útlendingum eða sökkva slíku í drullubrún aurug miðlunarlón jökuláa. 

Sem reyndar er margtuggin rangfærsla, því að langflest bestu lónstæðin eru líka gróðursælustu vinjar hálendisins, sem mynda andstæður við auðnirnar og eldfjöllin.

Með lónum aðeins tveggja virkjana, Blönduvirkjunar og Kárahnjúkavirkjunar, var sökkt mörgum tugum ferkílómetra af grónu landi og þrýst er á enn fleiri slíkar virkjanir.  


mbl.is Ísland í aðalhlutverki í nýju myndbandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband