Forsmáða loforðið frá 2007. Lónið sem á ekki að vera til.

Neðst á þessari bloggfærslu er mynd af affallslóni, sem á ekki að vera til af marka mátti yfirlýsingar á almennum fundi í Mývatnssveit fyrir nokkrum árum.

Í kosningabaráttunni vorið 2007 leist Framsóknarmönnum ekki á blikuna varðandi gengi sitt, þrátt fyrir slagorðið "Árangur áfram! - Ekkert stopp!" sem þýddi i raun áframhaldandi ofuráhersla á áfamhaldandi stanslausar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir.

Skoðanakannanir sýndu að stóriðjustjórnin gæti fallið og eina ráðið við því var að lofa einhverju nógu stórkostlegu í náttúruverndarmálum.

Jón Sigurðsson, formaður flokksins og iðnaðarráðherra, og Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra, boðuðu því til blaðamannafundar, þar sem kynnt var metnaðarfull áætlun þeirra um sérstaka vernd verðmætustu náttúrufyrirbæri landsins.

Sem dæmi frá Norðausturhálendinu má nefna Öskju, Kverkfjöll og svæði, sem þau kölluðu réttilega Leirhnjúk-Gjástykki.

Þetta svæði samsvarar nokkurn veginn hamfaravettvangi Kröfluelda 1975-1984 og Mývatnselda 1724-1725.

Og skilgreiningin fellur að þremur aðalatriðum í náttúru- og umhverfisvernd: Afturkræfni, landslagsheildir og vistkerfi.

Alvaran á bak við þetta var samt ekki meiri en svo, að tveimur dögum fyrir kosningar, þegar öruggt var að það myndi ekki fréttast fyrr en eftir kosningar, gaf iðnaðarráðherra Landsvirkjun leyfi til þess að fara með bora sína inn í Gjástykki til þess að bora eftir heitu vatni.

Að vísu kallað tilraunaboranir en borar og búnaður þeirra og rask leyft á nýrunnu hrauni.

Sem betur fór urðu stjórnarskipti og útundir vegg við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli náði ég að sannfæra nýjan iðnaðrráðherra, Össur Skarphéðinsson, um hvað væri í húfi á Leirhnjúks- Gjástykkissvæðinu, og hann tók heimildina til baka. Krafla, affallslón

En siðan þá hefur verið í gangi stanslaus ásókn í að umturna þessu svæði með virkjanaframkvæmdum eins og fyrirhuguð lagning háspennulínu um Leirhnjúkshraun ber vott um.

Nefnd um skipulag miðhálendisins samþykkti einróma að Gjástykki yrði iðnaðarsvæði (virkjanasvæði) og mat á umhverfisáhrifum stækkaðrar Kröfluvirkjunar og Kröfluvirkjunar II er eitthvert hræðilegasta blekkingaplagg varðandi virkjanir, sem ég hef skoðað.

Enn hefur ekki verið hætt við að reisa 90 megavatta jarðvarmaraforkuver í Bjarnarflagi og þrátt fyrir margendurteknar fullyrðingar um að niðurdæling affallsvatns gangi vel, rennur enn lækur tíu kílómetra í suður frá Kröfluvirkjun og myndar lón, sem fer stækkandi, því að enda þótt óþétt hraun sé þarna undir, rennur vatnið ekki nægilega hratt niður í jarðlögin.   

Á þessari loftmynd sjást gufustrókarnir í Kröflu efst á myndinni.


mbl.is Stöðva lagningu Kröflulínu 4
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Filip Hammar á gott að vera ekki Japani.

Sænski fjölmiðlamaðurinn Filip Hammar má þakka fyrir að vera ekki Japani.

Þar í landi er úrslitaviðureignin í Sumoglímu með álíka sess og úrslitaleikir í knattspyrnu hjá öðrum þjóðum, og japanska þjóðin límd við skjáinn.

Undanfari glímunnar er óralangur með alls kyns seremoníum þar sem glímuhlunkarnir koma hvað eftir annað inn í hringinn og ausa eins konar salti eða salla yfir vettvanginn og þykir þessi langi forleikur bæði nauðsynlegur og hluti af eins konar helgiathöfn.

Ég horfði á þetta fyrirbæri í Tokyo 1977 og var að verða uppgefinn á að bíða eftir sjálfri glímunni.

Loks tókust þeir á og annar þeirra ruddi hinum út úr hringnum og öllu var lokið á örskotsstund.

Filip Hammar hefði talið allan "saltausturinn" á undan hrein kjánalæti og sennilega verið farinn.  

Þessi Sumoglíma tók margfalt styttri tíma en þegar Liston sló Patterson niður í 1. lotu bæði 1962 og 1963, og Ali sló Liston niður 1965 í 1.lotu.

En á slíkum viðburðum eru venjulega margir "upphitunarbardagar" sem flestir skipta ekki stórmáli, en eru taldir nauðsynlegur forleikur að stóra bardaganum.


mbl.is Segir víkingafagnið kjánalæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær förum við til Ameríka og gefum lagi Armenía stig?

Fyrirsögnin "ferðir til Almería felldar niður" vekur spurningar.

Leifur heppni fann Ameríku. Flugfélög fjölga ferðum til Ameríku. Ólympíuleikar verða næst haldnir í Suður-Ameríku.

Panamaskjölin eru kennd við ríki í Mið-Ameríku.

Ísland er í heimsálfunni Evrópu en Grænland er í Ameríku.

Í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðv eiga Íslendingar möguleika á að gefa lagi Armeníu stig.  

Hvers vegna má þá ekki hefja ferðir og hætta við ferðir til Almeríu?

Eða fann Leifur heppni Ameríka og stunda flugfélögin okkar Ameríkaflug?

Og líkar okkur kannski næsta vor vel við lag Armenía?

Er næsta skref að hefja flugferðir til Ameríka?

 

 


mbl.is Ferðir til Almería felldar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afdrifaríkar lokamínútur fyrri hálfleiks.

Lokamínútur fyrri hálfleiks í gær voru afdrifaríkar, tvö frönsk mörk og lokamarkatalan 5:2 en ekki 3:2.

3:2 hefðu verið mjög viðunandi úrslit, því að franska liðið var einfaldlega betra en það íslenska og líklegt til að fara alla leið í keppninni.

En það má hugga sig við það, að svona mínútur í næstu tveimur leikjum á undan hefðu orðið miklu afdrifaríkari fyrir íslenska liðið og getað slegið liðið út úr keppninni tveimur lekjum fyrr.

Tölur, sem brugðið var upp á skjá í lok leiks, sýndust vera þær, að leikmenn beggja liða hefðu hlaupið álíka langa vegalengd samtals, eða 108 kílómetra hvort um sig.

Það var allt öðruvísi en í til dæmis Englendingaleiknum þar sem íslenska liðið hljóp miklu meiri vegalengd.

Raunar segir talan sjálf ekki alltaf alla sögu, því að það er ekki endilega heildartalan, sem skiptir máli, heldur það hve margir hraðir sprettir voru innifaldir í vegalengdinni.

Þegar rússneska liðið sprakk með tóman tank 2008 var það eftir slíka yfirferð´á ofurhraða.

Samleikur íslenska liðsins í þessum leik var alls ekki sá lakasti hjá þeim í keppninni og liðið er enn, þegar á heildina er litið, í framför.

Leikmenn sjálfir sögðust í leikslok ekki vera þreyttir eða þreyttari en í fyrri leikjum, en það er líka til fyrirbæri sem nefna má andlegan doða eða sofandahátt, og í leik gegn eins góðu liði og franska liðið er, geta örfá augnablik sofandaháttar á verðinum orðið mjög dýrkeypt, því að bestu knattspyrnulið refsa grimmilega fyrir slíkt.

Sum lið hefðu getað brotnað alveg saman með 4:0 á bakinu í hálfleik, en íslenska liðið sýndi mikinn karakter í síðari hálfleik sem fór, þrátt fyrir allt, 2:1 fyrir Ísland.


mbl.is „Það verður erfitt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaðlegur háskaleikur að eldi yfir Eystrasalti.

Stigmögnun spennu á milli Rússa og nágranna þeirra við Eystrasalt er háskaleikur að eldi, eins og sést af fréttum, sem af því berast.

Þegar litið er á sögu Eystrasaltsríkjanna sést, að sá tími, sem þau nutu frelsis ár árunum 1918-1945 var stuttur tími í sögu þessa hluta Evrópu.

Af því leiðir að hætt er við ákveðinni óánægju Rússa, sem sakna veldis Sovétríkjanna og Rússlands fyrir 1917, með það að hafa ekki hin fornu yfirráð yfir þessum löndum.

Árekstrar og vopnaglamur á þessu svæði er engum til góðs.

Rússar njóta yfirburða hernaðarlega séð yfir þessu svæði og eiga ekki að þurfa að óttast að NATO fari að nota Eystrasaltslöndin sem eins konar stökkpall til yfirráða yfir Hvíta-Rússlandi og Úkraínu.

Að sama skapi þarf gríðarmikla hernaðaruppbyggingu til þess að vinna landfræðilegan atstöðumun upp.

Þess vegna ætti það að vera keppikefli beggja aðila að lægja öldur og minnka hættu á slysi og árekstrum sem geta valdið ólgu og stríðshættu.  


mbl.is Rússar sperra stélið yfir Eystrasalti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband