Ísland eitt Norðurlandanna á gamla virkjanafylleríinu.

Þegar Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra Noregs lýsti því yfir árið 2002 að tími stórra virkjana væri liðinn þar í landi, lauk jafnframt tíma stórra virkjana á Norðurlöndum öllum, - nema á Íslandi, þar var bætt í. 

Árið eftir var ákveðið að fara í langverstu virkjanaframkvæmdir í Evrópu hvað varðaði óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif og sömuleiðis út í byggingu þess jarðvarmaraforkuvers landsins, sem felur í sér mestu rányrkjuna og mengunina. 

Nú er það einbeitt stefna Landsvirkjunar að tvöfalda þá orku, sem unnin er úr íslenskum virkjunum, en það þýðir fjórföldun síðan 2002. 

Það eina, sem kemst að, er hvað hægt er að kreista mikla orku út úr virkjanasvæðunum og selja sem mest magn á sem lægstu verði. 

Hér eiga við orð Laxness í frægri blaðagrein 1970: Hernaðurinn gegn landinu, og brotaviljinn er einbeittur. 

Samanlagt óvirkjað vatnsafl hvað magnið snertir er álíka mikið hér á landi og í Noregi. 

Þess vegna ættum við að vera fyrir all nokkru komnir á sama ról og Norðmenn. 


mbl.is Milljarðamunur á virkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skammarlegt að fórna heiðri þjóðar til ills eins.

Þótt Íslendingar væru aðilar að NATO 2003 var það yfirlýst að þjóðin hefði engan her og tæki ekki þátt í hernaði. Íslensk vegabréf voru í heiðri höfð víða erlendis af þessum sökum. 

Við drógum til 1946 að gerast aðilar að Sameinuðu þjóðunum af því að við höfðu alltaf hafnað því að vera aðilar að stríðsyfirlýsingu á borð við stríðsyfirlýsinguna á hendur Öxulveldunum, sem var undanfari Sþ. 

Á útmánuðum 2003 ákváðu hins vegar í raun tveir menn, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, hæstráðendur til sjós og lands á Íslandi, að Ísland skyldi láta setja sig opinberlega á "lista viljugra þjóða" vegna ólöglegrar innrásar Bandaríkjamanna og Breta í Írak á grundvelli upploginna "sönnunargagna" um að Írakar ættu gereyðingarvopn. 

Þau fundust aldrei, hundruð þúsunda Íraka fórust í stríðinu og innanlandsátökum í kjölfarið, sem nú hefur undið upp á sig með tilvist ISIS og áframhaldandi blóðbaðs og hörmunga í landinu með flóttamannavanda sem á sér enga hliðstæðu við Miðjarðarhaf og í Evrópu í 70 ár. 

Davíð virtist halda að með smjaðri og undirgefni gagnvart Georg W. Bush Bandaríkjaforseta gæti hann fengið hann til að hætta við brottflutning hersins af Keflavíkurflugvelli, en annað kom í ljós.

Heiðri og sóma landsins var fórnað til einskis og jafnvel ills eins.

Davíð og Halldór földu ábyrgð sína á bak við beinan eða óbeinan stuðning ríkisstjórnarinnar og Alþingi en það er kominn tími til að Alþingi taki á sig rögg og samþykki einlæga afsökunarbeiðni vegna þessa hörmulega máls.  

 

 


mbl.is Chilcot: Stríð var ekki óumflýjanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkjanasóknin byggist á vanþekkingu.

Ásóknin í á hátt í hundrað stórar virkjanir á Íslandi í viðbót við þær 30 sem eru komnar byggist á því að fólk viti sem minnst eða helst ekkert um það, sem fórnað er.

Ég átti athyglisvert viðta1l við einn af þingmönnum Norðvesturlands fyrir 12 árum.

Hann hafði ári fyrr samþykkt Kárahnjúkavirkjun. Ég spurði hann hvort hann hefði skoðað alla aðra virkjanakosti landsins, svo sem Hvalárvirkjun.

Hann kvað nei við en spurði af hverju ég nefndi Hvalárvirkjun.

Ég sagði honum að Kárahnjúkavirkjun og sambærilegar virkjanir á Íslandi væru með verstu óafturkræfu umhverfisáhrif, sem hugsanleg væru, einkum vegna aurburðar jökulsánna, sem í tilfelli Kárahnjúkavirkjunar fylltu jafnvel 25 kílómetra langan og 180 metra djúpan dal af drullu, auk þess sem slíkar virkjanir væru á hinum eldvirka hluta Íslands, sem ætti sér engan líka í heiminum.

Hins vegar væri Hvalárvirkjun svipuð norskum fjallavirkjunum þar sem ekkert aurset settist í lónin og hægt væri að rífa stíflur og fjarlægja mannvirki, svo að árnar með fossum sínum kæmu aftur í ljós.

"Hefur þér aldrei dottið í hug að hægt væri að virkja Hvalá? Því er haldið fram að hún falli um urðir og grjót á Ófeigsfjarðarheiði, sem enginn þekki."

"Ég myndi aldrei samþykkja virkjun Hvalár," svaraði hann.

"Af hverju ekki?" spurði ég.

"Af því að það er alrangt farið með staðreyndir í því máli. Ég þekki þetta svæði með öllum sínum dásemdum og einstaklega fallegu fossaröð."

Hann þekkti ekki Hjalladal eða allt hið einstæða svæði, sem eyðilagt var með Kárahnjúkavirkjun og samþykkti hana því. Þar gilti aðferð strútsins, að stinga höfðinu í sandinn.

Sama aðferð gilti hins vegar ekki um Hvalárvirkjun með margfalt minni umhverfisspjöllum en miklum þó. Það svæði þekkti hann.

Um þetta gilda þó ekki orðin frægu "Faðir fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gera."

Nú er upplýsingaöld og því verður að breyta setningunni: "Fyrirgef þeim, þótt þeir vilji ekki vita hvað þeir gera."

 


mbl.is Frummat á 55 MW Hvalárvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju hafa hjólin svona margþætta yfirburði?

Tvíhjól, allt frá minnstu reiðhjólum upp í þau hraðskreiðustu, hafa yfirburðí yfir önnur samgöngutæki á mörgum sviðum hvað snertir afköst við venjulegustu viðfangsefni farartækja, að flytja 1-2 menn á milli staða.Honda CBF500

Skiptir ekki máli hvort þau eru fótknúin, rafknúin, með blöndu af fótafli og rafafli eða bensín/dísilknúin, þau eyða minna, hafa meiri hraðaaukningu og kosta miklu minna en nokkurt annað sambærilegt fyrirbæri.

Smá dæmi: Honda CB 500 kostar nýtt í Þýskalandi 5600 evrur, eða helming á við ódýrasta bílinn þar í landi.

Það eyðir 3,2 á hundraðið og fer úr kyrrstöðu upp í 100 km/klst á 5,6 sekúndum, næstum þrefalt hraðar en ódýrasti bíllinn.Náttfari á Hvolsvelli

Til þess að fá bíl með sömu hröðun þarf að borga sjö sinnum meira verð, svo sem fyrir Golf eða BMW.

Hondan er 193 kíló, eða fimm sinnum léttara en ódýrustu bílarnir á markaðnum.

Aðrir framleiðendur bjóða hjól af svipaðri stærð og getu, svo sem Suzuki Inazuma, sem er enn ódýrari.

Rafknúið hjól eyðir rafmagni fyrir um 25 krónur á hundrað kílómetra, en lægsta talan hjá bíl knúnum jarðefnaeldsneyti er um 750 krónur eða 30 sinnum dýrara.Honda PCX

Það er hægt að fá hjól með skjól fyrir ökumann (scooter) sem kostar fimm sinnum minna en ódýrasti bíllinn, eyðir tvöfalt minna eldsneyti, er aðeins rúm 100 kíló að þyngd, nær upp undir 100 kílómetra hraða og kemst því á hvaða hraða, sem löglegur er í íslenska vegakerfinu.

Ég hélt að ég gæti ekki lengur notað hjól af því að hnén eru orðin svo slitin. En með nýjustu rafreiðhjólunum er hægt að stilla áreynslu á hnén eftir þörfum og njóta þess, hve hressandi hjólreiðar eru fyrir sál og líkama.  

Hjólin hafa fyrrnefnda yfirburði af því að þau eru svo einföld og létt.


mbl.is Mörg hundruð hjóla inn í kvöldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband