Eins og að framin hafi verið lögleysa.

Merkilegt er það upphlaup, sem beinst hefur gegn Þjóðkirkjunni vegna þess að tveir hælisleitendur voru handteknir í Laugarneskirkju.

Á útvarpsrásum og í netmiðlum fara mikinn þeir, sem vilja láta refsa Þjóðkirkjunni og leggja hana niður út af þessu atviki.

Einnig að biskup, viðkomandi sóknarprestur og aðri á vettvangi hafi verið verkfæri hryðjuverkamanna Íslamska ríkisins!

Svo langt hefur verið gengið að lýsa yfir samsekt og ábyrgð Þjóðkirkjunnar á því, ef ISIS fremur hryðjuverk gegn Íslendingum, af því að það sé kirkjunni að kenna að myndir hafi birst erlendis af aðgerðum lögreglu, sem gætu reitt múslimska hryðjuverkamann til reiði og fengið þá til að hefna sín á Íslendingum!

Svo langt er gengið að stilla þessu upp sem algerri hliðstæðu þess sem gerðist á Þingvöllum árið 1000 og prestinum líkt við þá, sem vildi "slíta sundir lögin og friðinn" þannig að út brytist borgarastyrjöld!

Í landslögum eru ákveðin ákvæði um grið innanhúss. Þannig eru heimili manna friðhelgt og þarf fógetaúrskurð til þess að ráðast þar inn með lögreglu nema með fógetaúrskurði ef húsráðendur neita að hleypa lögreglu inn.

Mér er kunnugt um mál þar sem ekki hefur verið hægt að ráðast með lögregluvaldi inn í geymslu, sem enginn býr í, af því að það var talið hliðstætt við því að ráðast inn á heimili.

Ef framin var slík lögleysa í Laugarneskirkju sem látið er skína í í skrifum og ummælum um málið væri að sjálfsögðu komið í gang kærumál þar að lútandi.

En ekkert ólöglegt var við það að lofa þessum hælisleitendum að vera í kirkjunni og gera það á grundvelli trúarlegra atriða á borð við kirkjugrið, - láta á það reyna, hvort ráðist yrði þar inn með lögregluvaldi til að fjarlægja hælisleitendurna.

Þeim var ekki leynt þarna og yfirvöld voru látin vita af þeim. Kirkjan var opin og starfsmenn hennar aðhöfðust ekkert til að hindra lögregluna við að hlýða fyrirskipunum um að fjarlægja hælisleitendurna.

Það þurfti ekki einu sinni fógetaúrskurð.

Útlendingarnir voru heldur ekki meiri "hryðjuverkamenn" eða lögbrjótar en svo, að ekkert sakamál hefur verið höfðað á hendur þeim.

Hamagangurinn á hendur kirkjunni hefur staðið stanslaust í viku og honum er haldið áfram.

Þetta er greinilega mikið hjartans mál þeirra, sem mest láta út af þessu.

 

 


mbl.is Hefði mátt undirbúa betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegur og skaðlegur flöskuháls.

Sú tvöföldun Reykjanesbrautar, sem þegar hefur verið framkvæmd, hefur bjargað mörgum mannslífum og komið í veg fyrir örkuml og meiðsli fjölda fólks.

Því vekur það furðu, að enn skuli vera flöskuháls á þessari fjölförnu leið norðan við Hvassahraun þar sem umferðin þyngist eftir því sem nær dregur höfuðborgarsvæðinu.

Hrunið stöðvaði tvöföldun brautarinnar, en við svo búið er ekki hægt að láta standa eftir því sem lengri tími líður frá afleiðingum Hrunsins og vaxandi ferðaþjónustutekjur mokast inn í tugum milljarða á hverjum degi frá því fólki sem einmitt ekur þessa leið fyrsta allra eftir komuna til landsins og síðan til baka við brottför.


mbl.is Þúsundir vilja tvöfalda Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband