Enginn var betri við innsetninguna í dag. "Suður um höfin"!

Þegar Sigmundur Davíð fór ekki til Parísar á vit forystumanna fjölmargra þjóða sem vildu votta Frökkum stuðning og samúð vegna hryðjuverka þar, urðu til þrjár stökur af því tilefni. 

Síðan hafa tvívegis komið upp umtöluð tilefni til að grípa til þessa kveðskapar og nú kemur hið þriðja í tilefni af því að SDG kom ekki til embættistöku nýs forseta Íslands í dag eins og formenn annarra flokka. 

Fulltrúi Framsóknar var því enginn og vísan er svona: 

 

Framsókn oddvitann engan sendi

og engum var flaggað sem var fyrir hendi,  

því það er yfir efa hafið,  

að enginn er betri en Sigmundur Davíð. 

 

Í athugasemdum við þennan pistil er upplýst, að SDG sé á siglingu um Karabíska hafið, en þar eru Bresku jómfrúareyjar með eyjunni Tortólu, heimahöfn Wintris aflandssjóðsins. 

Á Sigmundur því góða möguleika á að syngja lagið "Suður um höfin" á þessum slóðum: 

 

Suður um höfin að sólgylltri strönd 

sigli ég fleyi mínu til að kanna góð aflönd

og meðan ég lifi ei bresta þau bönd, 

sem binda mig við þau, bæði huga og hönd. 

 

Þegar dagur er kominn að kveldi

eins og krakki á tombólu 

get ég dvalið i dollaraveldi 

hins dýra sjóðs´á Tortólu.

 

Suður úr höfum er sigli ég heim, 

ég syng um þá ávöxtun sem fékk ég og tók höndum tveim:

Lífslottóið skil ég 

og ljúft er það geim;  

úr Wintris nú vil ég 

taka vinninginn heim! 

 

Æ,æ,æ,æ, - æ,æ,æ,æ, - æ,æ,æ,æ, 

æææ, æææ!


mbl.is Vildu víkingaklapp fyrir nýjan forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð fannst mér hin fyrsta ræða hins nýja forseta.

Hvað eftir annað, þegar nýr forseti Íslands flutti sitt fyrsta ávarp til þjóðarinnar nú áðan, hrópaði ég upp yfir mig í sama tóni og Jón Ársæll gerir gjarnan:  "EjaááÁ! GóðurrrR!!"

Einlæg, innihaldsrík og áhrifarík ræða. 

Þetta vakti upp 64 ára gamlar minningar.

Ég man enn eftir því þegar ég var í sveit fyrir norðan 1952 og hlustaði á Helga Hjörvar lýsa fyrstu athöfninni af þessari gerð í útvarpi. 

Ekki minnist ég þess hvort ræða Ásgeirs Ásgeirssonar heyrðist þá á öldum ljósvakans, en man enn vel og hermdi síðan eftir Helga, þegar hann lýsti útgöngu Ásgeirs og frú Dóru Þórhallsdóttur út svalir Alþingishússins. 

Helgi virtist ekki vera alveg viss um að klapp fólksins heyrðist í útvarpinu alla leið norður, því að hann fór að lýsa klappinu með þessum orðum:  "Fólkið klappar. Klappar í rokum!" 

 


mbl.is 6. forseti lýðveldisins tekinn við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

21. öldin silast inn.

Þótt 20. öldin hafi verið öld mestu breytinga í sögu mannkynsins verður 21. öldin jafnvel enn markverðari, því að á henni lýkur tímabili, sem í heimssögu framtíðarinnar verður nefnd olíuöldin. 

Aldahvörfin urðu þó ekki nema að hluta til við árásina á Bandaríkin 11. september 2001, heldur eru þau að silast inn. 

Hér á landi markar árið 2016 þau skil, að við  forsetakosningar hnígur til viðar hnígur valdasól tveggja þaulsætnustu stjórnmálamenn 20. aldarinnar, Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar.

Enginn íslenskur forsætisráðherra hefur setið ein lengi á valdastóli og Davíð, 1991-2004, og enginn forseti verið eins lengi í embætti og Ólafur Ragnar, 1996-2016.

Þessi langi valdatími beggja er ekki tilviljun, þetta voru öflugustu stjórnmálamenn landsins í lok 20. aldar og upphafi hinnar 21.

Þátttaka Davíðs í forsetakosningunum 2016 leiddi í ljós, að tíð baráttuaðferða stjórnmála 20. aldarinnar er liðinn og að við siglum vonadi inn í umbreytingu í þeim efnum.

Arfleifð hans felst í því að hann var samtíða þeim stjórnmálaforingjum erlendum, sem mótuðu nýja heimsmynd eftir lok Kalda stríðsins með aukinni alþjóðavæðingu í efnahagsmálum og framleiðslu, sem hefur leitt af sér bæði gott og vont, eins og sjá má á umræðuefnunum í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum.

Arfleifð Ólafs Ragnars er ólík arfleifð Davíðs, - dugnaður hans og ákafi varðandi tröllaukin viðfangsefni 21. aldarinnar í umhverfismálum skilar honum og okkur áfram í því að fást við þau mál, og uppvakningin á sofandi stjórnarskrárgrein um þjóðaratkvæði, skilar vonandi aukinni beinni þátttöku þjóðarinnar í ákvörðunum um mikilsverð málefni.

Nú tekur við forseti, sem líklega verður brú yfir í næsta forseta, sem verður nær holskeflu viðfangsefna síðari hluta þessarar aldar.

Guðni Th. Jóhannesson hefur alla burði til þess að verða farsæll forseti og valda þessu hlutverki sínu með sóma með góðan stuðning og afgerandi úrslit í forsetakosningunum í farteskinu.

Hann getur lagt gott til mála þegar við silumst inn í nýja tíma og honum fylgja góðar óskir um velgengni í starfi.   


mbl.is Guðni settur í embætti í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband