Næsta skref: Almenn uppeldislaun?

Fyrir hálfri öld var mikil uppbygging í gangi á félagslega sviðinu hér á landi hvað varðaði húsnæði fyrir láglaunafólk.  

En það hefði þótt fjarstæðukennd hugmynd að greiða fæðingarorlof. 

Fæðingarorlof er einhver mesta réttarbót fyrir konur, sem lögleidd hefur verið. 

En úr því að talið er rétt að greiða fé fyrir uppeldi ungbarna ætti næsta skref að vera að greiða laun fyrir uppeldi hvers barns. 

Hve lengi á þetta mikilvæga undirstöðustarf að vera ólaunað á meðan greidd eru laun fyrir öll önnur störf, sem flest hafa ekki sama vægi og uppeldið hvað snertir grunnþjónustu við hvern fæddan einstakling á meðan hann er að vaxa úr grasi?

Einhver sagði við mig um daginn að Davíð Oddsson hefði einhvern tíman orðað þessa hugmynd, en ég veit ekki hvort það er rétt. 

Í þessu sambandi er hægt að nefna sláandi dæmi:  Gefum okkur að bóndi nokkur hefði verið með ráðskonu á launum hjá sér, þau hafi fellt hugi saman og því ákveðið að ganga í hjónaband. 

Þá bregður svo við nákvæmlega óbreytt starf hjá konunni verður launalaust, og við það minnka þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur sem því nemur!  

Uppeldislaun eru líklega eitthvert mesta framför í réttindabaráttunni sem hugsast getur. 

Tökum sem dæmi konu, sem fætt hefur og alið sjö börn, hefur tekist að vinna hluta af ævistarfinu í láglaunastarfi eftir því sem börnin voru vaxin úr grasi, en rétt slefar síðan í 200 þúsund krónur á mánuði í lífeyri á ævikvöldinu. 

Í tengdri frétt er greint frá því að laun í fæðingarorlofi geti orðið allt að 600 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt frumvarpi um fæðingar- og foreldraorlof, eða þrefalt hærri laun en lífeyrir konunnar sem kom sjö einstaklingum til manns. 

Þetta sýnir það óréttlæti sem felst í hraklegum kjörum aldraðra og þá einkum kjörum kvenna. 


mbl.is Hámarksgreiðslur verða 600 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama ófremdarástand merkinga sumar eftir sumar.

Í áratugi hafa verktakar við gatnaframkvæmdir í Reykjavík komist upp með það að vanrækja svo stórlega merkingar vegna lokana gatna að oft hefur það valdið miklum vandræðum og umferðartöfum. 

Stundum, eins og eitt sinn á Suðurlandsbraut, er engin merking fyrr en ökumenn eru komnir nánast á skurðbakkann. 

Dæmin eru mýmörg, nú síðast írekað við mislæg gatnamót Vesturlandsvegar og Víkurvegar, fengu ökumenn enga vitneskju um lokun leiðar fyrr en svo seint að aka varð áfram Vesturlandsveginn og fara aðra leið, sem var þremur kílómetrum lengri. 

Enn verra var þetta eitt sinn á gatnamótum Vífilsstaðavegar og Reykjanesbrautar þegar ég ætlaði að verða viðstaddur jarðarför í Vídalínskirkju en varð að krækja suður í Hafnarfjörð, til vesturs að Álftanesgatnamótum og þaðan til baka, alls um fimm kílómetra vegalengd.

Eitt sinn þurftu ökumenn að taka á sig stóran krók í gegnum þröngar götur Þingholtanna vegna framkvæmda, sem engar merkingar sáust um fyrr en komið var í óefni og ekki hægt að aka miklu skaplegri leið.

Í tilfellinu Víkurvegur-Vesturlandsvegur hefði eitt stórt skilti vestan við Höfðabakkabrú getað beint ökumönnum, sem ætluðu í austuanver Grafarvogshverfi, um Höfðabakka og Gullinbrú.  

Þetta er alveg á skjön við það sem gerist erlendis, þar sem ævinlega er látið vita nógu tímanlega fyrir ökumennn hvort þeir þurfi að fara hjáleið eða aðra leið vegna lokunar af völdum vegaframkvæmda. 

Fyrir nokkrum árum sagði ég frá því að verktaki lokaði inni 700 manna hverfi við Háaleitsbraut að morgni dags, en hefði að sjálfsögðu getað látið íbúana vita með skiltum kvöldið áður eða með því að dreifa bréfi um þetta í hús. 

Verkstjórinn brást hinn versti við þegar minnst var á þetta við hann og jós úr sér svívirðingum bálreiður.

Ég kannaði málið betur og kom í ljós að með þessu voru brotnir útboðsskilmálar, en hjá borginni fékk ég þau svör að þar á bæ væri ekki mannskapur til að fylgja þeim eftir.  


mbl.is Malbikunarvinna við Sæbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo grátlega tímafrek bylting, ef hún er möguleg.

Bráðum verða liðnir tveir áratugir síðan það kom fram, að við með því að bora tvisvar til þrisvar sinnum dýpra niður i jörðu á háhitasvæðum, en gert hefur verið fram að þessu, yrði hægt að margfalda þá orku, sem hægt yrði að ná út úr hverri borholu. 

Var talað um fimmfalt eða jafnvel allt að tífalt meiri orku en hingað til hefur verið hægt að fá. en það myndi þýða algera umbyltingu og risastökk í nýtingu háhitasvæða. 

Ef svona tækni hefði verið komin þegar Kárahnjúkavirkjun var á döfinni, hefði þetta þýtt að í stað þess að valda hinum óheyrilega miklu óafturkræfu umhverfisspjöllum, sem hún olli, hefði verið hægt að fara fyrst í það að virkja á þennan hátt til að útvega stóriðju rafmagn. 

En því miður virðist sýnin á svona byltingu jafn fjarri nú og fyrir 20 árum. 

Ofuráherslan á Kárahnjúkavirkjun dró greinilega úr áhuga manna á því að fara af fullum þunga út í þær miklu og kostnaðarsömu tilraunaboranir sem þurfti til þess að sannreyna hina nýju tækni, sem gat umbylt möguleikum til beislunar íslenskrar jarðvarmaorku. 

Á þetta var bent í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" og í áttblöðungi, sem borinn var niður Laugaveg í Jöklugöngunni fyrir tíu árum. 

Fyrir sjö árum var loksins drattast til að bora fyrstu djúpborunarholuna, og þá völdu menn nokkurn veginn glataðasta stað til þess, sem hugsast gat, við hliðina á gersamlega misheppnaðri borholu hjá gígnum Víti við Kröflu frá 1975, sem réttilega hlaut þá heitið Sjálfskaparvíti!

Þessi hola, sem kalla mætti Sjálfskaparvíti 2, kostaði milljarða á núverandi verðlagi, og með því að bora svona nálægt gosstöðvunum frá Kröflueldunum, var komið ofan á glóandi hraunkviku löngu áður en komist var neðar en áður hafði verið borað.

Nú verður, seint og um síðir, borað á skárri stað, og enn verður að bíða eftir því að loksins komi í ljós, hvort árangur náist, sem getur forðað okkur frá því að vaða út um víðan völl með virkjanir, en í staðinn verði hvert virkjanasvæði nýtt á margfalt betri hátt en nú er hægt.  

 

 

 

 


mbl.is Hefja djúpborun á Reykjanesi síðar í þessum mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband