Stjórnmál eru list hins mögulega og að forðast hið ómögulega.

Víst væri að vissu leyti ágætt á pappírnum að þingkosningar verði eftir sex vikur, í septemberlok, svo að nægur tími gæfist til að negla niður ríkisstjórn og klára fjárlögin. 

En þessi tillaga Vigdísar er andvana fædd, því að þetta gengur ekki upp í framkvæmd.

Flokkarnir eru búnir að gera sínar áætlanir um aðdraganda kosninga í októberlok og samkvæmt því er enginn tími til að klára þær áætlanir fyrir kjördag, ef nú á að fara vaða strax í kosningar. 

Tvívegis áður, að minnsta kosti, 1942 og 1959, hafa verið kosningar í október þegar samgöngur og aðrar aðstæður voru miklu lakari en nú er, og þegar stjórnarsamstarf þriggja flokka rofnaði í september 1979, voru haldnar kosningar í desember, - styttri gat aðdragandinn ekki verið.   


mbl.is „Þessari störukeppni verður að ljúka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oddvitasætin eru oft stökkpallar í ráðherrastóla.

Fólk fer í stjórnmál til þess að hafa áhrif og telur sig hafa það mikilsverð mál og sjónarmið fram að færa, að það þurfi að koma sér í aðstöðu til þess að þoka þeim fram.

Það er löng hefð fyrir því að oddvitasæti á framboðslistum flokka eru eitt sterkasta trompið til þess að koma sér í áhrifastöðu, og ein sterkasta áhrifastaðan er að vera oddviti flokks síns í kjördæmi.

Þess vegna verður tekist hart á innan flokkanna um oddvitasætin á næstu vikum og gildir þá einu hvort vonin um að viðkomandi flokkur komist í ríkisstjórn eða ekki sé veik eða sterk, - að sækjst ekki eftir oddvitasæti er ávísun á það að verða ekki ráðherra.

Svo mikilsvert þykir að oddvitar eigi kröfu á ráðherradómi ef vel gengur, að það vakti sérstaka athygli þegar Vigdís Hauksdóttir varð ekki ráðherra 2013, en fékk í staðinn að verða formaður fjárveitinganefndar.

Í starfi stjórnlagaráðs var leitað eftir leiðum til að efla vægi formanna þingnefnda til þess að jafna völd framkvæmdavalds og löggjafarvalds.   


mbl.is Tekist á um oddvitasætin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæg en ógnandi stigmögnun.

Ekki þarf annað en að líta á landakort til að sjá, að Rússar munu ekki sleppa hendi af Krímskaga frekar en að Bandaríkjamenn myndu sleppa hendi af Flórídaskaga. 

Rússar fórnuðu lífi 55 þúsund hermanna í Krímstríðinu um miðja 19. öld og margfalt fleiri hermönnum í Seinni heimsstyrjöldinni vegna Krímskagans. 

Yaltaráðstefnan var haldin á Krímskaga og í norðurhéruðum Rússlands norðan heimskautsbaugs fengu allir íbúar ókeypis ferð til Krím á elliárum sem uppbót fyrir kulda og myrkur rússneska vetrarins þegar ég var þar á ferð 1978. 

Rússar létu Úkraínu eftir Krímskagann 1964 vegna þess að þá voru bæði Úkraína og Rússland hluti af einu ríki, Sovétríkjunum, sem hafði Moskvu sem höfuðborg. Krústjoff og félögum óraði ekki fyrir því að Úkraína yrði sjálfstætt ríki, og því síður fyrir því að ESB og NATO vildu teygja þangað anga sína. 

Rússar áskilja sér og munu halda áfram að áskilja sér rétt til að þjóna öryggishagsmunum sínum gagnvart Úkraínu á svipaðan hátt og Bandaríkjamenn myndu áskilja sér rétt til svipaðs varðandi Kanada. 

Það er auðvitað slæmt hvernig tortryggnin ræður ríkjum í samskiptum þjóða og hvernig stórveldin eru með afskipti af málefnum annarra ríkja, en þetta hefur því miður verið raunin alla tíð og verður erfitt að breyta. 

Á meðan svo er, getur verið háskalegt að leyfa spennu að stigmagnast eins og nú er að gerast við bæjardyr Rússa og á Suður-Kínahafi. 

Kannski er hugsun Vesturveldanna sú gagnvart Rússum að láta þá þurfa að hafa fyrir því að stunda sína öryggispólitík, en þá þarf að sjá nokkra leiki fram í tímann, svo sem það að Pútín kunni að fá óvænta liðveislu, Erdogan Tyrklandsforseta. 

Og þótt mönnum finnist það súrt í broti, verður stundum að stunda raunsæispólitík og sætta sig við staðreyndir, þótt þær kunni að virðast óþægilegar. 

 


mbl.is Flytja eldflaugavarnakerfi á Krímskaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband