Phelps, Ali og Bubka, í mesta lagi einn á öld.

Sumir afreksmenn eru þannig, að erfitt er að sjá hvort hægt sé að endurtaka það sem þeir gerðu.

Afrek Michael Phelps skipar honum í þvílíkan sérflokk hvað varðar Ólympíugull að enginn annar kemst þar neitt nálægt í neinni íþróttagrein, tölurnar 23 gull og alls 28 verðlaun tala sínu máli. 

Svipað er að segja um Sergei Bubka. 

Hann var yfirburðamaður í áraraðir í íþróttagrein, þar sem ekki er hægt að deila um árangur, því að hann er mældur í óvéféngjanlegri mælistiku, metrum og sentimetrum, og yfirburðirnir er fáheyrðir, tíu sentimetrar í þann næstbesta, og alls sett 35 heimsmet á ferlinum. 

Það er kannski erfiðara að meta íþróttamenn í flokkaíþróttum og íþróttum, þar sem ekki er mælt í sentimetrum eða kílóum. 

En sérfræðingum ber nokkuð saman um það að Muhammad Ali hafi verið fremsti íþróttamaður 20. aldarinnar og að varla sé mögulegt að það komi annar eins fram oftar en einu sinni á öld. 

Ástæðan er sú að það á að vera ómögulegt að jafn hár maður, 1,90 á hæð og tæp 100 kíló á þyngd, gæti búið yfir hraða, viðbragðsflýti og úthaldi léttvigtarhnefaleikara, auk þess sem persónuleikinn, útsjónarsemin og ráðsnilldin voru einstök. 

 


mbl.is Sá sigursælasti í sögu Ólympíuleikanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf sterk bein til að þola góða daga.

Dæmin eru mýmörg varðandi máltækið að það þurfi sterk bein til að þola góða daga. Sömuleiðis er mikið til í ljóðlínunni í gamla dægurlaginu "The best things in life are free."  

Stundum er það svo, að skortur og barátta hafa beinlínis kallað fram þá afreksgetu íþróttamanna sem beinlínis hefur byggst upp vegna harðrar lífsbaráttu, þannig að þegar þeir óðu skyndilega í peningum slævðist sá andlegi styrkur þeirra, sem er grundvöllur afburða líkamlegrar getu. 

Á ferð um Klettafjöllin suðvetur af Denver hér um árið gafst tækifæri fyrir okkur hjónin að sjá litla húsið, sem Jack Dempsey, fyrsta nútíma ofurstirnið í íþróttum, óls upp í hjá einstæðri móður. 

Dempsey varð frá blautu barnsbeini að leggja sig fram við erfiða vinnu, kolamokstur og fleira, til þess að afla heimilinu tekna. 

Í þessum störfum varð hann sterkur og fór brátt að afla sér aukatekna með því að bjóða sig fram til hnefaleika sem "lausamaður", (journeyman). 

Að loknum glæsilegum ferli á því sviði vann hann tröllið Jess Willard, sem var 15 sentimetrum hærri og tugum kílóum þyngri með fáheyrðum yfirburðum, sem skópu Dempsey heimsfrægð á augabragði. 

Í kjölfarið fylgdu ekki siðri bardagar og í lok ferilsins fjölsóttustu hnefaleikabardagar allrar tíma með 100 þúsund áhorfendum og gríðarlegustu tekjum sem um getur. 

En tveimur stærstu bardögunum tapaði Dempsey vegna þess að hið ljúfa líf, sem fylgdi frægðinni, hafði dregið úr honum þá snerpu og kraft, sem var grundvöllur alls hjá honum. 

Svipað má segja um Prince Naseem-Hamed, sem ólst upp á götunni og þurfti að verjast árásum mun stærri götudrengja. 

Þekktur hnefaleikaþjálfari sá hann út um glugga á strætisvagni hafa í fullu tré við hóp stærri drengja, fór úr vagninum og fann piltinn, tók hann í ræktina og gerði úr honum einhvern sérstæðasta hnefaleikara sögunnar hvað snerti kattlipurð, hraða, höggþyngd og það sem kallað er "killers instinct."

Frægðin og velgengnin tóku hins vegar sinn toll. Hann gleymdi "þræðinum að ofan", rak þjálfarann og taldi sig gera þetta betur án hans.

Þegar við Bubbi heilsuðum moldríkum kappanum fyrir bardaga í Manchester 1999, var hönd hans köld og þvöl og greinilegt að hann var í vandræðum með að halda þyngd sinni í skefjum. 

Honum tókst að sleppa frá bardaganum á ótrúlegan hátt, en eftir það lá leiðin niður á við. 

Lennox Lewis stóðst ekki freistinguna um að leika smáhlutverk í Hollywood-mynd á undirbúningstíma bardaga við Haseem Rachman og það nægði til þess að þessi besti þungavigtarboxari síðustu áratuga var ekki í sínu allra besta formi og var rotaður. 

Hann lærði af þessu og sneri dæminu við þegar þeir mættust aftur í hringnum. 

 


mbl.is „Manchester United rústaði lífi mínu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þið eruð ekki þjóðin", 1989, 2008, 2016.

Erich Honecker leiðtogi Austur-Þýskalands mælti ofangrein orð þegar um hundrað þúsund manns voru samankomin á mótmælafundi skömmu fyrir fall Berlínarmúrsins. 

Hlutfallslega var þetta sami fjöldi, miðað við fólksfjölda landanna, og að 200 manns hefðu verið á mótmælafundi á Íslandi. 

Gunnar Bragi Sveinsson gefur sér að 100 þúsund manns styðji þessa ríkisstjórn á sama tíma og ríkisstjórnin hefur verið með um 35% fylgi síðustu misseri í skoðanakönnunum.

"Þjóðin hefur ekki beðið um neitt" segir hann þótt fjölmennustu mótmæli í manna minnum hafi verið í vor, sem þýðir það sama og "þið eruð ekki þjóðin."

Á einum af mörgum fjöldafundumí kjölfar Hrunsins haustið 2008, sagðist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir efast um að fundarmenn túlkuðu skoðanir þjóðarinnar. Klaufalegt.  


mbl.is „Þjóðin hefur ekki beðið um neitt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband