Vegaaxlirnar eru stórhættulegar.

Eftir að ég fór að ferðast nær eingöngu á hjólum, annars vegar rafreiðhjólinu Náttfara og hins vegar létta bifhjólinu Létti ( "vespuhjól" 125 cc ) hefur það blasað betur við en áður, að stórfelld vanræksla hefur verið á viðhaldi og gerð vegaaxla hér á landi, líklega vegna hins mikla skorts á fé til vegagerðar og viðhalds vega. 

Hvergi eru neinar merkingar sem vara við því að axlirnar séu í svona ástandi, hvorki í þéttbýli og dreifbýli. 

Axlirnar geta verið mikilvægt öryggisatriði fyrir hjólreiðafólk og bifhjólafólk. Ef axlirnar eru vel gerðar og hreinar getur hjólaumferð farið eftir þeim og aukið aðskilnað bíla og hjóla og þar með öryggi allra vegfarenda.

En jafnvel við stofnbrautir á Reykjavíkursvæðinu eru axlirnar til stórrar skammar, sums staðar eru kaflar í góðu ástandi, en síðan koma skyndilega slæmir kaflar, sem valda því, að hinn hjólandi maður lendir í stórfelldum vandræðum, sem annað hvort enda með því að hann missir stjórn á hjólinu eða neyðist til að fara inn á akbrautina í hættulegt návígi við bílana.  


mbl.is Brýnt að ráðast í aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtrygging var réttlætismál. Vextirnir eru aðalatriðið.

Verðtrygging lána var eitt stærsta réttlætismál síðustu aldar til þess að sporna við því að lántakendur gætu rænt af sparifjáreigendum sem svaraði hundruðum milljarða króna samtals á núvirði, af því að gríðarleg verðbólga át upp afborganirnar.

Það er út af fyrir sig réttlátt að tryggt sé að verðgildi peninganna haldi sér, en þegar verðbólgan er mikil geta tölurnar litið illa út fyrir lántakandann, sem sýnist hann ekkert komast áfram við að borga af láninu, af því að smærri krónur eru fleiri. 

Dæmið þarf hins vegar reikna frá báðum hliðum því að oftast hefur krónutala launa hækkað líka, og hún er ein af orsökum verðbólgunnar. 

Þegar lán eru ekki verðtryggð, hyllast lánveitendur á óvissutímum til að nýta sér aðstöðu sína til að hafa vextina háa, og afleiðingin er sú að verðtryggðu lánin koma oftast betur út fyrir lántaka en óverðtryggð lán. Annars væru þau ekki eftirsótt. 

Í ljós hefur komið að upphrópanir í loforðum um að afnema verðtrygginguna hljómuðu vel þegar loforðin voru gefin, en komið hefur í ljós að það væri hvorki réttlátt né mögulegt að efna þau, enda asnalegt að svipta fólk möguleika á því að ráða sjálft hvort það taki þau lán sem því hentar og kemur best út.

Aðalatriðið eru vextirnir, sem eru allt of háir, bæði vegna óverðtryggðra og verðtryggðra lána.

Það þarf að afnema það fyrirbæri að bankar og lánastofnanir nýti sér aðstöðu sína til að hámarka gróða sinn með því velta nær allri áhættunni á lántakendur.  

 

 

 


mbl.is Langflestir kjósa verðtryggt lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert er gefið varðandi gengi stórvelda. Veldur hver á heldur.

Fyrir 1979 var talið að Íran stefndi í að verða stórveldi sem skagaði hátt í veldi Indlands og væri þar að auki á leið til vestræns lýðræðis. 

Allt annað kom á daginn. 

1939 var Úkraína nefnd sem kornforðabúr Evrópu. 

Á næstu áratugum hrundi landbúnaðarframleiðsla Sovétríkjanna svo mjög að flytja varð inn landbúnaðarvörur í stórum stíl. 

Í lok valdatíma Maós og fyrst árin þar á eftir sýndist mönnum fjarri þau aðvörunarorð frá því öld áður að Kína væri sofandi risi, og menn mættu biðja fyrir sér ef hann vaknaði. 

Allir vita hvert veldi Kína er nú; nokkuð sem engan óraði fyrir. 

Stórveldi og öflug ríki rísa og falla, Mesópótamía, Rómaveldi, Spánarveldi, Tyrkjaveldi, Austurríki-Ungverjaland, Sovétríkin. 

Nú er það Brasilía, sem er á fallandi fæti án þess að hafa hafist upp á þann stall, sem spáð var. 

Oftast vegna þess að veldur hver á heldur. 


mbl.is Ris og fall Brasilíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband