Fróðleiksmolar um létt vélhjól.

Ég hef fengið upphringingar og skilaboð um að veita upplýsingar um létt vélhjól og skal birta örfáa fróðleiksmola. 

Ýmis misskilningur hefur eðlilega komið fram varðandi rafreiðhjól og vélhjól í tengslum við hringferð vespuhjólsins Léttis fyrir tveimur dögum.

Margir halda að hjólið sé svipað hvað snertir vélarstærð og getu og vespuhjólin, sem æ fleiri unglingar aka og eru hvorki skráningarskyld né tryggingaskyld, en það er ekki rétt. 

Í upphafi skoðaði ég þann möguleika að fara frá Reykjavík til Akureyrar á slíku hjóli, en vélarstærð þeirra er aðeins 50 cc og leyfður hámarkshraði aðeins 25 km/klst. 

Á slíku hjóli hefði ferðin til Akureyrar tekið 16 klukkustundir nettó, eða 18 klukkustundir alls og ferð kringum landið tekið alls þrjá og hálfa til fjóra sólarhringa í stað rúmlega eins sólarhrings á Létti.  

Ef ég hefði farið á rafreiðhjóli hefði ferðin tekið sex daga, vegna tafa við að endurhlaða rafhlöðurnar.  

Og þegar 50cc hjólin eru keyrð á fullu afli, eyða þau meira bensíni en 125 cc hjólið, sem ég fór á, vegna þess hvað þau eru lágt gíruð. 

Ég skoðaði líka möguleikann á að auka hraðagetu 50 cc hjóls á einfaldan hátt, svo að það nái 45 km/klst hraða, en þá þarf að skrá hjólið, tryggja og hafa léttari réttindi en mótorhjólapróf. 

(Ökuskírteini mitt er frá 1957, en því fylgja réttindi til að aka hvers kyns ökutæki sem er.)

Á svona hjóli hefði ég ekki náð fram sama sparnaði og á 125 cc hjóli, og þurft þrjá sólarhringa í ferðina.

Auk þess er bagalegt að geta ekki verið á fullum þjóðvegahraða til að minnka stórlega vandræði vegna framúraksturs.DSCN7883

Létt vélhjól hafa hingað til varla sést hér á landi, ólikt því sem er í öðrum löndum. Nú hef ég farið 80 prósent minna ferða á rafreiðhjólinu Náttfara í meira en ár og síðasta mánuðiðinn einnig á bensínvespunni Létti og blæs á að veðurfar hér á landi komi í veg fyrir slíkt frekar en til dæmis á vesturströnd Noregs, þar sem rignir miklu meira en hér.

Í hringferðinni um landið 18.-19. ágúst fékk ég allar tegundir af íslensku sumarveðri.  

Hér er einföld flokkun á léttum vél hjólum, rafhjólum og bensínhjólum upp í 125 cc: 

DSCN79901. Rafvespuhjól:

Þarf hvorki skráningu né tryggingu og má nota á hjóla/gangstígum. Hámarksvélararfl: 0,5 hestöfl (350 vött). Leyfður hámarkshraði: 25 km/klst. Handgjöf. Þyngd: Ca 60 kíló. Hleðslutimi: 6 klst. Verð: Í kringum 200 þús. 

Kostir: Fæturnir í nokkru skjóli fyrir regni. Þægilegt að hafa handgjöf. Auðvelt að finna stæði. Lágt aldurstakmark. 

Gallar: Meira en tvöfalt þyngri en rafreiðhjól. Vantar góða möguleika á að nota fæturna líka til þess að koma yl í skrokkinn og hjálpa til í brekkum. Nær ekkert geymslurými, verður að setja kassa aftan á til að hafa eitthvað smávægis geymslurými.

Náttfari 13.8.162. Rafreiðhjól: Þarf hvorki skráningu né tryggingu og má nota á hjóla/gangstígum. Hámarksvélarafl: 0,35 hestöfl (250 vött). Leyfður hámarkshraði: 25 km/klst. Hleðslutími: 6 klst. Verð: Frá 160-440 þús. 

Kostir. Hjóla/göngustíganotkun. Meira en helmingi léttari en rafvespur. Hressandi að nota fæturna til að fá fram rafaflið (pedelec) og öryggisatriði ef orkuþurrð verður. Möguleikar á miklu meira geyslurými en á vespunum. Rafhjólið mitt Náttfari getur verið með allt að 110 lítra geymslurými í þremur töskum. Auðvelt að finna stæði eða flytja með sér í bíl. Lágt aldurstakmark. 

Gallar: Fáránlegt að ekki megi vera handgjöf á hjólinu úr þvi að hjólið er léttara og aflminna en vespurnar. (Það má í Ameríku, og hámarkshraðinn þar 32 km/klst og í örfáum Evrópulöndum). Ekkert skjól fyrir vindi og vatni.

Dæmi um hjól í þessum flokki: Náttfari, hjólið mitt. (Dyun). 

2011-Yamaha-EC-03-EU-Basic-White-Studio-0013. Rafhjól, aflmeiri en 0,5 hestöfl (350 vött):

Vantar því miður alveg hér á landi, enda hlutfallslega dýr og þurfa skráningu og tryggingu. Gríðarmikið úrval, það ódýrasta er Yamaha, kostar 2550 evrur í Þýskalandi. (sjá mynd)   Langflest með 45 km hámarkshraða, en líka eru til hjól til með hærri hraða, það hraðskreiðasta með 164 kílómetra hámarkshraða og 67 hestöfl, innan við 4 sek í hundraðið og kemst allt að 300 km á einni hleðslu, kostar 17 þúsund evrur í Þýskalandi. (Minnst fjórar milljónir hér á landi). Hleðslutími ca 6 klst en 10,5 klst á því kraftmesta. 

Kostir: Meiri hraði og afl en á 1. og 2. Hljóðlaus, enginn útblástur. Fjölbreytt hraðasvið, snerpa. Auðvelt að finna stæði. Lipurð í umferðinni og afar praktísk í borgarumferð. 

Gallar: Tiltölulega dýr. Þurfa skráningu og tryggingu. Lítið drægi á flestum rafhjólum. Tafir vegna hleðslutímans ef farið er út á þjóðvegi.   

DSCN7988 

 

 

 

 

 

 

 

 

4. Bensínvespa, 50 cc, lægsti flokkur:

Þarf hvorki skráningu né tryggingu og má nota á hjóla- eða gangstígum. Vél, 50cc, afl ca 1,7 - 2 hestöfl. Miklu minni eyðsla en á bíl, 2,5 - 3 l /100 km. Þyngd: 70-90 kíló. Hámarkshraði 25 km / klst.

Kostir: Lausar við tafir vegna endurhleðslu á orku. Miklu minni eldnseytis- og viðhaldskostnaður en á bensínbíl, engin gjöld, skráning eða tryggingar. Liprar í umferð.

Gallar: Þyngri en rafreiðhjól og með meiri orkukostnað. Seinfær á lengri leiðum.

Dæmi um hjól í þessu flokki: Znen og Tamco F1. 

 

5. Bensínvespa, 50 cc miðflokkur:

Skráningar- og tryggingaskyld. Vél: 50 cc, afl rúmlega 3 hestöfl. Hámarkshraði 45 km / klst. Eyðsla 2,5 - 3 l. 100 km. Þyngd: 70 - 90 kíló. Verð: 220 þúsund plús. 

Kostir: Sömu og í lægsta flokki en næstum tvöfalt fljótari í förum. 

Gallar: Mega ekki vera á hjóla- og gangstígum og verða að vera skráð og tryggð. Þyngri en rafreiðhjólin og með meiri orkukostnað. Seinfær utanbæjar. 

DSCN7909

6. Bensínvespa, 125 cc miðflokkur: 

Skráningar- og tryggingarskyld. Vél: 125 cc, afl 8-15 hestöfl. Hámarkshraði 90-110 km/klst. Eyðsla 2,2 - 2,5 l./ 100 km. Þyngd: 100-190 kíló. Verð: 450 - 1300 þús. Létt bifhjólapróf. Ódýrari trygging en í vélhjólaflokki. 

Kostir: Getur fylgt umferðarhraða, jafnt í þéttbýli sem úti á þjóðvegum. Meira farangursrými og þægindi en í lægri flokkum og býsna gott í dýrari gerðum, svonefndum sófahjólum. Létt og lipur í umferð og dýrari hjólin (sófahjólin) eru þægileg ferðahjól með miklu farangursrými.Léttir, Jökulsárlón

Gallar: Ódýrustu hjólin með lítið farangursrými. Framrúða og farangurskassi æskilegir aukahlutir. Aukin stærð og þyngd gera sófahjólin svifaseinni, einkum í brekkum.

Allir helstu vélhjólaframleiðendur heims keppast við að selja hjól í þessum flokki, sem eru einna söluhæst í Evrópu.

Dæmi: Honda PCX og Forza 125, Yamaha X-Max 125, Kawasaki J125, Suzuki Burgman 125, Vespa GTS Super 125, Peugeot Satelis 2 125, Piaggio Beverly, Tauris Broadway 125.  

   

  

 


mbl.is Gæti tvöfaldað endingu rafhlaðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin endalausu "túrbínutrix."

1970 var því sem ég hef kallað "túrbínutrix" beitt í Þingeyjarsýslu.

Virkjanamenm ákváðu stórfellda stækkun Laxárvirkjunar í krafti svonefndrar Gljúfurversvirkjunar, en lokastig hennar var að veita hinu auruga Skjálfandafljóti úr farvegi sínum ofan Aldeyjarfoss, sem þurrkaður yrði upp, yfir í Kráká og þaðan í upphaf Laxár í suðvesturhorni Mývatns og niður í Laxárdal, sem sökkt yrði í miðlunarlón.

Stjórn Laxárvirkjunar pantaði tvær stórar túrbínur, og stillti heimamönnum í Mývatnssveit og Laxárdal upp við vegg: Ef þið farið ekki að vilja okkar munum gera ykkur ábyrga fyrir tjóninu af því að túrbínurnar verða ekki notaðar.

Sigurður Gizurarson, lögmaður landeigenda, sneri dæminu við í málsvörn sinni: Með því að vaða svona áfram í málinu eiga virkjanamenn sjálfir að bera ábyrgð á flumbrugangi sínum, frekju og yfirgangi.

46 árum seinna svifur andi túrbínutrixins enn yfir vötnum: Gerðir eru samningar og byrjaðar framkvæmdir á Bakka á grundvelli risaháspennulínu, sem upphaflega var ákveðin með tíu sinnum stærri stóriðju í huga, og heimamönnum stillt enn og aftur upp við vegg: Ef þið gerið ekki eins og við viljum gerum við ykkur ábyrga fyrir því tjóni, sem hlýst af því að við getum ekki staðið við að afhenda orkuna.

Landvernd snýr dæminu við eins og Sigurður Gizurarson forðum og segir: Þið eigið sjálfir að bera ábyrgð á afleiðingunum af flumbrugangi ykkar, frekju og yfirgangi.

Það lá fyrir 2012, fyrir fjórum árum, að allt aðrar og breyttar forsendur voru fyrir lagningu háspennulínu eftir að álver á Bakka var slegið af.  Landsnet ákvað samt að vaða áfram með risalínuna með miklum og óafturkræfum umhverfisspjöllum í stað þess að setjast niður og finna aðra lausn.  

Þetta fyrirtæki er óforbetranlegt, veður áfram bæði fyrir norðan og sunnan í anda hinna endalausu túrbínutrixa.  


mbl.is Tafir heimatilbúinn vandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gildi píslarvættisdauðans.

Píslarvættisdauði þar sem píslarvotturinn drepur aðra, er illu heilli oft mærður af þjóðum og trúarhópum. Slíkar sjálfsmorðsárásir eru óhugnanlegar og óverjandi. 

Dæmin eru mýmörg, allt frá því að senda menn útí opinn dauðann í orrustum eða jafnvel loftárásum, bara til þess eins að drepa sem flesta aðra. 

Í svonefndri Doolittle-árás á Japan vorið 1942 vissu flugmennirnir á vélunum 16, sem flogið var, að líkurnar á því að þeir lifðu af væru óvenju litlar, því að forsenda árásarinnar var að flugvélunum yrði flogið aðeins aðra leiðina, af því að þær höfðu ekki flugþol til að komast til baka. 

En heppnin var með árásarmönnum og þeir komust langflestir lífs af. 

50 þúsund ungir Bretar voru sendir út í opinn dauðann fyrsta daginn í orrustunni við Somme fyrir réttri öld til þess að fórna sér fyrir föðurlandi og drepa sem flesta Þjóðverja. 

Í lok Seinni heimsstyrjaldarinnar sendi Hitler kornunga drengi á vígvöllinn til þess að deyja fyrir föðurlandið. 

70 prósent þeirra, sem sendir voru á þýskum kafbátum til að sökkva skipum bandamanna og drepa óvini, lifðu kafbátahernaðinn ekki af, voru í raun sendir út í opinn dauðann.  

Þessar árásir ásamt ótal öðrum voru gerðar af kristnum þjóðum en þjóðir með ýmis trúarbrögð hafa frá örófi alda látið unga menn fórna sér fyrir föðurlandið. 

Kamikaze loftárásir Japana á bandarísk skip undir lok Seinni heimsstyrjaldarinnar byggðust á því að einn maður dæi píslarvættisdauða og dræpi sem flesta óvini. 

Þetta var á skjön við orð bandaríska hershöfðingjans Pattons:  "Menn fara ekki í stríð til að fórna lífi sínu fyrir föðurlandið, heldur til þess að hinn villimaðurinn fórni sínu lífi fyrir sitt föðurland. 

Píslarvætti er að ýmsum tegundum. Grundvöllur kristinnar trúar er píslarvætti Krists, sem þó fólst ekki í því að drepa neinn. Var samt fórn foreldris, því að grundvallarsetning Biblíunnar er þó svona: "Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn til að hver sem á hann trúir, glatist ekki, heldur eigi eilíft líf."


mbl.is 12 til 14 ára barn í sprengjuvestinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hópíþrótt skapar einstaklingsverðlaun.

Við erum það örsmá þjóð á alþjóðlegan mælikvarða og því er það óvenjulegt afrek að við eigum á sama tíma lið í knattspyrnu karla og kvenna sem komast á stórmót og körfuboltalið sem kemst á stórmót. 

Þess vegna er það helst í einstaklingsíþróttum sem smáþjóðir eiga möguleika á verðlaunum á stórmótum. 

En það er líka skemmtilegt þegar hópíþrótt eins og handbolti skapar afburðaeinstaklinga, sem fá verðlaun á stórmótum. 

En þannig eru það íslensku þjálfararnir sem næla sér í tvö af þremur verðlaunum, sem eru í boði fyrir þjálfara í handboltakeppninni á Ólympíuleikunum í Ríó og varpa með því ljóma á land okkar. 


mbl.is Þrenn verðlaun til Íslendinga í Ríó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skárra að ráða atburðarásinni en missa stjórn á henni.

Ef fylgi Framsóknarflokksins verður áfram í sama fari og verið hefur er ljóst að fjöldi núverandi þingmanna muni detta út af þingi. 

Margir núverandi þingmanna munu því hugsa sig um tvisvar áður en þeir fara að nýju út í baráttu fyrir þingsæti, sem hvort eð er er mikil hætta á að tapist. 

Að hætta strax af eigin hvötum er augljóslega skárri kostur en að láta henda sér út af þingi. 

Skárra er að ráða atburðarásinni en að missa stjórn á henni. 


mbl.is Ásmundur Einar hættir á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónas frá Hriflu hætti 1944.

Margir telja Jónas Jónsson frá Hriflu stjórnmálamann 20. aldarinnar þótt aldrei yrði hann forsætisráðherra. 

Jónas átti mestan þátt allra í því að móta flokkaskipun sem hefur í meginatriðum staðið í rétta heila öld. 

1944 var Jónas enn á góðum aldri, aðeins 59 ára, og hafði verið formaður flokksins í 10 ár, en samt var tími hans liðinn sem forystumanns í íslenskum stjórnmálum og Hermann Jónasson tók við formennsku í flokknum. 

Það vekur athygli, að um leið og Sigmundur Davíð fór í frí frá þingstörfum myndaðist alveg nýr andi samvinnu og og samstarfsvilja í þinginu eftir átök og illindi í þrjú ár.  

Alla þingtíð sína hefur Sigmundur Davíð verið maður átaka og skotgrafahernaðar, jafnt í stjórnarandsöðu sem í stjórn, - hefur ekki kosið frið ef ófriður var í boði. 

Á aldarafmælisári sínu þarf Framsóknarflokkurinn á því að halda að Sigmundur Davíð stígi til hliðar líkt og Hriflu-Jónas gerði á sínum tíma. 

Varaformaðurinn, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur stundað allt aðra og meira traustvekjandi pólitík en SDG, og því myndu margir telja það gott ef flokkurinn og núverandi formaður hans þekktu sinn vitjunartíma. 


mbl.is Sigmundur vill leiða flokkinn áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband