Neyðarsendar eru ekki alfullkomnir.

Þegar neyðarsendar voru settir um borð í íslenskar flugvélar fyrir rúmlega 40 árum, var mikill framför fólgin í því. Þeir fara sjálfvirkt í gang við högg af ákveðnum styrkleika. 

Einnig geta flugmenn gangsett þá, ef þeir komast að þeim. 

En sendarnir eru ekki alfullkomnir. 

Þegar flugvélin TF-ROM fórst við Þverárvötn á Tvídægru vorið 1973, fór neyðarsendirinn ekki í gang og torveldaði það leit að vélinni mjög og dreifði henni yfir feiknastórt svæði, svo að það dróst í marga daga að finna vélina. 

Í ljós kom að sendirinn lenti í vatni og því komst engin sending frá honum. 

Í öðru alvarlegu flugslysi, þar sem flugvél rak niður lendingarbúnað og fór á hvolf, fór neyðarsendir heldur ekki í gang, og hefur ekki fengist nákvæm skýring á því. 

Þegar sendir fer í gang í flugvél, verður oft hljóðræn truflun af því í gegnum fjarskiptatæki, en ekki er að sjá að það hafi gerst í flugvélinni, sem sendi frá sér neyðrmerki í gær. 


mbl.is Harkaleg lending, ókyrrð eða mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað að gerast og í heimskreppunni miklu.

Mikill uppgangstími í Bandaríkjunum á þriðja áratug síðustu aldar í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldarinanar var kallaður "The roaring twenties." Síðari hluta áratugarins var svipuð uppsveifla í Evrópum, meira að segja í Þýskalandi eftir gerð svonefndra Locarnosamninga. 

Hér á landi var meira innflutningsfrelsi en nokkru sinni á hálfri öld eftir 1930. 

Það var engin tilviljun að 1930 var mikið umleikis hér á landi með smíði Landsspítala, brúa, glæsilegri Alþingishátíð og stofnun ríkisútvarps. 

Uppgangurinn skilaði sér víða um lönd en þá, eins og undanfarna áratugi, voru það einkum hinir ríkustu sem urðu enn ríkari og fleiri en áður. 

Eftir hrunið á Wall Street haustið 1929 skall á heimskreppa sem hafði geigvænleg áhrif.

Í stað áframhaldandi kjarabóta flestra, þótt mismiklar væru, kom skelfilegt atvinnuleysi og öfgaflokkar á borð við nasista og falangista tóku völdin í mörgum ríkjum Evrópu með afleiðingum, sem ekki þarf að tíunda. 

Höft og einangrunarstefna tóku völdin og það er fróðlegt að sjá til dæmis, hve gríðarmörg iðnaðarfyrirtæki voru stofnuð hér á landi í skjóli innflutningshafta og tolla. 

Á yfirborðinu sýndist það jákvætt að sem flest væri framleitt innanlands, en eftir Seinni heimsstyrjöldina kom í ljós að í raun óhagkvæmt að framleiða allar vörur í hverju landi fyrir sig í stað þess að losa um höftin og leyfa framleiðslunni að leita þangað sem hún naut hagkvæmustu skilyrða. 

Með losun hafta í tíð Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971 og inngöngu í EFTA var stefnt í átt til meira frjálsræðis og í lok aldarinnar og fram til hrunsins 2008 varð hagvöxtur um mestallan heim í takt við aukins frelsis og alþjóðavæðingar og samvinnu. 

Ekki verður á móti mælt að hundruð milljóna manna í þriðja heiminum hefur lyfst úr algerum svelti og örbirgð upp í ögn skaplegri kjör, og sárt hungur hefur minnkað. 

En rétt eins og í aðdraganda heimskreppunnar eru það stór alþjóðafyrirtæki og hinir ríkustu sem hafa hagnast langmest, en fólk með minna en meðaltekjur hefur ekki fengið í sinn hlut sama skerf af hagræðingunni, sem fylgir frjálsari heimsviðskiptum, og hinir ríkari. 

Þetta er nú að skapa svipaða óánægju og breiddist út í heimskreppunni 1930-1940.

Og á ný sækja jaðaröfl og öfgaöfl í sig veðrið og atvinnuleysið í mörgum löndum, einkum hjá ungu fólki, er svakalegt og skapar rótleysi, óánægju og illindi.  

Í hverju ríki fyrir sig líta menn ekki á mannkynið sem heild, heldur snúast stjórnmálin um ástandið heima fyrir út frá þröngu sjónarhorni. 

Alþjóðavæðingin hefur líka dulda ókosti, sem felast í því að hinir gríðarlegu flutningar á hráefnum og vörum fram og aftur um allan hnöttinn valda miklum umhverfisáhrifum vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda og auka þannig á stærsta vanda mannkyns, ofnýtingu og rányrkju á auðlindum og hlýnun lofthjúps jarðar.  


mbl.is Segir fríverslunarviðræður hafa mistekist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðin tóm enn og aftur? Peningana eða lífið!

Fyrir kosningar 2013 voru loforð Bjarna Benediktssonar og flokks hans um leiðréttingar á kjörum aldraðra og öryrkja festar á blað. Í eftirmálum Hrunsins höfðu þessir hópar og heilbrigðiskerfið orðið fyrir barðinu á þeirri rústabjörgun, sem Hrunið skóp.  

Eftir kosningar var drifið í því að stroka þessi loforð öll út.

Nú er lofað fögru um meiri framlög til heilbrigðismála en það er með það eins og 2013, ennþá bara orðin tóm, og fjárhagsáætlun til næstu ára fellur í sér svik í málinu.

Í fyrra fékk gamall vinur minn heilablóðfall eftir að hafa verið á biðlista vegna gáttaflökts, sem oft veldur heilablóðfalli.

Hann var svo óheppinn að fjárveiting ársins fyrir aðgerðir var búin og ekkert hægt að gera í hans máli, fyrr en eftir áramót, þótt ekki skortaði starfskraftana.

Menn eiga náttúrulega ekki að fá gáttaflökt nema í byrjun árs. 

Tjónið af völdum þessa eina tilfellis í formi missis heilsunnar og og atvinnunnar og langrar endurhæfingar er margfalt meira en sem nemur kostnaðinum við að grípa nógu snemma til aðgerða.

Nú hefur annar vinur minn lent á biðlista vegna gáttaflökts og er auðvitað á biðlista. 

Hann hefur haft einkaflugmannsréttindi en gáttaflöktið hefur gert það að verkum að hann hefur misst þau. Það þýðir, að þetta er ekkert grín, þetta er fúlasta alvara. 

Í athugasemdum við þennan pistil upplýsir maður, að í stað þess að mega eiga von á aðgerð vegna gáttatifs eftir viku, hafi hann beðið í 21 mánuð og megi eiga von á 12 mánuðum í viðbót! 

Á sama tíma er sunginn hávær söngur um það hvað allir hafi það rosalega gott! 

Sjálfur lenti ég á sjö mánaða löngum biðlista í fyrra vegna þess að skoða þurfti, hvort ástand í nýra gæti verið byrjun á krabbameini.

Í upphafi var sagt að ekki mætti dragast lengur en í þrjá mánuði að tékka á þessu, þannig að maður beið milli vonar og ótta fjórum mánuðum lengur. 

Ég var heppinn, vann í þessari rússnesku rúllettu, en gat ómögulega verið glaður, - vissi að einhverjir höfðu tapað af þeim þúsundum, sem þá voru á svona biðlistum. 

Þegar þessi dæmi og önnur blasa við einum manni eins og mér má ráða af því hvert ástandið er víðar í heilbrigðiskerfinu. 

Kári Stefánsson nefndi gáttaflökt eða gáttatif sem dæmi þegar hann stóð fyrir stærstu undirskriftasöfnun sögunnar hér á landi vegna vanrækslu stjórnvalda í heilbrigðismálum.

Í grein hans í Morgunblaðinu í dag kemur vel í ljós, hvers vegna Eygló Harðardóttir gat ekki greitt atkvæði með fjárhagsáætlun þar sem loforðin um aukin framlög til velferðarmála eru gersamlega svikin.

Hún gekk þó ekki það langt að greiða atkvæði gegn þessari ósvinnu, en var samt atyrt af mörgum stjórnarliðum fyrir sviksemi í stjórnarsamstarfinu.

Enginn minntist hins vegar á þá einu sviksemi, sem nú blasir við í þessu máli, svik fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar.

Svo les maður kröfur fólks, sem telur það mikilsvert mál að hinir ríku geti keypt sig fram hjá þessu ástandi hér á landi í stað þess að þurfa að fara til útlanda til að gera það.

Þessa heilbrigðisstefnu mætti kalla: Peningana eða lífið!

Verður það bara ekki ágætis og raunsætt kosningaloforð flokks þess ráðherra, sem finnst hann standa í rústabjörgun og fjármálaráðherrans, sem finnst það bara hið besta mál að svíkja loforð sín strax núna í stað þess að geyma svikin þar til eftir kosningar? 

 


mbl.is „Leið eins ég væri í rústabjörgun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband