Merkilegt hvað maður lét sig hafa.

Frá fermingaraldri vann ég verkamannavinnu í skólafríum og á sumrin. Mér verður stundum hugsað til þeirra aðstæðna sem margir verkamenn unnu við á þessum tímum skóflunnar, hakans og handaflsins eins. 

Í sveitinni sumrin á undan fór maður tvisvar í bað yfir sumarið og sem kúarektor var maður mykjugur, moldugur og skítugur án þess að ég muni eftir því að það hafi haft nein áhrif á heilsuna. 

Það jafnvel að vera að ónæmiskerfið hafi haft gott af því að fást við þessi "óhreinindi" og að nú á dögum sé full mikil sóthreinsun í gangi til þess að þetta mikilvæga varnarkerfi líkamans fái tæki til að vera í æfingu. 

Í verkamannavinnunni í Reykjavík á þessum árum var reynt að taka smá tillit til slæmra aðstæðna við uppskipun á sementi, sem var afar erfið og sérlega óþrifaleg vinna vegna sementsryksins, sem þyrlaðist upp þegar verið var að lyfta pokunum og setja þá á brettin, sem kranarnir hífðu upp úr skipunum.  

Þetta var gert með því að hafa launin örlítið hærri, svonefndan sementstaxta. 

Spónakjallarinn í timburversluninni Völundinni var enn verri vegna flísaryksins, sem settist í augun og vitin. 

Sumarið sem ég "rak við út um gat í Völundi" eins og ég hef stundum kallað vinnuna þar, skildi ég ekkert í því að ég var sífellt að fá graftarígerðir í augun og áttaði mig ekki á því, að þetta gerðist vegna þess að loftinu í Völundarportinu svifu örsmáar flísar, sem settust í hvarmana án þess að ég tæki eftir því. 

Hluta úr sumri vann ég í nýbyggingu þar sem var smíðað úr asbesti vinstri hægri og asbestrykið var í loftinu dögum saman. 

Merkilegt var að manni skyldi ekki verða misdægurt af þessu. 


mbl.is Bannið hefur ekki borið árangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanda þarf til af öryggi.

Það er að mörgu að hyggja af endurbæta á fiskiveiðistjórnunarkerfið. Taka lítinn hluta kvótans í einu og huga að því sama og um eignarhald á sjávarátvegsfyrirtækjum, að takmarka eign útlendinga á þessari auðlind. 

Síðan þarf að endurbæta núverandi kerfi þannig að heilu byggðirnar séu ekki sviptar öllum möguleikum til að halda kvóta sínum, eins og nú síðast gerðist í Þorlákshöfn. 

Takmarkið á samt að vera skýrt, "stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum" eins og segir í frumvarpi stjórnlagaráðs.

En vegna þess hve mikilvægt það er að þessu takmarki verði náð sem áfallalausast þarf að vanda vel til, huga vel að öllu því sem aflaga getur farið og gera þetta af mesta mögulega öryggi.   


mbl.is Vonir landsstjórnar brugðust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkileg og löng saga vanræktra stríðsminja.

Reykjavíkurflugvöllur gegndi mjög mikilvægu hlutverki í Orrustunni um Atlantshafið í Seinni heimsstyrjöldinni, en í flestumm fræðibókum um styrjöldina er þessi orrusta talin jafn merkileg og afdrifarík og aðrar helstu orrustur stríðsins, um Bretland, Moskvu, Stalíngrad, Kursk, El Alamain, Keren, Midway auk innrásarinnar í Normandy og "Battle of the Bulge", Ardennasóknarinnar í desember 1944. 

Í öllum þeim löndum, þar sem þessar orrustur hafa verið háðar, hefur verið lðgð mikil rækt við minjar um þær og söfn tengd þeim, og má nefna safn í Narvik í Noregi og stríðsminjasafnið a Reyðarfirði sem dæmi. Eiga Reyðfirðingar heiður skilinn fyrir sitt safn, sem gerir Reykvíkingum skömm til.  

Því að þessum efnum hafa Reykvíkingar dregið lappirnar og munaði minnstu að gamli flugturninni á Reykjavíkurflugvelli yrði eyðilagður fyrir tæpum áratug, en í honum fór fram hluti af stjórn Orrustunnar um Atlantshafið. 

Í Kaldaðarnesi var merkilegur vatnsturn brotinn niður og þar hefur minjum um fyrsta hernaðarflugvöllinn á Íslandi verið skipulega eytt. 

Frá Kaldaðarnesflugvelli var fyrst herjað á kafbáta frá Íslandi og fyrsti þýski kafbáturinn, sem féll í hendur Bandamanna, var tekinn með Hudson-flugvél frá Kaldaðarnesi.

Í Öskjuhlíð eru enn vígi frá stríðsárunum og bæði í stríðinu og eftir stríðið voru merkilegir braggar á vellinum auk svonefndra braggahverfa eða "kampa" hér og þar í borginni.

Þegar ég var ungur voru haldnir fjðrugir dansleikir á Hótell Ritz í Nauthólsvík.

Því er vel að braggarnir þar verði varðveittir og þeim fengið hlutverk. Djöflaeyja Einars Kárasonar felur í sér merkar bókmenntir um þennan hluta íslenskrar sögu, sem hefur verið furðulegt feimnismál og vanrækt viðfangsefni í 70 ár.

Með ólíkindum er að ekkert stríðsminjasafn skuli vera í Reykjavík og að sumir merkustu munir frá Reykjavíkurflugvelli skuli vera varðveittir á minjasafni á Hnjóti í Patreksfirði í stað þess að vera á stríðs- og flugminjasafni í Reykjavík.

Og Akureyringar með Arngrím Jóhannsson og fleiri í forystu gefa Reykvíkingun langt nef með flugminjasafninu á Akureyrarflugvelli.  

 


mbl.is Niðurníddur Bretabraggi öðlast nýtt líf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband