Framsókn þarf að hreinsa til eins og 2008.

Með Hruninu lauk tímabili í sögu Framsóknarflokksins, sem kenna mætti við Halldór Ásgrímsson og Finn Ingólfsson. Þetta var síðari hluti 12 ára tímabils samstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, sem frá árinu 1998 hafði rekið harða stóriðju- og virkjanastefnu í bland við snarpa hægrisveiflu með sölu ríkisbanka og fyrirtækja til einkavina eftir gamalkunnri helmingaskiptareglu, sem hafði verið þróuð í fyrri samstjórnum flokkanna 1950-56, 74-78 og 83-87. 

En þótt allt það væri lagt saman sem þessir flokkar gerðu í þessum þremur ríkisstjórnum, bliknaði það í samanburðinum við árin 2001-2008. 

Flokkurinn tapaði fylgi í kosningunum 2007 þrátt fyrir slagorðið "Árangur áfram - ekkert stopp!"

Og veturinn 2008-2009 skipti flokkurinn út forystu sinni og ný tók við. 

Á aldar afmæli sínu á þessu ári stendur flokkurinn aftur í svipuðum sporum og 2008, þótt hrunið sé ekki jafn afgerandi og núna. 

En núna er samt um að ræða siðferðilegt áfall og hrun á trausti, líkt og 2007-2009.

Það er því ekki aðeins skiljanlegt að ýmsir innan flokksins telji að stokka þurfi spilin upp, - það virðist ljóst að það er bráðnauðsynlegt ef flokkurinn ætlar ekki að koðna niður á aldarafmæli sínu.  


mbl.is Vilji til að halda flokksþing í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bók eða plata, - líkt og að eignast og ala upp barn.

Ég hef lengi þekkt Ólaf F. Magnússon, þann mikla baráttumann fyrir náttúru og umhverfi, og vegna vinnu minnar við stórt 52ja laga tónlistaralmbúm um náttúru Íslands, land og þjóðlíf, sem er á lokasprettinum, hef ég haft nasasjón af plötugerð hans, sem ég óska honum til hamingju með. Hann lýsir í viðtali þeirri tilfinningu þegar verk á sviði lista fara frá höfundunum, og ég get tekið undir lýsingu hans.

Þegar svona afurð sem margra ára vinna liggur að baki verður loksins fullburða, er það alltaf sérstök tilfinning þegar hún fer frá manni,svona svipað eins og þegar maður eignast barn, elur það upp og því er síðan fylgt úr hlaði til þess að það eignist sjálfstætt líf. Hyldýpið,  forsíða

Þannig er mér innanbrjósts í dag þegar bókin "Hyldýpið" er að koma í verslanir, 14 árum eftir að byrjað var að skrásetja hana. 

Á meðfylgjandi mynd neðar á síðunni má lesa textann á baksíðu bókarinnar.

Að undanförnu hafa birst fréttir af því að hin viðurkennda útgáfa af því sem gerðist í nóvember 1974 í mannshvarfsmáli, sem ekki getur dáið, sé líklega ekki rétt. 

Nú er endurupptökunefnd að skoða málið og fyrst staða þess virðist vera undirorpin óvissu, er kannski tímabært að spyrja næstu spurningar:Hyldýpið, baksíða

Ef þetta gerðist ekki eins og fullyrt var í lok málareksturs fyrir tæpum fjórum áratugum, hvernig gerðist það þá? 

Var hugsanlega til fólk og það jafnvel enn á lífi, sem hefur aðra sögu að segja?

Sú er ástæðan fyrir því að bókin Hyldýpið er nú að líta dagsins ljós. 

Hægt er að smella á myndina af baksíðunni til að sjá textann þar betur, en hann hljóðar svona með smávægilegri viðbót: 

"Mannshvörf hafa snortið íslensku þjóðina djúpt um aldir. 

Hin óvenjulega mörgu mannshvörf,rétt fyrir miðjan áttunda áratug síðustu aldar skópu ólguástand í þjóðfélaginu og hafa orðið að eins konar steinbarni í þjóðarsálinni, sem lifnar og deyr aftur og aftur.

Ólguástandið skapaði uppnám í fjölmiðlum og á Alþingi, öldur sem skullu á helstu ráðamönnum landsins og skóku allt þjóðlífið. 

42 árum eftir mannshvarf eru menn handteknir og yfirheyrðir í tengslum við meint morð - þessi mál geta ekki dáið. 

Í þessari bók birtast frásagnir af mannshvarfi sem fela í sér umbyltingu á hugmyndum manna um það. 

Skrásetjari frásagnanna þurfti sem fréttamaður að sitja í sjónvarpsfréttum fyrir framan þjóðina og segja henni hinn eina og nákvæma sannleika um hryllilegt morð, en nokkrum mánuðum síðar var sest í fréttasett til að flytja aðra lýsingu sem þýddi það, að hin fyrri lýsing var tóm steypa. 

Að mati skrásetjarans er sú lýsing, sem hér birtist, mun fyllri og trúverðugri en sú, sem tekin hefur verið gild fram að þessu. 

Þessi bók gefur því nýja sýn á þessi mál, lýsir hættulegum átökum í mögnuðu uppgjöri um liðna tíð ástar og haturs, þjáningar og unaðar, forherðingar og iðrunar, lyga og sannleika, ósigra og vonbrigða."

 


mbl.is Boðar kærleik á sinni fyrstu plötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta voru þá skepnur, eða hvað?

Bandaríkin eru ríki innflytjenda að nær öllu leyti. Hvíti maðurinn kom frá Evrópu, fór eins og lok yfir akur stranda á millum og rændi landinu af frumbyggjunum. 

Raunar var trú frumbyggjanna sú að enginn gæti dirfst að "eiga" náttúruna í þeims skilningi, sem hvítuu landnemarnir, lögðu í það hugtak, - landið, náttúran ætti sig sjálf, og það yrði að sýna landvættunu virðingu og tillitssemi, sem hvítu mönnunum virtist fyrirmunað að tileinka sér. 

Á okkar tímum er aðeins einn hluti Norður-Ameríku, sem hefur sloppið við eignaroffors Evrópuþjóða, Grænland. Þar á enginn landið og náttúruna, náttúran á sig sjálf. 

Hvíti landneminn gerði meira en að flæða yfir álfuna.

Hann braut reglur frumbyggjanna um sjálfbæra þróun og gereyddi milljóna vísundahjðrðum með veiðum á undraskömmum tíma, sallaði dýrin niður með byssum sínum og beitti þeim óspart gegn indíánum. 

Hvíti maðurinn rændi frumbyggjum annarrar álfu, Afríku, flutti þá nauðuga hundruðum þúsundum saman í hlekkjum yfir Atlantshafið og gerði þá að þrælum, umgekkst þá í stórum stíl "eins og skepnur" í svipuðum anda og Donald Trump túlkar nú í alhæfingum sínum um innflytjendur okkar tíma, bæði frá Mexíkó og öðrum löndum. 

Og alhæfingar eiga ekki við um gjörðir hvíta mannsins í Ameríku, því að yfirleitt voru hinir hvítu gott og gegnt fólk, sem vildi vel og lagði sig fram við að uppfylla drauminn um öflugt og gott þjóðfélag.

Hvíti innflytjandinn ásamt innflytjundum af öðrum kynþáttum færði álfunni háþróaða menningu og þá mannúð og mannréttindi nútímans, sem endurspeglast í Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna og stjórnarskrá, gerði Bandaríkjamenn að öflugustu þjóð heims sem tvívegis hefur komið Evrópu til bjargar í heimsstyrjöldum. 

Bandaríkin færði heiminum og heimsmenningunni hvítt og svart afburðafólk og áhrifavalda eins og Abraham Lincoln, Thomas Alfa Edison, Whright-bræður, Henry Ford, Louis Armstrong, Franklin D. Roosevelt, Martin Luther King, Jesse Owens, Muhammad Ali, Ellu Fitzgerald, Gershvin, Ray Charles, Michael Jackson, - listinn er mjög langur. 

Úr múg innflytjenda, sem voru af öllum stigum hvaðanæfa úr heiminum, reis þetta mikla ríki og veldi þess hefur grundvallast á því að þetta var deigla innflytenda sem skópu saman mikla þjóð. 

Þess vegna er Donald Trump nú að ráðast að sjálfri tilurð, grunni og þróun þjóðar sinnar þegar hann alhæfir um innflytjendur frá vissum löndum og segir um það:  "Þetta eru skepnur." 


mbl.is „Þetta eru skepnur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband