Sjónarsviptir að Ólínu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir er sköruleg og kraftmikil kona, sem sópað hefur að, og með bestu ræðumönnum hvað snertir orðfæri, framsögn og framgöngu, afar áheyrileg. 

Þar að auki hefur hún verið skelegg baráttukona fyrir hugsjónum jafnaðarmanna og ekki dregið af sér í þeim efnum. 

Hún hóf stjórnmálaferil sinn í borgarstjórn Reykjavíkur, en naut sín enn betur þegar hún komst á þing. 

Nú hverfur hún af þingi um sinn og er sjónarsviptir að henni. 


mbl.is Ólína ekki á lista Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við munum grafa ykkur." "Það gengur betur næst."

Orð eru verkfæri fólks til að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og fyrirætlanir. Ein þekktustu kjörorð seinni tíma stjórnmála voru notuð í kosningabaráttu Obama 2008: "Yes, we can!", "Jú, við getum það!"

En stundum geta orð verið sögð á þann veg og undir þeim kringumstæðum að þau misskiljast herfilega.  Þetta kann að vera á seyði hjá Pírötum um þessar mundir. 

En dæmin er fjölmörg. 

Í kappræðum Nikita Krústjoffs leiðtoga Sovétríkjanna við Nixon varaforseta um samkeppni kapítalismans og kommúnismans í Bandaríkjaheimsókn hins síðarnefnda 1959, sagði Krústjoff setningu, sem túlkurinn þýddi svona: "Ve´ll bury you!", - "við eigum eftir að grafa ykkur."  

Þessi orð vöktu mikla reiði á Vesturlöndum á þeim tíma sem risaveldin gátu eytt hvort öðru í eldi kjarnorkuvopna. 

Voru orðin túlkuð sem hótun um grimmilega beitingu slíkra vopna. 

Svo mikil var reiðin og svo mikil langrækni ríkti í garð Krústjoffs, að þegar síðar var upplýst, að túlkurinn hafði ekki náð réttri merkingu rússnesku orðanna, sem þýddi svipað eins og að sagt hefði verið: "Við eigum eftir að baka ykkur", féll sú frétt alveg í skuggann. 

En í þessum íslensku orðum, "við eigum eftir að baka ykkur" felst svo sem ekkert sérlega geðslegt ef þau eru tekin of bókstaflega, sem sé að ætlunin sé að gera það sama og ef einhverju er stungið í glóandi bakaraofn. 

Eftir hinn mikla bruna Gúmmívinnustofunnar 1989 kom varaslökkviliðsstjórinn í beina útsendingu í fréttum Stöðvar 2.

Hann var sótugur eftir að hafa verið í návígi við óvættinn en mátti þola ágenga gagnrýni mína vegna ýmissa vankanta á slökkvistaðinu.

Sumir vankantarnir blöstu við, en aðrir, eins og það að slökkvilið vissi ekki um að kjallari með 3000 hjólbörðum var undir húsinu, komu fram síðar og með því sú umsögn, að vegna þessarar fáfræði slökkviliðsins hefðu slökkviliðsmenn verið miklu meiri lífshættu en þeir vissu sjálfir.

Í lok viðtalsins vildi ég segja eitthvað hughreystandi við varðstjórann og sagði: "Látum þetta gott heita, það gengur betur næst."

Þessi orð vöktu mikla reiði hjá mörgum og voru talin sýna það að ég hafi verið að lítilsvirða og hæða varðstjórann, sem var nýkominn úr harðri baráttu við lífshættulegan eldinn, sótugur upp fyrir haus.

En það hafði alls ekki verið ætlun mín á því augnabliki, sem orðin voru sögð. 

 

Var alveg vonlaust fyrir mig að reyna að sannfæra þessa gagnrýnendur mína um að ég hefði alls ekki meint þetta svona, heldur þvert á móti óskað slökkviliðinu góðs gengis í framtíðinni.

Nokkrum árum seinna hafði slökkviliðið lagfært nær allt það, sem farið hafði úrskeiðis í brunanum.

Sjálfur gerði ég orðin "það gengur betur næst!" að kjörorðum í lífinu, því að í þeim felst játning á því sem farið hefur úrskeiðis og vilji til markvissra úrbóta.

Og hjá slökkviliðinu hafði kúrsinn verið tekinn á það að það gengi betur næst.

Engu að síður voru ummælin í því samhengi og undir þeim kringumstæðum, sem þau voru sögð, líkast til arfa klaufaleg mistök.   

 


mbl.is „Hvað ertu að meina með þessu?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru forsetabíllinn og Glitfaxi?

Eftir þrjú ár rennur út 75 ára grafarhelgi Goðafoss. Þá fyrst er gerlegt, hennar vegna, að aðhafast eitthvað til að kanna skipsflakið, ef það finnst endanlega og það er tæknilega mögulegt. godafoss1

Í þætti um slysið, sem sýndur var á Stöð 2 í nóvember 1994, hálfri öld eftir að skipinu var sökkt, sagði einn eftirlifandi skipverji frá því, að hann hefði stokkið í sjóinn af kassa utan af Packard-bíl, sem stóð á skipinu.

Bíllinn var gjöf Roosevelts, Bandaríkjaforseta, til forseta Íslands og ætlað var að leysa af hómi eldri bíl af Packard-gerð, sem ríkisstjóraembættið hafði notað sem viðhafnarbíl.

Fróðlegt væri að vita, hvort þessi forsetabíll á eftir að finnast. Ekki skiptir máli, hversu illa hann er leikinn af ryði, því að samkvæmt reglum um fornbíla, nægir að finna grindina með grindarnúmerinu og vélarblokkina með vélarnúmerinu.

Er þá hægt að gera bílinn upp samkvæmt kröfum um, hvernig slíkt þurfi að gera. 

Goðafossslysið er Titanic-slys Íslands.

Í febrúar 2026 rennur út grafarhelgi annars flaks í Faxaflóa, flaksins af flugvélinni Glitfaxa, sem liggur undan Flekkuvík á Vatnsleysuströnd að því er ætlað er.

Þegar vélin fórst var gengið út frá því að flakið væri skilgreint sem grafreitur og ekki hróflað við því. 20 manns voru um borð og eru lík þeirra þar enn að öllum líkindum.

Brak úr vélinni fannst, svo að líklegt er að hún hafi brotnað við harkalega lendingu á sjónum.

Ástæða slyssins er ekki ljós, ekki vitað hvort henni var flogið í sjóinn, til dæmis vegna hæðarmælisskekkju eða annarrar bilunar eða hvort hún varð eldsneytislaus.

Ef flakið fyndist yrði kannski, þótt seint sé, hægt að leysa þessa 65 ára gömlu gátu.    


mbl.is Goðafoss fundinn af þýskum kafara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband