Tugir og hundruð milljarða í hverri nýrri ásökun.

Þegar fyrir Hrun var ljóst að það var að myndast svokölluð snjóhengja innistæðna útlendinga, sem fjárfestu í vaxtamun, sem var uppblásinn af græðgis-bankabólunni. 

Þegar bankarnir féllu með braki og brestum hófst í meginatriðum samningaferli, sem hefur staðið alveg fram á þennan dag og stendur áfram þar til aflétt hefur verið gjaldeyrishöftum. 

Úr því að þetta fellur undir samninga er merkilegt ef menn halda að annar aðilinn fái alltaf allt sitt fram en hinn ekkert.

En allan þennan tíma hefur björgunarstarf á vegum þriggja ríkisstjórna verið harðlega gagnrýnt fyrir það að "gefa" kröfuhöfum svo og svo marga tugi og jafnvel hundruð milljarða í þessu samningaferli, til dæmis hundruð milljarða í sambandi við afléttingu gjaldeyrishaftanna. 

Og farið er aftur í tímann í umræðunni með því að bera tugmilljarða sakir á fyrrverandi ráðherra og ríkisstjórn, en samt er viðurkennt í Kastljósi núna áðan að ekkert saknæmt hafi átt sér stað. 

 


mbl.is Bera Steingrím þungum sökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traustið brást líka á degi Bessastaðafararinnar.

Stjórnmál snúast um traust, sagði forsætisráðherra landsins fyrir 15 árum. Sveinbjörn Eyjólfsson segir að traust á Sigmundi Davíð hafi brostið vegna viðleitni hans til að leyna tilvist Wintris aflandsfélagsins. 

En það var ekki allt og það gleymist oft að fleira fylgdi í kjölfarið.

Til að bæta gráu ofan á svart ákvað Sigmundur, án þess að hafa rætt það fyrst við þingflokk sinn og þingflokk samstarfsfólkið, að ana beint í pólitíska feigðarför til Bessastaða með kröfu á forseta Íslands um að gefa Sigmundi upp í hendur vopn, þingrofsheimild til að beita gegn samstarfsflokknum. 

Forsetinn sá í gegnum þetta og Bessastaðaförin varð að sneypuför í beinni útsendingu. 

Einn þingmanna Framsóknarflokksins var gráti nær í viðtali í kjölfarið.

Það sagði meira en mörg orð um það ítrakaða hrun trausts sem hafði orðið. 

Atburðarásin á sér enga hliðstæðu í íslenskri stjórnmálasögu, lýsti ákveðinni firringu, sem síðan hefur bara haldið áfram. 

Neville Chamberlain hlaut ekki vantraust í breska þinginu í maí 1940, heldur reyndist sá hluti þingmanna, sem hafði misst traust á honum, of stór og varanlegur til þess að hann gæti haldið áfram í embætti. 

Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseti hefði getað látið slag standa á útmánuðum 1968 og boðið sig fram til áframhaldandi setu á forsetastóli. 

Hann hafði verið kosinn 1964 með fáheyrðum yfirburðum og komið í gegnu þingið mestu réttarbótum aldarinnar í mannréttindamálum vestra. 

En hann mat stöðuna þannig að vegna vaxandi vantrausts á hann væri óráð að fara í framboð. 

Það er erfitt að sjá hvernig SDG ætlar að halda áfram á þeirri braut, sem hann er á nú. 


mbl.is Sveik fyrst og fremst sjálfan sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar minningar úr Óðni.

Sumir hlutir geta orðið persónulegiri vinir líkt og um fólk væri að ræða. Þannig háttar til um varðskipið Óðin hvað mig varðar. 

Við fórum, þrír sjónvarpsmenn, í eina ferð með skipinu út á "vígstöðvarnar" undir lok þorskastríðsins til að gera einu heimildarmyndina, sem gerð var um slíka ferð, því að stríðinu lauk fimm mánuðum síðar. 

Það tókst að klára nægjanlegar myndatökur enda þótt leiðangur skipsins yrði aðeins styttri en ætlað var, því að þegar eldgos hófst í Leirhnjúki við Kröflu, var skipið sent til Húsavíkur til að vera til trausts og halds. 

Það undirstrikaði hins vegar gildi Landhelgisgæslunnar til sjós og lands. 

Óðinn var æðstur ása og því vel til fundið að varðveita þetta happaskip. 


mbl.is Komu Óðni á lygnan sjó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katla og Framsókn.

Tvennt svipað er í gangi þessa dagana, óróahrinur í Kötlu og Framsóknarflokknum. 

Þegar varaformaður flokks segist ekki ætla að sitja áfram í því embætti að óbreyttu eru það að sjálfsögðu tíðindi, ekki síst þegar aðstoðarmaður fyrrverandi formanns flokksins ætlar í framboð með þeim fyrirvara, að ef varaformaðurinn bjóði sig fram, muni aðstoðarmaðurinn fyrrverandi umsvifalaust stíga til hliðar og styðja varaformanninn. 

Við erum ekki að tala um forystumenn í einhverjum Lionsklúbbi eða húsfélagi. 

Öðru nær, - tveir af fyrrnefndum aðalpersónum hafa verið forsætisráðherrar á þessu ári og útspil Sigurðar Inga og Sveinbjörns á miðstjórnarfundinum kemur á óvart og vekur spurningar um að verið sé að undirbúa að ráða atburðarás á komandi flokksþingi.

Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær Katla gýs.

Þeir Framsóknarmenn sem vilja hafa sem best spil á hendi við stjórnarmyndun eftir kosningar hljóta að sjá vandkvæðin á því verkefni ef Sigmundur Davíð verður áfram formaður og leiðir flokkinn.

Bæði vegna nauðsynjarinnar á að forðast fylgishrun í kosningunum og á því skipta um forystu er skásti kosturinn í stöðunni að fresta því ekki, heldur koma því frá, því að það er ekki spurning um hvort heldur hvenær það gerist.  


mbl.is Býður sig fram gegn Sigmundi Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband