Orkunýtni skilar miklum og ótvíræðum ávinningi.

Þekking á rafbílum og öðrum möguleikum til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum samgöngutækja er enn ansi ábótavant, ekki bara hjá almenningi hér á landi, heldur um allan heim.

Ástæðan er sú, að kolefnisspor og vistspor mismunandi gerða að bílum, - heildarumhverfisáhrif þeirra, allt frá frammeiðslu til förgunar, - eru ekki metin og upplýst.

Dæmi: Ég hitti Ólaf Ragnar Grímsson, þáverandi forseta, við Hótel Rangá fyrir nokkrum árum, og benti honum á það, að Lexus 600 tvinnbíll forsetaembættisins væri í raun miklu dýrari og flóknari en sambærilegir dísilknúðir bílar frá Benz og BMW.  

Þeir væru bæði jafn rúmgóðir lúxusbílar og Lexusinn, væru jafn fljótir upp í hundraðið, kæmust jafnhratt og eyddu jafn litlu eldsneyti.

"Já, en hér ræður P.R.-ið," svaraði forsetinn.

Já, hárrétt, fræga fólkið vill frekar láta sjá sig á tvinnbíl en "venjulegum bíl."

Helsti galli rafbíla er drægið, hve langt þeir komast á hleðslu og tafir við að endurhlaða.DSCN7958

Þessi galli er ekki fyrir hendi á olíu/bensínknúnum bílum og vélhjólum, þar sem nokkrar mínútur tekur að hlaða orku á bílinn. 

Eini vetnisbíllinn, sem er kominn í sölu, hjá Toyota, er miklu dýrari en sambærilegir rafbílar, en hann kemst líka miklu lengra í einum áfanga.

Tengiltvinnbílar og bílar með "auknu drægi" eins og nýi BMW i3 bæta úr þessum ágöllum.

En að sumu leyti er verið að byrja á öfugum enda við það viðfangsefni að fást við óhjákvæmileg orkuskipti.Léttir, eigandinn og jökullinn

Í stað þess að bjóða upp á eitt og hálft tonn af flóknu og dýru farartæki til að flytja hundrað kíló af mannakjöti ( rúmlega einn maður í hverjum bíl) þarf ekki nema 120 kílóa farartæki, sem þar að auki er margfalt ódýrara og einfaldara. 

Nú hef ég ekið 3000 kílómetra á vespuhjólinu "Létti" sem er af gerðinni Honda PCX, og hægt er að aka á þjóðvegahraða.DSCN7909

Ég á heima í norðausturhluta Grafarvogshverfis, og 2300 kílómetrar hafa verið farnir í borgarakstri og fylgst nákvæmlega með eyðslunni. 

Útkoman er mögnuð: 2,2 lítrar á hundraðið, þrefalt minna en á sparneytnustu bílum! 

Hondan er ALLTAF fljótari í förum en bíll, smýgur um allt, þarf ekki bílastæði o. s. fv. 

Kaupverð nýs hjóls er fjórðungur af kaupverði ódýrasta bílsins. Hjólið er með einn strokk í stað þriggja til fjögurra, tvö hjól í stað fjögurra, þarf ekki vökvastýri eða rafknúna rúðuupphalara o. s. fv. DSCN8015 

Ég fór auðveldlega í ágúst,í leiðangrinum "Orkunýtni - koma svo! - til Akureyrar á þjóðvegahraða, á rúmlega fimm klst 40 mínútum með 50 mínútna stoppum samtals í Borgarnesi, Staðarskála og Varmahlíð, sem þýðir að þessa 380 kílómetra vegalengd var hjólið í 3 klukkustundir og 50 mínútur á ferð. 

Eyðslan: 2,6 á hundraðið! Enginn bíll í sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu um daginn komst nálægt þessu.  Fór hringinn áfram, stoppaði í tvo tíma á Akureyri og sex stundir á Egilsstöðum til að ekki væri hægt að halda því fram að öryggi væri stefnt í hættu vegna skorts á svefni og eðlilegri hvíld.  

Bloggaði raunar allan tímann og tók myndir og birti þær á facebook. DSCN8056

Samtals tók hringferðin, sem var 1331 km, einn sólarhring og sjö klukkustundir brúttó. 

Eyðslan 2,65 í hringnum og allan tímann haldið venjulegum þjóðvegahraða.

Eldsneytiseyðsla vélhjóla er meiri úti á þjóðvegum en í borgarumferð, vegna þess að loftmótstaða sitjandi manns og hjóls úti í vindinum á 80-90 kílómetra hraða er hlutfallslega mun meiri en í borgarumferð. 

Ég var með nægan mat og drykk til ferðarinnar um borð í hjólinu, sem og tölvu af fullri stærð, myndavélabúnað og nausynlegan hlífðarfatnað. Náttfari

Núverandi ágallar rafbíla breyta þó ekki því að einstök aðstaða Íslands í orkumálum knýr á um að skipta yfir í rafmagn sem orkugjafa hér á landi eftir því sem unnt er.

Ég nota áfram rafreiðhjólið Náttfara, sem notað var í leiðangrinum "Orkuskipti - koma svo!" í fyrra, í venjulegum ferðum um borgina, en gríp í vespuhjólið þegar ég þarf að nýta tímann vel og vera fljótur í ferðum.

Eftir eins og hálfs árs reynslu af því að nota þessi tvö hjól til ferða blæs ég á allt tal um rigningu og vind. Það er hægt að negla dekkin á þessum hjólum fyrir vetrarumferðina ekkert síður en á bíl.

Í öllum Evrópulöndum nema Íslandi er fullt af svona hjólum og góður markaður fyrir þau, ekki síst í 125 cc flokknum, og allir helstu vélhjólaframleiðendurnir eru í hörku samkeppni við að framleiða sem best hjól.  


mbl.is Vita lítið um rafbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíll, sem hefur æpt á breytingu.

Það er áratugur síðan ég reyndi að sannfæra innflytjendur bíla um að flytja inn bíla af Dacia-gerð, til dæmis Dacia Duster. Dacia Duster

Stærstu rökin voru hve þessir bílar voru miklu ódýrari en aðrir og það, að þeir voru að ávinna sér kröfuharða markaði, svo sem í Frakklandi og Þýskalandi. 

Aðal fyrirstaða þeirra, sem ég ræddi þetta við, virtust vera fordómar gagnvart bílum með rúmenskt heimilisfang. 

"Við förum ekki að flytja aftur inn austur-evrópskt drasl" sögðu margir á sama tíma og "japanskir" bílar á borð við Suzuki Swift og Alto eru framleiddir í Ungverjalandi og Indlandi. 

Kramið í Dacia Duster er hreinræktuð Renault-framleiðsla, og dísilvélin í Renault Clio, sama vélin og er í Duster, reyndist sparneytnasta vélin í sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu um daginn og eyddi rúmum fjórum lítrum á hundraðið í keppninni, þar sem ekið var á raunsæislegum hraða milli Reykjavíkur og Akureyrar. 

Dacia Duster sker sig úr öðrum svonefndum jepplingum, að fyrsti gír er miklu lægri en í keppinautunum, með hlutfallið 4:45 í gírkassanum og rúmlega 21:1 alls. 

Vegna þess hve jepplingar sem ekki eru með millikassa, eru hátt gíraðir, er illmögulegt að stækka á þeim hjólin, vegna þess að þá verður lægsti gírinn óþægilega hár. 

Hæð undir Duster óbreyttan er ekkert til að hrópa húrra fyrir frekar en á öðrum jepplingum, um 18 sentimetrar með einn um borð og bíllinn sígur niður í 13 sm þegar hann er hlaðinn. 

En með breytingu Arctic Trucks hækkar bíllinn upp í um það bil 25 sentimetra veghæð og sígur niður í um 20 sm hlaðinn, sem er alveg nóg veghæð fyrir flesta hálendisslóðir. 

Breytingin býr til jeppling með jeppaeiginleika fyrir alls um 4,4 milljónir króna, sem er afar samkeppnisfært verð. 


mbl.is Arctic Trucks breytir Dacia Duster
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylkingar og víglína að mótast.

Það er ljóst að innanflokksviðburðir í Framsóknarflokknum verða mjög áberandi í stjórnmálafréttum komandi vikna. Fyrirbærið kallast flokkadrættir. Fólk skipar sér í fylkingar sem takast á um menn og málefni.

Skiptar skoðoanir eru um hlutverk fyrrverandi formanna og fylgismenn Sigmundar Davíðs átelja Guðna Ágústsson fyrir að gefa upp skoðanir sínar, segja að aldrei áður hafi fyrrverandi formenn gert slíkt varðandi sitjandi formenn.

Þetta er reyndar ekki rétt, því að strax í vor veitti Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður, Sigmundi afar hvassa ádrepu.

Ekki þarf afstaða Gunnars Braga Sveinssonar að koma á óvart. Hann er þingmaður Norðvesturkjördæmis og á bakland sem nefnt hefur verið Skagfirska efnahagssvæðið. 

Þar er helsta vígi fjármála- og valdaafla flokksins, sem hvelfast um stóriðju- og virkjanafíkla auk valdakerfis landbúnaðarins.

Þar lét Sigumundur Davíð taka af sér mynd í miðjum hópi manna, sem stefnir einbeittur að byggingu álvers sunnan Skagastrandar og virkjun Jökulsánna í Skagafirði.

Helstu forsprakkarnir hafa þegar tryggt sjálfum sér eignarhald á landareignum, þar sem virkjanamannvirkin verða og gamla kjörorðið frá kosningunum 2007 verður lýsandi á ný: "Árangur áfram - ekkert stopp"

Ræða formannsins á miðstjórnarfundinum var hallelúja þeirrar yfirþyrmandi hugsunar, þar sem ekki var minnst orði á það sem núverandi forsætisráðherra hefur gert og vel hefur gengið hjá honum.

Það ergði hann vafalítið, annars hefði hann varla gefið yfirlýsinguna um að hann tæki ekki varaformannsembættið að óbreyttri forystu.

Nú hefur Gunnar Bragi stigið inn í það tómarúm, sem hugsanlega myndast ef Sigurður Ingi hverfur úr stjórn flokksins.

Það er á fullu verið að skipa mönnum í fylkingarnar, en margir bíða þangað til úrslitin í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi verða ljós.    


mbl.is Styður Sigmund sem formann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltof lítið gætt að súrnun sjávar.

Hvað eftir annað má sjá að í fréttum og niðurstöðum málþinga og ráðstefna um útblástur koltvísýrings er því alveg sleppt að minnast á súrnun sjávar. 

En nú bendir margt til að hún verði á þann veg, að engin leið verði að finna á henni nokkurt jákvætt. 

Menn yppta öxlum gagnvart hlýnun lofthjúpsins og sjávarins og segja að nýjar tegundir fiska komi úr suðri í stað þeirra, sem flytja sig norðar. 

En gagnvart súrnun sjávar dugar ekkert slíkt. Lífríkið getur ekki flúið eða fært sig til í því tilfelli. 


mbl.is Súrnun sjávar gæti ógnað þorski
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband