Hin eilífa hringrás lífsbaráttunnar.

Frá örófi alda hefur staðið yfir linnulaus barátta allra lífvera jarðarinnar fyrir lífi sínu, allt frá smæstu örverum til stærstu hvala. 

Lífríkið byggist á því að hver lífvera er öðrum háð og að dauði eins er annars brauð. 

Þegar hver uppgötvunin rak aðra á síðustu öld, einkum um miðbik hennar þegar sýklalyf voru fundin upp og lyf gegn fjölmörgum sjúkdómum, kviknaði von um að maðurinn væri að ná yfirhöndinni í baráttunni við sýkla og veirur. 

En auðvitað var þetta tálsýn, sem byggðist á því að maðurinn gæti breytt einu helsta lögmáli lífs á jörðinni, hinni eilífu innbyrðis baráttu lífvera jarðar þar sem hver um sig þróast undir lögmálinu að þeir hæfustu lifi og viðhaldi stofninum. 

Í ljós kom að ekki þurfti nema eina breytingu eða stökkbreytingu á bakteríu eða veiru til þess að til verði nýtt afbrigði, sem þoli sýklalyfin betur. 

Tvennt er varasamast varpðandi lyfin að sögn sérfræðinga.  

1. Ofnotkun þeirra, neysla að óþörfu, sem eykur hættuna á því að sýklar og veirur myndi þol gegn þeim. 

2. Óregluleg notkun þeirra, þar sem í stað þess að nota lyfið nógu reglulega og lengi til að drepa sýklana að fullu, myndist gloppur í ferlið sem kalli fram þolnari. Það eru einkum tveir þjóðfélagshópar sem skapa mestu hættuna á þessu, dópistar og gamalt fólk, sem gleymir að taka lyfin eða man ekki hvort þau hafa verið tekin.  


mbl.is Ofurörverur gætu valdið heimskreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve mörg slys þarf til að eitthvað sé gert?

Stórfjölgun ferðamanna hefur ekki skilað sér í því að bæta aðstöðu þeirra og þjónustu við ferðafólk þar sem þörfin á henni hefur orðið brýn og æpandi. 

Svo svelt er Vegagerðin, að vandinn liggur meðal annars í því að fyrir hvert eitt nauðsynlegt verkefni af ótal mörgum verða tugir verkefna útundan.

Einfaldir hlutir eins og bættar merkingar, útskot og lækkun hraða á örfáum stöðum, sem fela í sér slysagildrur sitja á hakanum.  

Þegar ferðamaður fær kort af landinu í hendur hefur einn vegur, hringvegurinn, algera sérstöðu og gengur undir nafninu "þjóðvegur númer eitt." 

"Númer eitt"? Varla meðan hluti hans er holóttur malarvegur. DSCN7948

Myndin er tekin í Berufirði á hjólaferð um hringinn um daginn, en í þeirri ferð var valin leiðin um Stöðvarfjörð, Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð, sem er aðeins 10 kílómetrum styttri en malar-"þjóðvegur númer eitt" um Breiðdalsheiði. 

Svo mikill var feginleikinn þegar komið var af holunum á malarkaflanum umrædda og inn á malbikaðan veg við Eyjólfsstaði, að það varð að stansa í eina mínútu og taka mynd af eina svæðinu þar sem morgunsólin var að brjótast í gegnum þoku, sudda og rigningu. 

Hægt er að velja þrjár leiðir um Austurland á leið hringinn, og einfaldast væri að vegurinn um Öxi yrði lagfærður og sett á hann bundið slitlag, af því að sú leið er 61 kílómetrum styttri en leiðin um Breiðdalsheiði.

Hann yrði "þjóðvegur númer eitt".  

Á meðan beðið yrði eftir þessari vegabót, yrði Fjarðaleiðin að sjálfsögðu gerð að "þjóðvegi númer eitt". 

En landlægur rígur milli Héraðsbúa og Fjarðabúa veldur því, að leiðin um Breiðdalsheiði, hefur orðið fyrir valinu, því að annars myndu annað hvort Fjarðabúar eða Héraðsbúar ganga af göflunum. 


mbl.is Fór út að skima eftir norðurljósum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látum sem ekkert C.

Ofangreind fyrirsögn var heiti á plötu Halla og Ladda á sínum tíma ef ég man rétt.

Hægt væri að gefa út stóra plötu með völdum setningum sérfræðinga Landsvirkjunar, Orkuveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur á ýmsum fundum nyrðra og syðra og í viðtölum í fjölmiðlum, þar sem lítið eða ekkert er gert úr manngerðum jarðskjálftum og vandamálum vegna lónamyndunar hjá háhitavirkjunum. 

Fyrir norðan var margtuggið á fundi að "niðurdæling gengi vel" þótt tíu kílómetra fyrir sunnan Kröfluvirkjun sé stækkandi lón. 

Sérfræðingurinn þuldi sömu setninguna aftur og aftur eins og á bilaðri plötu. 

Lengi var þrætt fyrir vandamálið við Svartsengisvirkjun en málið loks afgreitt með því að lítill vandi yrði að grafa 15 kílómetran langan affallsskurð til sjávar vestan við Grindavík. 

Þrætt var fyrir málið fyrstu árin hjá Orkuveitu Reykjavíkur en þegar nýr forstjóri tók við voru tekin upp önnur og skárri vinnubrögð. 

Þó voru fréttaflutningur og myndbirtingar af lónmyndun vestan við Kolviðarhól harðlega gagnrýnd! 

Það er nöturlegt að á prenti skuli það aðeins hafa verið bloggskrif leikmannsins Sigurðar Sigurðarssonar sem hafa fram að þessu veitt einhverjar upplýsingar um manngerðu skjálftana við jaðar Svínahrauns og Húsmúla. 

"Látum sem ekkert C"- heilkennið er enn magnaðra varðandi það að setja jarðgöng og verksmiðju niður á nákvæmlega þeim bletti þar sem áhrif stórskjálfta yrðu á öðru af tveimur hættulegustu jarðskjálftasvæðum landsins.

Þar voru aðvörunarorð Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings að engu höfð og látið er sem ekkert C.  


mbl.is Skjálftar vegna niðurdælingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband