Að deila og drottna?

Það er gömul og ný saga að þegar einvher skorar sterkan foringja á hólm, eins og Höskuldur Þórhallsson hefur gert í Norðausturkjördæmi, er það höfuðnauðsyn fyrir áskorandann að safna til sín fylgi frá sem flestum og gera baráttuna þar með að einvígi tveggja manna.

Á sama hátt gagnast það efsta manni, ef fleiri slást í hóp þeirra, sem vilja velta forystumanninum úr sess og atkvæði andstæðinga hans dreifast á fleiri áskorendur en einn.

Eins og staðan er núna hjá Framsókn er mótsögn í því að segjast sækjast eftir efsta sætinu í Norðausturkjördæmi en styðja Sigmund Davíð samt sem formann.

Samkvæmt skoðanakönnunum nú er Norðausturkjördæmi það kjördæmi, sem helst gæti gefið SDG öruggt þingsæti.

Það var af þeim sökum sem hann fór í framboð þar 2013, og flutti lögheimili sitt á eyðibýli.

Ef hann verður færður niður á lista, er hann í sömu hættu og Jón Sigurðsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, var í Alþingiskosningunum 2007, þegar hann komst ekki inn og varð í kjölfarið að segja af sér formennsku og draga sig út úr pólitík.

Skiptir engu þótt Sigmundur Davíð verði kosinn formaður ef hann fellur af þingi. 

 

Spurningin er hvort upp sé að koma staða í kjördæmi Sigmundar Davíðs, þar sem hann deilir og drottnar, deilir andstöðunni gegn sér á milli þriggja áskorenda, sem rífa fylgi hver af öðrum svo að SDG vinnur sigur fyrir bragðið.

En líka hefur komið fyrir, að þegar tveir berjast mjög hart um efsta sæti, eins og gerðist í prestkosningum í Fríkirkjusöfnuðinum í Reykjavík 1950, verði kjósendur svo hvekktir á þessum átökum, að þeir kjósi hvorugan, heldur þriðja frambjóðandann.

Emil Björnsson og Árelíus Níelsson börðust hart um embættið, en þegar talið var upp úr kjörkössunum, komu úrslitin mjög á óvart; séra Þorsteinn Björnsson hafði sigrað.   


mbl.is Þrjú bjóða sig fram gegn Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byggt á misskilningi.

Þeir, sem gefa nú ferðaviðvörun til Íslands vegna skjálftahrinu í Kötlu, vita greinilega ekki, að í gosunum í Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnum 2011, slapp Ísland betur en flest lönd í norðanverðri Evrópu, vegna þess að askan barst þangað. 

Ætti þess vegna alveg eins að gafa út ferðaviðvaranir vegna flugs á milli þessara landa eins og ferða til Íslands. 

En annar misskilningur er líka á ferðinni varðandi hættuna af Kötlu og fleiri íslenskum eldfjöllum. 

Hættan á eldgosum á Íslandi er nefnilega í grundvallaratriðum viðvarandi, þótt vitað sé, að með rýrnun Vatnajökuls muni eldsumbrotum fjölga undir jöklinum og norður af honum. 

Hekla var komin á tíma fyrir nokkrum árum og hefur getað og getur áfram gosið hvenær sem er með mest klukkustundar fyrirvara. 

Katla var komin á tíma fyrir áratugum og því ómögulegt að spá um það hvort þessi skjálftahrina núna sé nokkuð frekar fyrirboði um gos en svipuð skjálftahrina fyrir fjórum áratugum. 

Annað hvort ættu erlendir fjölmiðlar að hætta að gefa út ferðaviðvaranir vegna eldgosahættu á Íslandi, eða láta viðvörun vera stanslaust í gildi. 

Hið síðarnefnda myndi hins vegar draga broddinn úr mikilvægi málsins af því að vitað er, að ekkert eldgos er í gangi á Íslandi í um 90 prósent hverrar aldar. 


mbl.is Ferðaviðvaranir í til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárkúgun og siðblinda að taka milljarða fyrir að geta það?

Úr viðtölum í Kastljósi um ofurbónusa skein ólík sýn á þetta fyrirbæri.

Annars vegar fannst talsmanni þeirra ekkert eðlilegra en að í krafti sérþekkingar og sérstöðu gæti hann og hans fólk stillt þeim, sem eiga mikið undir því að fljótt og vel gangi að afgreiða málefni slitabúa, upp við vegg með því að segja:

Annað hvort látið þið okkur gera þetta á svo skommum tíma að tugir milljarða græðist og borgið okkur milljarða í ofubónusa, eða þið tapið þessum peningum með því að láta aðra gera það, sem ekki geta gert það eins hratt og við getum. 

Eða að við förum til London til að gera það og þá hafa Íslendingar ekkert upp úr krafsinu. 

Mörgum finnst það lýsa siðblindu að finnast svona lagað eðlilegt og sjálfsagt, - tónninn svipaður og um fjárkúgun sé að ræða. 

Sjálfum finnst þessum verktökum ekkert athugavert við þetta. 

Það minnir á söguna af tónlistarmanninum, sem sem var spurður hvað hann tæki fyrir að útsetja ákveðið lag fyrir kvennakór. Orð tónlistarmannsins eru skáletruð: 

"Ég tek 300 þúsund."

"300 þúsund?"

"Já, 300 þúsund."

"Ætlarðu virkilega að taka 300 þúsund fyrir að gera þetta?"

"Nei." 

"En þú sagðir það." 

"Nei, ég ætla að taka 50 þúsund fyrir að gera það en 250 þúsund fyrir að geta það."

Í tilfelli ofurbónusasnillinganna er hins vegar ekki verið að tala um svona smotterí, heldur þúsund sinnum stærri upphæðir. 

 


mbl.is Frumvarp til að taka á bankabónusum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

70 ára reynsla af getuleysi Alþingis í stjórnarskrármálinu.

Strax 1943 sammæltust forystumenn flokka á Alþingi um það að eftir lýðveldisstofnun myndu Íslendingar loksins semja sjálfir nýja stjórnarskrá í stað stjórnarskrár, sem er að mestu leyti samin til að friðþægja Friðrki 7 Danakonungi árið 1849. 

Verkið lognaðist útaf enda þótt þáverandi forseti Íslands brýndi þingmenn til verksins 1949. 

Síðan hafa verið settar á stofn stjórnarskrárnefndir nokkrum sinnum án þess að fengist hafi samkomulag um neitt nema nokkrar einstakar greinar. 

Mikilvægustu breytingarnar, sem voru gerðar 1959, hefðu ekki náð fram að ganga ef farið hefði verið að kröfunni um að allir flokkar hefðu neitunarvald í málinu. 

Í tvennum Alþingiskosninum 1959 var hart tekist á um kjördæmamálið. Ef beðið hefði verið eftir því að samkomulag allra flokka tækist um það mál byggjum við kannski enn við fyrirkomulag þar sem þorp með rúmlega 400 kjósendur gætu fengi tvo þingmenn.

En það gerðist á Seyðisfirði í kosningunum 1949.

Þótt greinarnar, sem nú hafa verið lagðar fram á Alþingi, séu aðeins þrjár, er samt búið að lemstra þær svo mikið að þær eru gagnslausar. Ég hef áður lýst þeim atriðum, svo sem að fjarlægja hugtakið sjálfbæra þróun út úr auðlindaákvæðinu.

Það hlýtur að blasa við að það er fullreynt með þessa 70 ára gömlu aðferð að skipa nefndir með fulltrúum, sem hver um sig er fulltrúi eins stjórnmálaflokks, og eiga að ná samkomulagi sem allir eru sáttir við.

Síðan Þjóðfundurinn 1851 fékk ekki að setja landinu íslenska stjórnarskrá, samda af Íslendingum einum, eru liðin 165 ár. Eigum við að þurfa að bíða í 165 ár í viðbót, fram til ársins 2180 eftir því að draumur Jóns Sigurðssonar rætist? 


mbl.is Alþingi ekki ráðið við málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband