Valgerður og túrbínutrixið lifandi komin.

Fyrir rúmlega áratug þegar Valgerður Sverrisdóttir var iðnaðarráðherra sagði hún að eðli friðlýsinga væri á þann veg, að hvenær sem stjórnvöld teldu það nauðsynlegt gætu þau að sjálfsögðu numið þær úr gildi. 

Enda var það gert þegar friðlýsingu Kringilsárrana var aflétt svo að hægt væri að sökkva fjórðungi hans undir aðal miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar, en það var gert á vegum Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra.

Andi þeirra tveggja svífur yfir vötnum þessa dagana, þegar setja á sérstök lög eins og ekkert sé til þess að upphefja álit Skipulagsstofnunar og sérstakrar úrskurðarnefdnar um raflínur milli Þeistareykjavirkjunar og Bakka og brjóta líka í leiðinni ákvæði Árósasáttmálans. 

Það þýðir einfaldlega að öll lög sem gilda um óafturkræf náttúruspjöll og umhverfismál yfirleitt verða ekki pappírsins virði þegar stjórnvöld vilja beita valdi sínu og reyna að breiða yfir eigið klúður í máli eins og þetta línulagningar mál er. 

Það hefur legið fyrir í mörg ár, að mikil andstaða hefur verið við það hjá umhverfis- og náttúruverndarsamtökum að láta leggja risalínur fyrir tíu sinnum stærra álver en kísilverið á Bakka verður, og þverskallast við öllum ábendingum og óskum um að breyta legu línanna svo að þær verði ekki lagðar yfir hraun þar sem þau eru allra merkilegust og viðkvæmust og línuleiðin veldur langmestum óafturkræfum spjöllum. 

Það hefur allan þennan tíma verið vel hægt að leggja minni línu skaplegri leið, þótt hún yrði lengri en línurnar sem ætlunin er að vaða með yfir hvað sem fyrir verður án minnsta tillits til umhverfisáhrifa. 

Ef stjórnvöld eiga nú að komast upp með að keyra þau ólög í gegn sem stefnt er að og láta það "túrbínutrix" virka, (keyptar túrbínur í stórvirkjun án þess að málið hefði verið leitt til lykta), sem mistókst 1970, hefur engin framför orðið á þessum 46 árum, heldur afturför þar sem offorsi í framkvæmdum er beitt til að vaða yfir allt og alla.   

 


mbl.is Gróft brot á mannréttindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að hreinsa til í þessu máli.

Ef allt það framsal valds til alþjóðastofnana á ótal sviðum væri lagt saman, sem átt hefur sér stað frá 1944 þegar fyrsta framsalið, í hendur Alþjóða flugmálastofnuninni, var gert,, væri það líklega meira samanlagt framsal en fólst í upphaflega EES-samningnum.

Þessi listi er orðinn ógnar langur og varla til þau svið á landi, sjó og í lofti, sem hafa farið varhluta af afleiðingum samstarfs og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, sáttmálum og stofnunum. 

Samanlagt afsal frá upphafi EES-samningsins til okkar daga er hins nú orðið svo mikið varðandi þann samning einan sérstaklega, að vafasamt er að sérfræðinga hefði greint á við gerð þess samnings, um hvort hann stæðist stjórnarskrá, ef þeir hefðu vitað þá hvað framundan væri næsta aldarfjórðung.

Í upphafi starfs stjórnarskrárnefndar virtist sameiginlegur áhugi þingflokkanna að setja í stjórnarskrá ákvæði svipað því sem er í stjórnarskrá stjórnlagaráðs varðandi framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana.

En þingmenn heyktust á þessu og virðast heykjast enn við að taka á málinu og koma því í það horf, sem er víðast meðal fullvalda þjóða í kringum okkur með skýru ákvæði í stjórnarskrá.

Samkvæmt ákvæðinu í stjórnarskrá stjórnlagaráðs hefði þurft þjóðaratkvæði um EES-samninginn á sínum tíma og þar af leiðandi enn frekar nú.

Það þarf að hreinsa til í þessu máli en það verður varla gert úr þessu fyrir kosningar.  


mbl.is Verður ekki lengra komist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gildi heimanáms er mjög einstaklingsbundið.

Það er mjög einstaklingsbundið og fer eftir aðstæðum hvort nemendum hentar að læra heima ásamt náminu í skólanum eða ekki. 

Það er að mörgu leyti góð æfing fyrir mörg nútíma störf að nemendur læri að læra heima, því að í æ fleiri verkefnum nútíma lífshátta, eru verkefni leyst heima hjá fólki. 

Æskilegast er að nemendur hafi frelsi, að minnasta kosti upp að ákveðnu marki, til þess að ákveða hve mikið lært er heima og helst að hafa skylduheimanám sem allra minnst. 


mbl.is Ákvað að sleppa heimalærdóminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur blettur á sögu þjóðarinnar.

Óhæfuverk sjóræningja frá Alsír, sem ranglega voru kallaðír Tyrkir hér á landi og illvirki þeirra, Tyrkjaránið svonefnda, hafa í bráðum fjórar aldir skyggt á ekki minni glæpaverk okkar sjálfra, sem fólust í því að hundelta og drepa á hroðalegan hátt fjölda Baska, sem ekkert illt höfðu gert af sér, sem réttlæti slíka villimennsku og drápsæði, sem birtist í þessum viðbjóðslegu morðum. 

Glæpunum í Tyrkjaráninu hefur eðlilega haldið á lofti og samið um það leikritið Tyrkja-Gudda auk endurtekinna skrifa og ummæla, en Spánverjavígin svonefndu, sem eru líklega einhver svartasti blettur í sögu þjóðarinnar, fá nú loksins umfjöllun sem fyrir langalöngu var orðin tímabær.

 


mbl.is Gerir mynd um morðin á Böskum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband