"Úti´í auðninni / öðlast þú algleymi / sem einn í alheimi."

Ég þekki allmörg dæmi um það að fólk, sem jafnvel hefur ferðast mjög víða um strjálbýl eða óbyggð svæði í mörgum heimsálfum, hefur orðið fyrir slíkri ólýsanlegri upplifun af því að standa einn í auðn uppi á hálendi Íslandi, að það hafði aldrei áður getað ímyndað sér að svona upplifun væri til. 

Tilfinningunni lýsir þetta fólk sem eins konar algleymi, sem felst í senn í yfirþyrmandi undrun, ótta og alsælu, öllu í senn. 

Ég ætla mér ekki þá dul að geta lýst þessu nánar fyrir hönd þessa fólks, heldur láta fljóta með þetta erindu úr laginu "Við eigum land" þar sem gerð er tilraun til þess í tali og tónum: 

"Í djúpri þögn Drottni þig færa nær

óræð dularmögn, fegurðin kristaltær. 

Úti´í auðninni 

þú auðnast algleymi 

sem einn í alheimi,

alheimi,

aleinn í alheimi...."

Þessvegna er baráttan fyrir stóru friðuðu svæði, þjóðgarði á miðhálendi Íslands, svo mikilvæg, sjá myndbandið "Hjarta landsins" á facebook-síðu minni og Youtube:  

https://www.youtube.com/watch?v=UKGPSj-uzYk


mbl.is Víðerni á hverfandi hveli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kraftar sem geta breytt ströndinni og siglingaleiðinni.

Þeir kraftar, sem valdið hafa hopi Breiðamerkurjökuls svo langt inn í land, að eitt dýpsta vatn landsins hafi myndast, valda því líka að við það að leirframburður jökulsins fellur að mestu í lónið en berst ekki til sjávar við ströndina, rýfur sjórinn ströndina meira en áður var svo að hún færist æ innar. 

Með sama áframhaldi án nokkurra mótaðgerða mun brúin að lokum falla, hringvegurinn að rofna og lónið breysta í fjörð, fullan af ísjökum, sem munu berast með ströndinni og trufla siglingar, meðal annars hugsanlegar ferjusiglingar yfir þann farartálma sem fjörður yrði. 

Enga festu er að finna fyrir mannvirki til að verjast þessu, því að þarna eru tvö hundruð metrar lóðréttir niður á fasta klöpp undir sandinum.

Vaxandi líkindi eru til þess að útblástur gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum valdi hlýrra veðurfari, sem aftur veldur bráðnun jökulsins. 

En þegar Vatnajökull bráðnar, þynnist, minnkar og léttist, minnkar farg hans á landið, þannig að landið fer hækkandi. 

Það gæti seinkað því að Jökulsárlón breytist í fjörð. 

Aðal umhugsunarefnið varðandi hamfarir af mannavöldum í líkingu við það sem hér hefur verið lýst, er það hve lítið þarf oft að rugga bátnum til þess að hrinda af stað hrikalega stórri atburðarás. Að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. 

 


mbl.is Miklir kraftar að verki í Jökulsárlóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldi fordæma um framboð gegn sitjandi formönnum.

Listinn yfir dramatísk framboð gegn sitjandi formönnum í íslenskum stjórnmálaflokkum er langur. 

Hinn kornungi Hermann Jónasson skoraði Tryggva Þórhallsson, sem verið hafði forsætisráðherra 1927-1931, á hólm í Alþingiskosningunum í Strandasýslu 1934, hafði betur og settist sjálfur í stól forsætisráðherra næstu átta árin. 

1944 varð sjálfur stjórnmálamaður aldarinnar að margra mati, Jónas Jónsson frá Hriflu, að sæta því að hrökklast úr formannsembætti flokkssins. 

Eftir að Stefán Jóhann Stefánsson hafði verið formaður Alþýðuflokksins í um 15 ár, þar af forsætisráðherra 1947-49, gerði Hannibal Valdimarsson hallarbyltingu í flokknum, sem að vísu endist skammt. 

Sama gerði sonur hans, Jón Baldvin, þremur áratugum síðar, þegar Kjartan Jóhannsson var formaður, og við tók ráðherradómur Jóns Baldvins 1987-1994. 

Davíð Oddsson bauð sig fram gegn Þorsteini Pálssyni, sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins, 1991, og felldi hann í frægu einvígi. 

Enn í dag, aldarfjórðungi síðar, eimir eftir af þeim flokkadráttum þar í flokki. 


mbl.is Varfærnisleg viðbrögð þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband