Málið rangfært af línulagnarmönnum.

Í fréttaflutningi af raflínumálinu fyrir norðan hefur því verið stillt upp þannig, að náttúruverndarfólk hafi alfarið lagst gegn því að tengja Kröflu og Þeystareyki við Bakka á Húsavík. 

En þetta er ekki rétt. 

Andófsfólk gegn offorsi línulagnarmanna hefur lagt fram tillögur um skaplegri línuleiðir en þær sem hafa mestu möguleg óafturkræf neikvæða umhverfisáhrif í för með sér. 

Það mun að vísu hafa nokkurn aukakostnað í för með sér en þó hvergi nærri svo mikinn að það sé frágangssök. 

En á þetta hefur ekki verið hlustað heldur málið keyrt áfram af offorsi. 

Í stað þess að samþykkja skástu leiðina út frá umhverfissjónarmiður á nú með samþykkt frumvarps á Alþingi að setja fordæmi fyrir því, að í framtíðinni verði þannig staðið að verki, að fyrst verður ákveðið hvar reisa eigi verksmiðju og virkjun, og síðan geti Alþingi látið leggja raflínur stystu leið á milli án tillits til óafturkræfra umhverfisspjalla. 

Raflínumenn komast þar með í stöðu frekra og óþægra krakka sem geta grenjað út allt sem þeir heimta. 


mbl.is Fundað stíft um raflínumálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægt og hljótt.

Aðferðinni "hægt og hljótt" verður vafalaust beitt þegar Hvalárvirkjun verður reist. Ófeigsfjarðarheiði með sínum tjörnum og fossarnir í Hvalá eru eitt best varðveitta leyndarmál landsins og reynt verður að varðveita það leyndarmál sem best, svo að helst engir viti hvað verður gert. 

Fyrir 13 árum hitti ég samt þingmann, sem hafði samþykkt Kárahnjúkavirkjum ljúflega.

Ég leiddi talið að öðrum virkjanakostum, til dæmis Hvalárvirkjun, sem hefði í för með sér aðeins brot af þeim stórfelldu óafturkræfu umhverfisáhrifum sem Kárahnjúkavirkjun hefði í för með sér. 

Brá þá svo við að þingmaðurinn sagðist aldrei myndu samþykkja Hvalárvirkjun ef til þess kæmi að hún yrði á dagskrá Alþingis og hann ætti þar sæti. 

Ég undraðist stórum og spurði hann að ástæðu fyrir þessu. 

"Ég hef farið um þetta svæði og þekki það", var svarið. 

Lýsandi fyrir það hvernig ákvarðanir sem snerta milljónir Íslendinga framtíðarinnar, eru teknar. 


mbl.is Möguleikar á nýjum virkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lungnabólgan varla umræðuefni lengur.

Hillary Clinton stóð sig mjög vel í kappræðum forsetaframbjóðendanna, sem fram fór í nótt, kom vel undirbúin, missti ekki þráðinn og lét Trump ekki koma sér úr jafnvægi. 

Báðir frambjóðendurnir eru við aldur, en það kveikir eðlilega spurningar um það hvort heilsufarið sé nógu gott. 

Frammistaða Hillary í nótt kveður sjálfkrafa slíkar raddir niður, að minnsta kosti í bili og hún svaraði dylgjumm Trumps um lítið úthald þannig, að ekki þurfti frekar að ræða það.  

Trump hefur byggt málflutning sinn mjög á uppstilltum og einföldum frösum eins og "lög og regla" og að ástandið í Bandaríkjunum sé slíkt, að það verði að "gera Bandaríkin mikil á ný", reisa þau við. 

Sömuleiðis að rífa þurfi niður tilhneigingu Hillary og hennar flokks til að njörva þjóðfélagið niður í reglugerðafargani. 

Í þau skipti sem þetta atriði kom við sögu í einstökum afmörkuðum málum, tókst Hillary yfirleitt að útskýra mál og varpa ljósi á þau, svo sem varðandi þá ólgu í samskiptum lögreglu og blökkumanna, sem aukist hefur að undanförnu.

Hún skaut skotum að Trump varðandi kvenfyrirlitningu hans, sem settu hann í vörn. 

Hillary gerði sér far um að vera afslöppuð og yfirveguð, höfða til millistéttarinnar eins og Obama gerði 2008, en fast að 90% fyrirtækja í landinu eru mjög smá, en gegna afar mikilvægu hlutverki, bæði í efnahagslífinu og sem kjósendahópur. 

Hillary hjó í málflutning hans varðandi meint mikilvægi þess að mylja undir auðkýfinga og gefa þeim fríðindi og lausan taum, með því að benda á afleiðingar slíks fyrir átta árum og það, að "brauðmolakenningin", að fjármagn auðjöfranna hríslist niður í gegnum þjóðfélagið, hefur ekki reynst raunhæf.  

Þessar kappræður voru þó aðeins upphaf, sem Hillary slapp vel frá, og leikurinn er rétt að byrja 

Auðséð var að Trump reyndi að líta meira traustvekjandi út en hann hefur gert hingað til, og hann býr enn yfir afli, sem taka verður alvarlega.

En Hillary bæði varðist og sótti af fimi án þess að láta koma sér úr jafnvægi þannig að áhorfendur hljóta að hafa fengið á henni það traust sem valdamesti stjórnmálamaður heims þarf að búa yfir.  


mbl.is Clinton hafði betur samkvæmt CNN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæði í því að fínpússa sig.

Athyglisvert var að sjá hvernig bæði Hillary Clinton og Donald Trump virðast hafa reynt að fínpússa framkomu sína og málflutning fyrir kappræðurnar í nótt. 

Að vísu var Trump nokkuð gjarn á að grípa frammí fyrir Clinton á tímabili í kappræðunum, svo að jaðraði við ókurteisi, en að öðru leyti reyndi hann greinilega mestallan tímann að koma öllu betur og yfirvegaðri fram en hann hefur gert í kosningabaráttunni til þessa.

Líklega kemur það mörgum á óvart, sem hefur fundið hann óalandi og óferjandi. 

 

Clinton sýndi þess lítil merki að hún væri kona að nálgast sjötugt að stíga upp úr lungnabólgu og lagði sig fram um að vera hlýleg, brosmild og yfirveguð.

Það ætti að slá á áhyggjur af heilsufari hennar og getu,  og einnig á þá gagnrýni á hana að vera ekki nógu hlýleg og aðlaðandi. 

 

Hún greip til svipaðs málflutnings og Obama gerði 2008 að draga fram mikilvægi millistéttarinnar í bandarísku samfélagi, bæði til þess að slá niður kenningu Trumps um að stórgróði auðkýfinga skilaði sér niður eftir samfélaginu og áreiðanlega ekki síður til þess að höfða til millistéttarinnar sjálfrar.

Ég sá ekki fyrsta hluta kappræðnanna og vantaði nokkuð í seinni hlutann líka, svo að ég get ekki dæmt um það til fulls hver útkoma þeirra sé, hef hugsanlega misst af einhverju sem gæti hafa vakið athygli.

Mér fannst Clinton hins vegar koma öllu betur út fyrir mína parta og verjast gagnrýni Trump býsna vel í þeim atriðum sem hún hefur verið beittust. 


mbl.is Hvað gerist í nótt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband