Vonandi að rofa til og birta.

Frá upphafi Guðmundar- og Geirfinnsmálsins hefur ríkt svartnætti á þeirri villuvegferð sem hafin var í málinu og hefur ekki linnt fyrr en nú, þegar von vaknar um að hægt sé að komast út úr þeirri vegferð fárs í blindgötu, sem málið hefur hrakist um frá upphafi.Trölladyngja

Vonandi gerist svipað og gerðist í ferð á flugvél í gær á leið frá Tungubökkum í Mosfellsbæ til Sauðárflugvallar á Brúaröræfum.

Yfir Sprengisandi miðjum, fyrir austan Hofsjökul, var flogið undir þykkt og dökkt rigningarský, sem varpaði svörtumm skugga á sandinn fyrir neðan, svo að svartnætti virtist framundan. 

En þá byrjaði að myndast lárétt glufa af birtu undir skýinu sem stækkaði ört, en í gegn sást risavaxin gosdyngja, Trölladyngja, böðuð í sól með snjódreifaslæðu á toppi. 

Hornið á Öskju gægðist fram vinstra megin á bak við þessa stærstu af mörgum fjölbreyttum dyngjum á hálendinu norðan Vatnajökuls. 

Þessu lík er draumsýnin um endurupptöku og nýtt sjónarhorn á mannshvarfamálin miklu, sem í stað þess að hafa létt þungu fargi af þjóðinni, eins og dómsmálaráðherrann vonaði fyrir tæpum fjórum áratugum, hafa hvílt eins og mara á þjóðinni. Tæknin tók af mér ráðin og birti myndina tvisvar hér á síðunni án þess að það væri ætlun mín. Vonandi er það fyrirboði um að bæði málin, varðandi hvarf Guðmundar og hvarf Geirfinns, verði afgreidd sem aðskilin mál með svipaðri niðurstöðu, hvort um sig.Trölladyngja

  


mbl.is Rök fyrir endurupptöku á máli Erlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sofið í runna við M.R.?

Þótt merkilegt þyki að ferðamaður skuli hafa ætlað að sofa á bekk fyrir utan Hafnarkirkju, er fátt nýtt undir sólinni.

Ýmsir magnaðir karakterar leyndust innan um menntaskólanema í M.R. þegar ég var í þeim skóla, og voru uppátæki þeirra oft skrautleg.  

Nokkrir þeirra voru það sem kallað var séni, eða stórsnillingar, sem voru svo gáfaðir og skarpir, að þeir þurftu ekki að lesa eins og þeir dúxar, sem þurfa að vera lúsiðnir og liggja í skólabókunum lon og don til að ná árangri. 

Sagt var að nokkur þessara gáfnaljósa sætu alla daga inni á sjoppunni Skalla handan við Lækjargötu til þess að sýna fram á að þeir þyrftu ekki að lesa, en sætu siðan heima um nætur með fæturna ofan í bölum, fullum af köldu vatni, til þess að halda sér vakandi við lestur, sem fór leynt. 

Nokkrir utanskólanemendur tóku stúdentsprófinu 1960 og var eitt séníið þeirra á meðal, ef ég man rétt. 

Stillt veður, eins og oft er í maí-júní, var prófdagana, og fékk sú saga flug, að séníið hefði sofið einhverjar nætur í runna skammt frá skólanum og risið þar að morgni  úr þessari frumlegu útivistarrekkju til að fara í próf og brillera. 

Aldrei varð ég vitni að þessum meintu uppátækjum séníanna, þótt ég heyrði þessar sögur.

Þótt um það gildi hið fornkveðna, að hvatki er missagt sé, skuli hafa það er sannara reynist, má líka hafa í huga ummæli Indriða G. Þorsteinssonar ritstjóra og skálds þess efnis að góð saga megi ekki líða fyrir sannleikann. 


mbl.is Ferðamaður ætlaði að sofa við bæjarkirkjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju endurupptakan er æpandi nauðsyn.

Það yrði stórslys í íslenskri réttarsögu og þjóðarsögu ef Guðmundar- og Geirfinnsmálið yrði ekki endurupptekið. 

Síðan bókin Hyldýpið kom út hafa þrjú sterk vitni haft samband við mig sem búa öll yfir vitnisburðum um málið út frá þremur sjónarhornum, sem verður að láta þau lýsa í nýrri rannsókn. 

Eitt þessara vitna er sérstaklega mikilvægt. 

Öll vitnin eiga það sameiginlegt, að í rannsókn málsins var ýmist ekki talað við þau eða, að það sem þau geta nú bent á, var ekki talið rannsóknarvert, líklega af því búið var með aðferðum á borð við 512 daga einangrun eins sakborningsins að knýja fram játningar, sem voru þjóðinni svo mjög að akapi, að dómsmálaráðherrann lýsti því yfir að þungu fargi væri létt af henni.

Vitnin eru nú að nálgast áttrætt. Ef ekki verður talað við þau nú, munu frásagnir þeirra glatast til ómælanlegs tjóns fyrir málið.

Það má ekki gerast.

Upphaflega rannsóknin var svo stórgölluð á alla lund, að það er æpandi nauðsyn á að málið verði allt tekið upp að nýju. Þó ekki væri nema til þess að niðurstaðan á sínum tíma væri dæmd ógild og málið óupplýst. 


mbl.is Lokafundur um Guðmundar- og Geirfinnsmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband