Alltof mikill seinagangur í skipulagningu ferðamála.

Það var fyrir síðustu aldamót sem ég gerði slatta af ferðaþáttum, sem sýndu hve langt á undan okkur Íslendingum Bandaríkjamenn, Kanadamenn, Norðmenn, Svíar og Finnar eru í skipulagningu ferðamála og umhverfis- og náttúrverndarmála.

Á öllum þessum árum, sem liðin eru síðan, virðist lítið örla á því að við Íslendingar dröttumst til að nota, þótt ekki væri nema brot, af þeim hundraða milljarða tekjum, sem stórvaxandi ferðaþjónusta gefur okkur til að læra af reynslu annarra þjóða að aðgangsstýringu og öðrum frumatriðum í nýtingu lands og skipulagningu ferðaþjónustu.Náttúrupassi BNA

Upphlaupið, sem hér varð þegar rætt var um náttúrupassa, leiddi í ljós djúpstæðan mun á viðhorfum okkar og annarra þjóða gagnvart náttúrunni og auðlindum hennar.

Vestra skilgreinast þjóðgarðsgestir sem "proud partners" en hér á landi voru notuð orð eins og "auðmýking" og "niðurlæging" þegar minnst var á aðgangsstýringu. 

Hér á landi er hundruðum þúsunda ferðamanna mokað skipulagslaust á örfá svæði og staði á sama tíma sem mörg stórmerkileg náttúrufyrirbæri eru algerlega óþekkt, en gætu sum hver nýst til að dreifa ferðamönnunum betur og létta á álagi þar sem það er orðið skaðlegt eða illviðráðanlegt.  

 


mbl.is Ávinningur aðgangsstýringar margfaldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smáflokkalandslag.

Ég man þá tíð þegar Þjóðviljinn sálugi kallaði Alþýðuflokkinn "pínulitla flokkinn". Samt hafði Alþýðuflokkurinn aldrei minna en 15 prósenta fylgi á þessum áratugum um miðja síðustu öld, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var með um eða yfir 40% fylgi.

Framsóknarflokkurinn var með álíka mikið fylgi og Sjálfstæðisflokkur og Píratar hafa nú og taldist í besta falli vera meðalstór flokkur. 

Nú hefur hið pólitíska landslag breyst í smáflokkalandslag, þar sem aðeins tveir flokkar geta talist meðalstórir, en aðrir flokkar eru smáflokkar eða jafnvel örflokkar eins og Björt framtíð er orðin. 


mbl.is Píratar með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laumuspil og blekkingar.

Eitt sinn hitti ég að máli þingmann einn, sem var ákveðinn í að greiða atkvæði með Kárahnjúkavirkjun þegar það mál var á dagskrá.

Ég spurði hann hvort honum þætti það verjandi að sökkva 25 kílólmetra löngum og allt að 200 metra djúpum dal, að meirihluta grónu landi, með merkum náttúruverðmætum og stærsta fossinum á norðausturhálendinu og láta dalinn fyllast upp með drullu og auri aurburðarmestu jökulsár landsins. 

Ég benti honum á það, til samanburðar, að með Hvalárvirkjun vestur af Ófeigsfirði á Ströndum væri verið að tala um að virkja hreint vatn, þannig að hægt yrði að fjarlægja stíflur síðar og fá landið og fossana til baka. 

Honum hnykkti við og hann sagði: "Hvalárvirkjun! Nei, því myndi ég aldrei greiða atkvæði með."

Ég varð að sjálfsögðu hissa og spurði hann hvers vegna hann kæmist að svo furðulegri niðurstöðu. 

"Það er af því að ég hef komið á það svæði", svaraði hann. 

Um svipað leyti sat ég við hlið eins þingmanns á leið frá Egilsstöðum til Reykjavíkur og barst talið að fyrirætlunum um virkjanir á Torfajökulssvæðinu, sem þá komust á dagskrá. 

Hann kvaðst hlynntur nýtingu háhita en spurði samt hvar Torfajökull væri. 

Ég sagði honum það og bætti við að þarna væri líklega mesta jarðvarmaorka landsins, enn meiri en í Kerlingarfjöllum.  

"Þá er þetta líklega ágætasta fyrirætlun" sagði hann, en ég myndi ekki vilja leyfa virkjanir í Kerlingarfjöllum. 

"Af hverju ekki?" spurði ég. 

"Af því ég hef komið í Kerlingarfjöll," svaraði hann.

Fáfræði sú á upplýsingaöld, sem beitt hefur verið og ráðið hefur ríkjum í þessum málum hér á landi, er dapurleg.

Fyrir hundrað árum var ekki stundað jafn mikið laumuspil með eðli, áhrif og staðsetningu virkjana og nú er markvisst beitt.Búðafoss

Virkjun Urriðafoss í Þjórsá hét einfaldlega Urriðafossvirkjun.

Virkjun Gullfoss var ekki kölluð Brattholtsvirkjun. 

Með Holtavirkjun er ekki verið að virkja nein holt, heldur er verið að virkja Búðafoss í Þjórsá, sem myndin er af. 

Sem betur fer stefnir í það að þrír af tólf stórfossum ofarlega í Þjórsá verði ekki lemstraðir meira en orðið er, en á meðan svonefnd Kvíslaveita var gerð fyrir ofan þá var því vandlega leynt, að með því að taka allt að 40% af vatnsmagni árinnar og veita því í burtu, var unnið skemmdarverk á fossinum Dynk, sem er magnaðasti stórfoss landsins, þegar hann rennur með fullu vatnsmagni.

Í 20 ár hefur svonefnd Norðlingaölduveita verið á dagskrá, en í raun er ekki verið að virkja neina öldu, heldur Þjórsárfossana þrjá.

Þegar áformin um Norðlingaölduveitu hikstuðu, breytti Landsvirkjun lítillega um útfærslu og réttlætti með henni þá nafnbreytingu að virkjunin héti Kjalölduveita!

Það yrði langur, langur lestur að nefna öll þau atriði, sem reynt er með laumuspili og oft blekkingum að halda frá fólki þegar virkjanir eru annars vegar.

Hvað vita til dæmis margir hvar Austurengjavirkjun er?

Ef fólk á förnum vegi væri spurt hygg ég að varla nokkur maður myndi vita það.

En í raun ætti virkjunin að heita Krýsuvíkurvirkjun og þá myndu flestir vita hvar hún væri.   

En það má að sjálfsögðu helst ekki vitnast, því að þá kynnu að renna tvær grímur á marga. 


mbl.is Fingraför í náttúru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband