Mannlegt eðli í öllum flokkum.

Stjórnmál snúast eftir orðsins hljóðan í því að stjórna. Af því leiðir að til þess að hafa áhrif við stjórnun mála, hyllast margir þeirra, sem gefa sig að stjórnmálum, til þess að beita áhrifum eftir mætti til þess að hafa þessi áhrif, - nokkuð, sem með öðrum orðum er oft orðað þannig að beitt sé þrýstingi og jafnvel enn skæðari aðferðum. 

Síðan bætast við ýmis önnur atriði eins og mannlegi þátturinn, mismunandi persónuleikar og misjöfn lagni fólk við að vinna með öðru fólki og eiga við það ljúf og góð samskipti. 

Í stjórnmálum er líka tekist á um stefnur og aðferðir og það skapar núning sem getur magnast upp í hreint ósætti og illindi.

Ekki er hægt að búast við því að nokkurt stjórnmálaafl eða flokkur geti sloppið við að svona lagað gerist innan hans raða.  


mbl.is Birgitta hafnar ásökunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríð, sem tapast í sjónvarpi.

Það hefur verið sagt að Bandaríkjamenn hafi tapað Víetnamstríðinu í sjónvarpinu heima hjá sér. 

Þetta var fyrsta meiriháttar stríðið þar sem hinn nýi fjölmiðill fékk að taka myndir og flytja fréttir svo um munaði, og þetta bættist við skerf ljósmyndara og blaðamanna. 

Smám saman kom í ljós að stríðið var ekki eins og stríðið sem Kanar háðu gegn Japönum í Seinni heimsstyrjöldinni og þótti grimmilegt, heldur mun grimmilegra og átakanlegra fyrir Bandaríkjamemm,vegna þess, að þeir beittu aðgerðum, sem minntu á sumar aðgerðir nasista á borð við dráp þorpsbúa í Lidice.  

Ef grunur var um að Viet Kong liðar eða leyniskyttur þeirra leyndust í þorpum, var þorpunum einfaldlega eytt í eldi napalmsprengna, sem eru svívirðileg vopn. 

Myndin af flýjandi þorpsbúum, einni frægustu og áhrifamestu ljósmynd síðustu aldar, varð, ásamt fleiri myndum, bæði ljósmyndum og kvikmyndum, til þess að snúa almenningaálitinu á Vesturlöndum við á þann hátt, að ekki fannst hliðstæða úr hernaðarsögu Bandaríkjanna.

Þau höfðu aldrei fyrr tapað stríði og Víetnamstríðið var eitthvað alveg nýtt fyrir þeim.

Nöturlegt er að hálfri öld eftir Víetnamstríðið sé deilt um myndbirtingu úr þessu stríði, sem tapaðist í sjónvarpi.

Og þrátt fyrir stóraukna ritskoðun á því sem birtist frá vígvellinum, fyrirbæri, sem er dæmi um það, að það fyrsta sem er drepið í stríði sé sannleikurinn, er það vonandi ekki liðin tíð að stríð tapist eða vinnist í sjónvarpi þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að sannleikurinn sé drepinn.  


mbl.is Norðmenn í stríð við Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki minnst á súrnun sjávar? Hvernig væri að líta á kort?

Mikil er gyllingin á þeirri blessun, sem loftslagsbreytingar muni færa Íslendingum í frétt um hagsmunamat ráðherranefndar um norðurslóðir. 

Ekki er minnst á súrnun sjávar, sem er lang ískyggilegasta breytingin sem beytt samsetning lofthjúpsins hefur í för með sér. 

Enn standa menn í þeirri trú að hægt verði að byggja heimshöfn í Finnafirði og að siglingaleiðirnar báðar, norðvesturleiðin og norðausturleiðin, liggi um Ísland, þótt ekki þurfi annað en að líta á kort til að sjá, að norðausturleiðin frá Evrópu til Asíu um liggur meðfram Noregsströndum, fjarri Íslandi, og norðvesturleiðin frá austurströnd Ameríku liggur fyrir vestan Grænland, líka fjarri Íslandi.  

"Nýting auðlinda" í formi olíuvinnslu er skómigustefnan í hæsta flokki, því að með því að Ísland gerist olíuvinnsluþjóð leggjum við okkar skerf til þess að menga lofhjúpinn og draga lappirnar í því að takast á við útblásturvandann og skipta yfir í aðra orkugjafa.

Að sjálfsögðu á Ísland mikilla hagsmuna að gæta á norðurslóðum, ekki síst ef framundan eru sviptingar og átök um þær, en sú sýn, sem virðist ríkja á viðfangsefnin, virðist ekki vel ígrunduð í öllum atriðum.  


mbl.is Vilja tryggja hagsmuni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband