"Þáverandi fjármálaráðherra." Stækkandi kvóti "vafanautnar."

Helsti vandi Bjartrar framtíðar nú er að komast framhjá þeirri óþægilegu staðreynd að Bjarni Benediktsson leyndi þjóðinni skýrslu ríkisskipaðrar opinberrar nefndar um aflandsfélög, notkun þeirra og stöðu í efnahagskerfi þjóðarinnar í næstum þrjá mánuði.

Óttarr Proppé segir að niðurstaðan hafi orðið sú að láta "þáverandi fjármálaráðherra" njóta vafans um það hvers vegna þessari skýrslu var leynt svona lengi.

Í samræmi við merkingu sagnarinnar að njóta mætti smíða nýyrðið "vafanautn."

Orðalagið "þáverandi fjármálaráðherra" er til marks um vandræðaganginn í þessu máli.

Með því að orða þetta svona lítur út eins og að "verðandi forsætisráðherra" sé jafnvel einhver allt annar maður en "þáverandi fjármálaráðherra."

En á þeim degi sem svona orðalag er notað er Bjarni Benediktsson ekki "þáverandi fjármálaráðherra" heldur "núverandi fjármálaráðherra", eða einfaldlega bara "fjármálaráðherra" þangað til hann lætur af því starfi.

Og hann er enn fjármálaráðherra þegar þessi pistill er skrifaður.  

Bjarni fer senn að vera búin að sanka að sér myndarlegum kvóta í málum, þar sem hann hefur verið látinn njóta vafans og er látinn njóta vafans, allt frá Vafningsmálinu hér um árið í gegnum Panamaskjölin og nú síðast fyrir það að hafa leynt skýrslunni um aflandsfélögin fyrir almenningi. 

Spurning er hvort þessi kvóti fari ekki að verða uppurinn og sumir spyrja hvort hann hefði jafnvel átt að vera búinn í fyrravor, þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og nokkrar fleiri áberandi persónur í íslenskum stjórnmálum töldust vera búin með sína kvóta og urðu að hverfa af hinum pólitíska vettvangi af þeim sökum. 

Síðan má velta fyrir sér hvort birting meginatriða skýrslunnar hafi fyrir tilviljun orðið þann dag, sem það gerðist eða hvort sá dagur hafi verið úthugsaður. 

Því að ef það hefði gerst viku fyrr er hætt við að það hefði truflað stjórnarmyndunarviðræðurnar á viðkvæmasta stigi þeirra. 

Viðræðurnar voru komnar svo langt, að erfitt var að snúa til baka á þeim tímapunkti.

Og ef það hefði gerst daginn eftir að ný stjórn tók við hefði það líklega valdið meiri vandræðum í stjórnarsamstarfinu en ella, af því að þá hefði sannleikurinn komið algerlega í bakið á mönnum og ekkert færi gefist á að láta valdastofnanir flokkanna samþykkja stjórnarsáttmálann vitandi þó um skýrsluna. 

Vandlega valinn dagur?

Gagnslaus pæling. Ætli að það verði ekki að láta Bjarna njóta vafans í þessu efni eins og hefðin býður?

 


mbl.is Vildi ekki Bjarna sem forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð frétt fyrir Íslendinga.

Það eru góðar fréttir fyrir fjölmargar þjóðir, sem standa stundum nærri því að komast á HM í knattpyrnu en tekst það ekki, að þáttökuþjóðum á mótinu sjálfu verði fjölgað. 

Fjölgunin þarf ekki að þýða að leikjum á mótinu fjölgi að sama skapi, heldur er hægt að fækka leikjunum sem hver þjóð leikur til að vega upp á móti leikjafjölgun, ef það er talið æskilegt.

Íslendingar hafa fyrr en nú eignast landslið, sem hefur náð býsna langt í ákveðinn tíma en ekki tekist að halda jöfnum styrkleika nógu lengi.

Má nefna sem dæmi liðið, sem gerði jafntefli við heimsmeistara Frakka hér heima um síðustu aldamót og velgdi þeim undir uggum með glæsilegri frammistöðu í síðari þjóðanna á troðfullum þjóðarleikvangi Frakka í París.

Nú höfum við eignast landslið með stöðugari hámarksgetu en áður þekktist og þar með lifnar yfir draumnum um að komast á HM og helst með sama glæsibrag og á EM síðastliðið sumar.  


mbl.is FIFA samþykkir fjölgun liða á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri að skoða hliðstæða staði erlendis?

Okkur Íslendingum hættir til þess að halda að "séríslenskar aðstæður" séu einstæðar svo víða að það þurfi að finna upp hjólið varðandi hvaðeina. Preikestolen

Að sönnu hefur hver staður vissa sérstöðu, en það á ekkert endilega frekar um íslenska staði en erlenda.

Á vesturströnd Írlands eru til dæmis fræg fuglabjörg, beggja vegna Miklagljúfurs í Bandaríkjunum, við Væringjafoss í Noregi eru frægir þverhníptir útsýnisstaðir, og í Yellowstone þjóðgarðinum eru viðkvæm en jafnframt hættuleg hverasvæði.

Bryce Canyon í Bandaríkjunum er hrikalegt svæði með gönguleiðum og ótal stöðum, þar sem hægt er að fara sér að voða.  

Preikestolen við Lysefjord í Noregi er dæmi um afar hrikalegan stað.

Hvernig væri nú að senda svo sem eins og einn eða tvo Íslendinga í sérstaka ferð til þess að skoða þessa staði? 

Eða höfum við ekki efni á öðru en að setja alla okkar peninga í að græða nokkur hundruð milljarða í viðbót á erlendu ferðamönnunum?


mbl.is Banna göngu að sjó í Kirkjufjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband