"Eitt skæðasta bragð" hernaðar dugði í einn hálfleik.

Á ensku máli er til hugtakið "element of surprize" yfir það þegar herlið koma andstæðingunum á óvart. Þetta gildir líka um íþróttir og hvers kyns samkeppni eða átök. 

Það var augljóst í fyrri hálfleik Spánverja og Íslendinga hvort liðið hafði skoðað hitt betur. 

Íslendingar telfdu fram bráðungu og að mestu leyti nýju liði, sem Spánverjar höfðu eðli málsins samkvæmt haft lítinn tíma til að skoða miðað við það að Íslendingar hafa haft mörg ár til að skoða hið firnasterka spánska lið.

Strákarnir hans Geirs komu því sjálfum sér og öllum á óvart með því að ná upp góðum leik í vörn og sókn og við það komust gömlu refirnir Guðjón Valur og Björgvin Gústafsson í banastuð.

Íslendingar fengu því tækifæri til að ráða ferðinni og spila sinn leik fram að leikhléi.

 

Markatala Spánverjanna í fyrri hálfleik varð fyrir bragðið einhver sú lægsta sem þeir hafa skorað í einum hálfleik.

Í seinni hálfleik snerist dæmið við. Spánverjar voru búnir að lesa íslenska liðið nógu vel til þess að leika sinn leik og ráða ferðinni, tókst að lokka íslensku strákana inn að miðjunni í sóknaraðgerðum sínum, einmitt þangað sem þeir vildu fá þá og koma þeim niður á jörðina.

En þrátt fyrir þetta ætti frábær frammistaða íslenska liðsins í fyrri hálfleik að geta orðið uppörvun fyrir framhaldið.

Ef rétt er á spilum haldið á svona hæfileikaríkt lið að geta tekið framförum með því að öðlast reynslu og bæta sig.

Það sást vel á því hvernig "unglingalið" Þjóðverja undir stjórn Dags Sigurðssonar sló í gegn á EM.  


mbl.is „Ekki byrja á þessu!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordómar sem sköpuðust og hurfu.

Þegar ég var strákur og unglingur var áhuginn mikill á alls kyns útivist, gangandi, hlaupandi, hjólandi eða við útivinnu sumar sem vetur. 

Síðan var hlaupið beint árið 1959 af reiðhjólinu yfir á minnsta bíl landsins og við tóku 56 ár, þar sem bílar og síðar flugvélar að hluta urðu fararmátinn. 

Í desember 2013 fór ég í ferð til Akureyrar á gömlum Nissan Terrano jeppa, sem ég hafði krækt mér í fyrir lítið til þess að nota sumarið áður á Sauðárflugvelli en fann síðan aðra lausn og sat uppi með garminn.

Ætlaði að selja hann en það snjóaði og snjóaði og ég ákvað því í tengslum við áritunarferð til Norðurlands vegna mynddiskasölu að nýta tækifærið og þurrviðrið sem hafði verið fyrir norðan og skilja hann þar eftir á bílasölu. 

En þá brá svo við að það byrjaði að snjóa fyrir norðan og stytti nánast ekkert upp fram á vor!Náttfari við Engimýri 

Bílasalinn fékk tilboð í bílinn þegar komið var fram á sumar sem fól í sér bein skipti á honum og spánnýju rafreiðhjóli, sem ég gæti selt fyrir sunnan.

Leið nú sumarið að það dróst að selja hjólið, einkum vegna þess að ég vildi prófa það fyrst, en það fór ekki í gang og ekki var hægt að selja það í því ásigkomulagi.

Haust og vetur skullu á og loks í apríl 2015 fékk ég hjólið til að virka eftir að hafa hlaðið það, en það komst aðeins 30 metra.Sörli. Bakkasel.

Hjólið hafði greinilega staðið of lengi kyrrt, bæði hjá mér og hugsanleg líka hjá fyrri eiganda, og rafhlaðan var biluð.

Ég prófaði að hlaða aftur nokkru seinna, og nú komst það 80 metra. Hlóð enn og það komst 300 metra og síðan dálítið lengra, koll af kolli, 800 metra, 1500 metra og loks 8 kílómetra sem var samt langt frá því sem gefið var upp, þannig að ég "gafst upp" og ákvað að eiga hjólið úr því sem komið var, þótt ég væri fullur fordóma þess efnis að sá samgöngumáti væri ómögulegur á Íslandi vegna "séríslensks veðurs og aðstæðna." Honda PCX. Léttir, við Mývatn

En ég var hvort eð er búinn að hrekjast frá opinberlega gefnu loforði um orkuskipti í formi Renault Twisy 2ja manna örbíls og fór því að sinna hjólinu í stað þess að gefast alveg upp.

Snillingurinn Gísli Sigurgeirsson gerði við rafhlöðuna og bætti rafhlöðum við fyrir hjólaferð frá Akureyri til Reykjavíkur, sem byggðist á því að fara upp Bakkaselsbrekkuna zik-zak um nótt þegar umferð væri sem minnst. Hjólið fékk nafnið Náttfari fyrir bragðið. 

Tilraunin mistókst í brekkunni en tókst í annarri tilraun á hjólinu Sörla, léttara og algíruðu hjóli. 

Fyrsti dagurinn í minnisbókinni, sem ég hjólaði á Náttfara, er 22. apríl 2015. Þá hófst kafli nýs lífsstíls í samgöngumálum mínum, sem ég hef lýst fyrr hér á síðunni og fært mér minnst 60 prósenta minna kolefnisspor.  

Mjög fljótlega komst ég að því að ég hafði á 56 árum fyllst upp af fordómum gagnvart þessum ferðamáta, því að nú eru bráðum liðin tvö ár þar sem ég hef getað notað Náttfara og síðar líka vespuhjólið Létti allan ársins hring, svo að ekki hefur fallið vika úr.  

Það er aðeins í stormspá, yfir 20m/sek eða þegar hjólin bera ekki nógu mikið (sem er ótrúlega sjaldgæft) sem ég nota bíl. 

Nú rifjaðist upp fyrir mér að á unglingsárunum hafði ég hjólað allt árið, þannig að nú má segja að ég hafi, vegna þess að hafa hlaupið yfir vélhjólastigið 1959, unnið upp glötuð unglingsár þeirrar hressingar og ánægju sem hvers kyns ferðalög á hjólum geta veitt. 

Það er sameiginlegt öllum formum útiveru að með réttum búnaði og klæðnaði er hægt að yfirvinna flestar þær tegundir veðurs, sem eru hér á landi, og eru þær þó býsna fjölbreytilegar. 


mbl.is „Hugmyndin varð til á hlaupum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

70 prósent treystu öðrum betur.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk tæplega 30% atkvæða í Alþingiskosningunum í haust og formaður hans lítur á það sem mikið traust, svo mikið, að kjósendur hafi lagt blessun sína yfir það að hann yrði forsætisráðherra. 

Þá er skautað fram hjá því að 70% kjósenda kusu hvorki Sjálfstæðisflokkinn né formann hans og treystu öðrum betur. 

Það voru úrslit kosninganna. 

Ef menn meta þau þannig, að Viðreisn hafi í raun verið klofnigsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, eins og ráðherraskipanin sýnir glögglega, fengu Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn samtals 40%. 

60% kjósenda kusu hvorki Sjalla né Viðreisn og treystu öðrum betur. 

Það voru úrslit kosninganna, 40-60. 

Björt framtíð lét líklega á Lækjarbrekkufundinum fyrir kosningar varðandi það að taka þátt í stjórn þáverandi stjórnarandstöðuflokka. 

Þáverandi stjórnarandstaða fékk ekki meirihluta þingsæta og þó 48,5% prósent atkvæða eða 8,5 prósentustigum meira en Sjallar og Viðreisn samanlagt.

Niðurstaða: 40-48.

Það er algengt að túlka raunverulegan ósigur í bláköldum tölum sem sigur út á það eitt að hafa aukið fylgi sitt frá því sem áður var.

Þetta myndi aldrei verið tekið gilt í íþróttum.

Ef Stjarnan tapar fyrir Fram í handbolta með 20 mörkum gegn 30, myndi það aldrei vera talinn sigur Stjörnunnar þótt þeir töpuðu næst með 23 mörkum gegn 27.

Og jafnvel þótt menn telji að persónulegt fylgi Bjarna hafi verið svo mikið að þess vegna verðskuldi hann það öðrum fremur að gegna valdamesta embætti landsins, er það ekki rétt ef marka má margar skoðanakannanir, sem sýndu að Katrín Jakobsdóttir naut mests traust. 

Ástæða þess að Bjarni Benediktsson er forsætisráðherra er sú að vinstri flokkarnir töldu Panamaskjölin ekki nógu mikið forgangsatriði í stjórnarmyndunarviðræðum sínum, heldur létu viðræðurnar stranda á öðrum atriðum. 

Einn Lækjarbrekkuflokkanna mat stöðuna þannig, að það yrði samt að mynda ríkisstjórn og ákvað því að stökkva yfir á eina vagninn sem var í boði, þar sem Bjarni Benediktsson er vagnstjórinn.    


mbl.is „Hefur setið djúpt í hnakkinum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verra ástand en 1944? Óviðunandi flöskuháls.

Eitt af frægustu og óvenjulegustu atvikum íslenskrar samgöngusögu gerðist árið 1944 þegar gamla Ölfursárbrúin brast undan mjólkurflutningabílum, svo að þeir féllu í ána, en mannbjörg varð. 

Annar bíllinn féll í straumiðuna þar sem áin er dýpst, en bílstjóranum tókst að komast út um glugga og ná taki á mjólkurbrúa og síðar varadekki sem báru hann 1200 metra niður eftir ánni. 

Þar gat hann sleppt dekkinu og svamlað í land. 

Árið 1944 var umferð um gömlu brúna ekki nema örlítið brot af því sem nú er um brúna, sem reist var 1945. Bílar voru auk þess miklu léttari og flutningabílar margfalt léttari en þeir eru nú. 

Á sumardögum er mun seinlegra nú en 1944 að aka þjóðveg 1 í gegnum Selfoss. 

Slys eins og gerðist 1944 gerast yfirleitt eftir að búið er að misbjóða mannvirkjunum oft áður en þau bresta endanlega, líkt og þegar dropinn fyllir mælinn. 

Nýjasta dæmið um svona lagað er brú sem brast í Vatnsdal. 

Ef Ölfurárbrú nútímans brestur mun það gerast vegna þess að of margir þungir bílar verða þá á henni. 

Það mun þýða margfalt voðalegra slys en gerðist 1944, hugsanlega mannskætt slys. 

Ölfusárbrú og hinn þrönga leið í gegnum Selfoss er fyrir löngu orðin að óviðundandi og hættulegum flöskuhálsi á hringveginum. 

Dregist hefur allt of lengi að smíða nýja brú, en tregða hefur verið hjá sumum vegna þess að verslun á Selfossi myndi minnka. 

Það er svipuð afstaða og margir tóku þegar Rangárbrú við Hellu var færð og einnig andstaðan á Blönduósi gegn nýrri brú, sem yrði í landi Blönduósbæjar, en 14 kílómetrum sunnar en núverandi brú er. 

Ölfusárbrú og vegarkaflinn í gegnum Selfossbæ eru hluti af því sem heitið "innviðir" er notað um þegar verið er að ræða um aðkallandi aðgerðir vegna stórfjölgunar ferðamanna en landsmenn hafa ekki tímt að leggja í. 

Ef Ölfusárbrú brestur verður það svo táknrænt um brostna innviði að vekja mun athygli víða um lönd. 

Viljum við að það gerist?  Er blandan af græðgi og nísku svona sterk?


mbl.is Umferðin verði takmörkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband