9625 bloggfærslur á áratug.

Margt smátt gerir eitt stórt segir máltækið. Þennan mánaðardag, 14. janúar 2007, fyrir réttum tíu árum, opnaði ég þessa bloggsíðu og byrjaði loks að blogga.  

Síðan þá hafa um það bil 10 þúsund bloggfærslur birst á síðunni og athugasemdirnar, sem hafa verið snar þáttur í umræðum og efnislegum tökum í heild, eru ekki minna en 20 þúsund alls, gætu jafnvel verið fleiri en 30 þúsund. 

Ekki er hægt að sjá af tölum, hve margir lesendurnir hafa verið, - það er misjafnt hvað hver lesandi hefur litið oft inn, en flettingar nema samtals um 7,3 milljónum á þessum áratug og innlitin líklegast um 4 milljónum. 

Ég er þakklátur fyrir það að hafa átt þess kost að halda þessari síðu úti og reyna að hafa hana sem fjölbreyttasta og efnismesta, auk þess að fá fram margvísleg sjónarmið og fróðleik. 

Vil ég þakka öllum sem hafa kíkt á síðuna og tekið þátt í að viðhalda henni. 


Frumarp stjórnlagaráðs gerði ráð fyrir samábyrgð ráðherra.

Það er galli á núverandi skipan mála varðandi vald ráðherra, að það hefur verið lenska að þeir fái að valsa ansi frjálslega einir í sínum málaflokki. 

Afleiðingin er sú að of oft hafa þeir getað notað þessa aðstöðu til þess að hygla sínu kjördæmi í sínum málaflokki.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er lagt til að allir ráðherrar ríkisstjórna taki ábyrgð af stjórnarathöfnum og geti því aðeins firrt sig ábyrgð, að þeir bóki skriflega um það.  


mbl.is Páll segir Bjarna hafa gert mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of mikil breyting.

Það vill svo til að ég færði dagbækur á tímabili á bernsku- og unglingsárum. 

Meðan þessar færslur stóðu yfir voru þær ansi nákvæmar. Greint var frá því hvað étið var, helstu fréttum dagsins og veðri, og veðurspánni meira að segja gefin einkunn. 

Og síðast en ekki síst var greint frá athöfnum, svo sem útiveru og leikjum. 

Þetta var á sjötta áratugnum áður en sjónvarpið kom til sögunnar. 

Glögglega sést að það var alltaf nóg við að vera, þótt engar væru tölvurnar, snjallsímarnir né sjónvarp. 

Einnig sést að krakkahópurinn í götunni og í skólanum lék sér við svokallaða "barnaleiki" allt fram til sextán ára aldurs. 

Þegar komið var á þann aldur voru leikir eins og að verpa eggjum, parís, stórfiskaleikur og fallin spýtan að þróast upp í hörku íþróttakeppni, auk þess sem gatan var stundum knattspyrnuvöllur. 

París gat orðið býsna langur með heilmiklum langstökkum og gatan var stundum í það mjósta fyrir það að verpa eggjum, vegna þess hvað við köstuðum langt. 

Það voru ekki efni á því fyrir almúgann að kaupa rándýra íþróttatíma fyrir börnin, því að hreyfingin við útileikina nægði. 

Epli, kornfleks, cheerios voru óþekkt, nema þá eplin um jólin. Það liðu áratugir þar til orðið pizza varð þekkt, hvað þá fæðutegundin sjálf.  Hafragrautur, skyrhræringur og fiskur voru daglegt brauð. 

Fram að tíu ára aldri var enginn sími á bernskuheimilinu. Enginn ísskápur fyrr en ég varð fimmtán ára. 

Á sumrin fórum við systkinin í sveit og þar var enginn hörgull á útivist og þroskandi störfum. 

Þetta var gjöfult líf með mikilli útiveru og beinum samskiptum við nágranna, vini og vandamenn, sem nú virðist að miklu leyti sinnt með smáskilaboðum og á samfélagsmiðlum. 

Nýjasta formið af örorku, sem nú er farið að tala um, jafnvel á æskuárum, sýnir að breytingin frá því sem áður var, er orðin of mikil. 

Við erum ekki sköpuð til að einblína á tölvuskjái, snjalltæki og sjónvarp daginn út og daginn inn.  

Hryggurinn var ekki skapaður til þess að við værum niðurlút tímunum saman við að horfa niður á snjalltækin. 

Það er ekki hægt og ekki hollt, hvorki líkamlega né andlega, að breyta erfðaeinkennum, sem hafa þróast í mörg þúsund ár. 


mbl.is „Þetta er nýtt form af örorku“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugt við ríkisstjórnina.

Í dag og í gær hefur talsvert verið rætt um það að hlutföllin á milli þriggja landsbyggðarkjördæma og þriggja Reykjavíkurkjördæmi í skipan ríkisstjórnarinnar séu slæm, Reykjavíkursvæðið með alltof marga, sjö á móti fjórum.

En úrslitin í Útsvari í kvöld létta kannski lundina eitthvað hjá þeim, sem segjast hafa áhyggjur af fáum ráðherrum landsbyggðarkjördæmanna, og það halli stórlega á hana í þessu efni því að ég minnist þess ekki að lið Reykjavíkur hafi áður farið svona flatt í spurningakeppni. 

Þar hallaði á höfuðborgina. 

Undantekningarrödd var það þegar bæjarstjóri Akureyrar deildi ekki skoðunum með gagnrýnendur ráðherraskipanar stjórnarinnar.

Og raunar er skiptingin í kjördæmi orðin afar brengluð. Það má til dæmis skilgreina Akureyri sem hluta af VBS, "virku borgarsvæði" ( Functional Urban Area) af því að það tekur innan við 45 mínútur að fara á milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Sömuleiðis eru Suðurnes, Akranes, Hveragerði, og Árborg á Reykjavíkursvæðinu ef svona er á málin litið.

Mörk kjördæmanna eru löngu úrelt og hefur áður verið fjallað um það hér á síðunni.

Fráleitt er að kjósandi á Akranesi hafi meira en tvöfalt vægi atkvæðis síns en kjósandi í Vallahverfinu syðst í Hafnarfirði og kjósandi á Djúpavogi á nær enga sameiginlega sérhagsmuni með kjósanda í Vogum á Vatnsleysuströnd.

Kjósandi á Akranesi býr við allt aðrar aðstæður en kjósandi í Fljótum í Skagafirði eða kjósandi í Bolungarvík.   


mbl.is Fjarðabyggð burstaði Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband