Þegar SÍS-veldið, Tíminn og Sjónvarpið voru hrekkt.

Ég ferðaðist með Árna Jónssyni söngvara um allt land á héraðsmót Sjálfstæðismanna 1959 og 1960 og á héraðsmót Framsóknarmanna 1961. 

Árni vann um árabil hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga og sagði mér þeim hrekk, sem var gerður í Sambandshúsinu, að nokkrum skiltum á hurðum hafði verið breytt einn morguninn, þegar fólk kom til vinnu, yfirmönnum Sambandsins til lítillar ánægju.

Þegar hrekkurinn var gerður var þarna gjaldkeri, sem þótti vera heldur um of fjarverandi.

Morguninn, sem hrekkurinn var gerður, stóð "Sjaldkeri" á hurðinni hjá honum, og á hurð Íslendingasagnaútgáfunnar stóð "SÍSlendingasagnaútgáfan."

Ég skemmti árlega á þessum árum á árshátíðum dagblaðsins Tímans, og var siður á þeim að gefa út árlegt skopblað, líkt Tímanum, sem bar nafnið "Hálftíminn" og var dreift á hverri árshátíð.

Á einni árshátíð gerðist það að ritstjóri lenti í harðvítugum slagmálum við setjara einn, og lauk viðureigninni þannig að ritstjórinn beit í lærið á setjaranum.

Ritstjórn Hálftímans var vandi á höndum á næstu árshátið, því að á vinnustaðnum þótti atvik þetta hafa verið af þeirri stærð, miðað við annað fréttnæmt á árinu, að erfitt væri að komast hjá því að gera grín að því í árshátíðarblaðinu.

En málið var viðkvæmt og hætt væri við því að yfirstjórn blaðsins myndi reiðast. 

En lausnin fannst.

Í Hálftímanum höfðu verið dálkar með stuttum setningum og máltækjum og ritnefndin fann stað fyrir þetta í máltækjadálki blaðsins.

Meðal mátækjanna var þetta: "Ekkert fær staðist tímans tönn."  

Þegar þetta er sagt, fer ekki á milli mála við hvað er átt.

En með því að hafa orðið með litlum staf var varist viðbrögðum yfirmanna blaðsins. 

Þegar ég var dagskrárritstjóri Sjónvarpsins um eins árs skeið, var dagskráin sýnd á skjánum í tíu mínútur áður en hún hófst. 

Dagskrána vélritaði ég á blaðstrimil sem var sett upp á pappírsrúllu fyrir framan sjónvarpsmyndavél, og í gegnum myndavélina var textanum varpað út á ljósvakann. 

Dagskrána mátti sjá á skjám innanhúss 20 mínútum fyrir útsendingu, starfsmönnum til hagræðis, en ekki var hægt að sjá hana utanhúss í gegnum dreifikerfið fyrr en 10 mínútum fyrir útsendingu. 

Það verður að geta nokkurra atriða til að hægt sé að skilja eðli hrekksins.

Garðar Þorsteinsson var prófastur í Hafnarfirði og voru ástamál hans umrædd á þessum tíma.

Þrír yfirmenn dagskrárgerðar voru Pétur Guðfinnsson, Emil Björnsson og Jón Þórarinsson og Eiður Guðnason var varafréttastjóri. 

Og eitt af því sem Emil var mjög viðkvæmur fyrir var vísa, sem Stefán Jónsson hafði gert um hann, svohljóðandi: 

Séra Emil giftir og grefur. 

Glatt er í himnaranninum. 

Eru á ferli úlfur og refur

í einum og sama manninum. 

 

Meðal efnis kvöldið sem ég lét verða að því að framkvæma smá hrekk, átti, að því að mig minnir, þetta að standa á strimlinum: 

Stundin okkar. Barnatími Sjónvarpsins. 

Fréttir. 

Á öndverðum meiði. Stjórnandi Eiður Guðnason. 

Maður er nefndur.  Þórbergur Þórðarson.  

Garðar ástarinnar. Mynd um fræga aldingarða á Indlandi.  

Lusy Ball. (Borið fram Lúsí bol). Þáttur með hinni frægu gamanleikkonu.  

Pétur og úlfurinn. Saga og tónverk eftir Sergei Prókofiev. 

Ég gerði nú tvær dagskrárrúllur, sú innri var rétt, en sú ytri breytt, þannig að ég gat látið röngu rúlluna standa í 10 mínútur, en síðan kippt henni í burtu nokkrum sekúndum áður en dagskráin fór út á ljósvakann, þannig að hrekk-dagskráin sást aðeins innanhúss en hin rétta fór í loftið út á ljósvakann.

Gabb-dagskráin var svona:

Stundin rokkar. Skarnatími Sjónvarpsins.

Réttir. Runki fór í réttirnar. 

Á öndverðum Eiði. Varafréttasjóri rífst við sjálfan sig.

Maður er klemmdur. Rætt við fjármálaráðherra.

Garðar ástarinnar. Prestur í Hafnarfirðí í erfiðum málum.

Lús í bol. Skítugur bítill finnur lús í bol sínum.

Pétur og úlfurinn og Jón.

 

Skemmst er frá því að segja að það fór allt á hvolf í húsinu þegar hrekk-dagskráin blasti við og séra Emil kom hlaupandi niður í útsendingarstjórnarherbergið þar sem dagskrárrúllurnar voru. En í þeim svifum hafði ég tekið gabb-rúlluna í burtu og benti honum á að ekkert væri við þá dagskrá að athuga sem væri í loftinu.

Hann trúði ekki sínum eigin augum og auðvitað sefaðist hann ekkert við þetta heldur varð ennþá sárari, einkum yfir síðasta dagskrárliðnum, sem hafði blasað við honum mínútu fyrr.

Málið var tekið fyrir hjá yfirstjórninni og mér var veitt verðskulduð ofanígjöf.  


mbl.is Hrekkjalómurinn gaf sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um Hörpuna?

Það er magnað að ekki nema 14 ára gamalt hús liggi undir rakaskemmdum, þar sem þegar eru byrjaður að tikka inn hundruð milljóna í viðgerðarkostnað. Vetrarsól, jan 2014

Það leiðir hugann að Hörpunni, sem einnig er með nýstárlegan ytri flöt, þótt úr öðru efni sé en Orkuhúsið. 

Fljótlega eftir að Harpa var fullbyggð voru ritaðar greinar um að á það myndu herja illvígar tæringarskemmdir og væru raunar þegar byrjaðar að sjást. 

Harpa og Orkuhúsið eru tvær af táknmyndum græðgisbólunnar og hrunsins á fyrstu átta árum aldarinnar. 

Kostnaðurinn við byggingu Orkuhússins fór langt fram úr öllum áætlunum og var bygging þess í raun hneyksli og gaf tóninn fyrir REI-hneykslið 2007, sem var byrjunin á endemis kafla í sögu stjórnar Reykjavíkurborgar, þar sem fimm borgarstjórar voru við völd á aðeins þremur árum.  

Á næstu dögum mun ég kannski setja hér inn sitthvað, sem birst hefur á fyrstu tíu árum þessarar bloggsíðu, og læt mynd, sem facebook var svo vinsamleg að setja inn og var tekin fyrir réttum þremur árum prýða síðuna. 

Það er mikill órói og uppspenningur í myndinni, sem gæti minnt okkur á að sól er að byrja að hækka á lofti. 

Það er svolítið táknrænt fyrir upphaf virkjana- og stóriðjuæðið í byrjun aldarinnar, að lagið á Orkuhúsinu er þannig, að ef það væri hækkað jafnt og þétt upp í hið óendanlega myndu hinar úthallandi hliðar þess smám saman slúta yfir allt Ísland! 


mbl.is Sækja hugsanlega bætur vegna skemmda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staða þessara tveggja manna er blákaldur veruleiki.

Fantasíufrétt um leiðtogafund Trumps og Pútíns er að vísu ein af hinum skaðlegu lygafréttum sem virðist fara fjölgandi og gera æ meira ógagn, meðal annars með því að eiga þátt í því að lyfta að því er virðist óhæfum manni í stól valdamesta manns heims.

Er vonandi að bandaríska stjórnkerfið, sem Trump sagðist vera í krossferð gegn, standist þá þolraun, sem vel gæti beðið þess næstu fjögur ár.

Ef marka má skoðanakannanir, sem gerðar hafa verið í Rússlandi, vill meirihluti Rússa viðhalda harðri stjórn Pútíns þrátt fyrir kúgun hans, og sýnir val þessara tveggja manna til forystu öflugustu kjarnorkuvelda heims, hve gallað lýðræðið getur verið, þrátt fyrir að ekkert skárra form hafi fundist.

Gallar kjörmannakerfisins vestra ollu því að Trump skorti meira en tvær milljónir atkvæða til að fá samtals meirihluta atkvæða kjósenda.  

En stjórnmál verða að fást við raunveruleikann þótt aldrei megi missa sjónar á göfugum hugsjónum.

Staða Trumps myndi hafa verið afgreidd út af borðinu fyrir hálfu ári sem gabbfrétt, en hún er hins vegar bláköld staðreynd.

Það var reyndar svolítið skrýtið að í gabbfréttinni um Reykjavíkurfund þeirra Trumps og Pútíns var sagt, að af hálfu Trumps myndi höfuðáhersla verða lögð á fækkun kjarnorkuvopna.

Það er á skjön við yfirlýsingar hans í kosningabaráttunni um að efla herinn á alla lund, þar á meðal kjarnorkuheraflann.  

Og þá kvaðst Pútín skilja Trump vel og vera sjálfur að hugsa um svipað.

Það breytir því ekki að nauðsyn á því að Trump og Pútín komi á nýjan leiðtogafund í Reykjavík er blákaldur veruleiki og brýn nauðsyn þegar horft er fram á fjögur ár, þar sem þessir tveir kumpánar eru á valdastólum sínum, hversu slæmt og fjarstætt sem mönnum kann að þykja það. 


mbl.is „Fréttin er fantasía“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabær fundur.

Það var fyrir löngu kominn tími á það að leiðtogar Bandaríkjanna og Rússlands hittust á sérstökum fundi utan meginlanda Ameríku og Evrópu, líkt og Reagan og Gorbatsjof gerðu í Reykjavík 1986. 

Það er ekki aðeins að kjarnorkuvígbúnaður þessara tveggja ríkja séu lúmskasta og huganlega versta ógnunin við tilvist mannkynsins, heldur er brýnt að breyta andrúmsloftinu í samskiptum þessara þjóða og þar með samskiptum NATO og Evrópuþjóða við Rússland.  


mbl.is Trump vill funda með Pútín í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband