Áhættan í Geirangursfirði og á Íslandi.

Fróðleg mynd í Sjónvarpinu í gærkvöldi um óhjákvæmilega flóðbylgju (tsunami) í Geirangursfirði í Noregi leiddi hugann að svipuðum fyrirbærum hér á landi varðandi afleiðingar af eldgosum, bæði á þurrlendi og undir jöklum. 

Af tæknilegum ástæðum fór bloggpistill með ljósmyndum og umfjöllun um þetta efni inn á undan næsta bloggpistli hér fyrir neðan, þannig að renna þarf niður eftir síðunni til þess að kíkja á þetta mál. 


Alvara málsins að renna upp.

Stærð Sjálfstæðisflokksins, þótt miklu minni sé en áður var, nýtist honum  vel í því tafli um stjórnarmyndun, sem nú er teflt. Stærsti stjórnmálaflokkurinn hefur alltaf visst forskot hverju sinni. 

Nú er að renna upp fyrir forystufólki Vinstri grænna og Framsóknar að eftir tvær misheppnaðar tilraunir, annars vegar undir forystu Vg og hins vegar Pírata, til að mynda vinstri-miðjustjórn, stefni hraðbyri í hægri stjórn Sjalla, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. 

Eina trompið sem Vg og Framsókn eiga er, að stjórn þeirra með Sjöllum hefði stærri meirihluta en stjórn Sjalla, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. 

En þá þarf líka að treysta á að hugsanlegir "villkettir" svonefndir í Vg eyði ekki því meirihlutaforskoti.  

Spurningin er aðeins hvort Vg og Framsókn séu að missa af strætisvagninum þegar alvara málsins er að renna of seint upp fyrir þeim. 


mbl.is Framsókn og VG vilja viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geirangursfjörður - Ísland: Ekki spurning um hvort, heldur hvenær.

Eldfjall er að rumska rétt hjá stórborginni Napoli á Ítalíu og spurningar vakna.

Þegar ég var ungur var sagt að Helgafell í Vestmannaeyjum væri "útbrunnið" eldfjall. 

Annað kom á daginn 23. janúar 1973 þegar gaus neðarlega í austurhlíð fjallsins í gossprungu, sem upphaflega var 1500 metra löng. 

Þá kom í ljós það sem hafði raunar blasað við allan tímann: Heimaey er stærsta eyjan, af því að þar hefur goshættan verið mest. 

Fyrir 1994 var því trúað víða um land að ekki væri það mikil hætta á stórum snjóflóðum þar sem ekki höfðu fallið slík flóð í manna minnum eða sagt frá þeim í annálum.

Snjóflóðið á Seljalandsdal 1994, sem fór alveg yfir í Tungudal og olli manntjóni, hringdi ekki bjöllum um þetta efni, enda var lagt að norskum snjóflóðasérfræðingi, sem fenginn var til að fræða um það flóð og álpaðist til að segja að mun meiri hætta væri á alvarlegum flóðum annars staðar á Vestfjörðum, að vera ekkert að skipta sér af neinu nema því sem honum hefði verið borgað fyrir, það er, hættumat og aðgerðir fyrir Seljalandsdal.

Það var ekki fyrr en eftir snjóflóðin á Súðavík og Flateyri, sem menn áttuðu sig á því, að ástæða þess að ekki hafði verið greint í annálum frá snjóflóðum á þessum stöðum og fleirum, var sú, að þá hafði ekki verið byggð þar og snjóflóð því ekki fréttnæmt eða barst einfaldlega ekki til eyrna annálaritara þess tíma.

Á sama tíma og snjóflóðið féll á Flateyri, féll enn stærra flóð innst í Dýrafirði, eitt af allra stærstu snjóflóðum, sem vitað er um að hafi fallið hér á landi. 

En vegna þess að þar urðu engar skemmdir á mannvirkjum féll það alveg í skuggann fyrir öðrum snjóflóðum og nánast enginn mundi eftir því aðeins ári síðar. 

En hvað Súðavík snerti kom í ljós við athugun eftir flóðið þar, að í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var greint frá því í umsögn um jörðina í Súðavík, að þar væri sauðfé hætt við að lenda í flóðum og teldist það galli á jörðinni.   

Einna hættulegustu eldfjöllin hér á landi eru að öllum líkindum Hekla, Snæfellsjökull og Öræfajökull. 

Hekla nefnd fremst, af því að hún hefur gosið langoftast af þessum fjöllum og getur hvenær sem er gosið með klukkustundar fyrirvara. 

Í öllum þessum eldfjöllum geta orðið stórhættuleg sprengigos, sem senda frá sér flóð af eitraðri og sjóðandi eimyrju sem drepur allt kvikt sem á vegi þess verður. 

Frægust slíkra gosa eru gosið í Vesuvíusi 79. f.Kr. og á eyjunni Martinique í Vestur-Indíum 1902, en í síðarnefndu gosinu komst einn maður af í bænum St. Pierre, en hátt í 40 þúsund dóu. 

Vegna byggðar nálægt Snæfellsjökli og Öræfajökli og stórfjölgun ferðamanna við þau og Heklu, er hættan á manntjóni sívaxandi. Bárðarbunga 3. 8. 14. nr2Bárðarbunga, Dyngjujökull, Kverkfjöll

Bárðarbunga og hennar kerfi geta sent frá sér stórflóð á að minnsta kosti þremur vatnasviðum, sem ná bæði til suðurstrandarinnar og norðurstrandarinnar. 

800px-Geiranger2

Fjallið Akerneset við Geirangursfjörð er tifandi tímasprengja af þessu tagi erlendis, eins og vel kom fram í mynd í Sjónvarpinu í kvöld. 

Geirangursfjörður er eitt af allra fegurstu ferðamannastöðum Norðurlanda, var efstur á lista hjá Lonely Planet og á Heimsminjaskrá UNESCO 2005, og 140 til 180 skemmtiferðaskip koma þangað á hverju sumri, 300 þúsund ferðamenn.

Eftir að hafa komið þangað snertir hin mikla og yfirvofandi hætta af "tsunami" flóðbylgju af völdum hruni í fjallinu yst við fjörðin mann kannski meira en ella. 

Og bæði þar og hér er það hinn mikli ferðamannafjöldi, sem gerir hættuna svona mikla. 

Orðaskiptin í myndinni varðandi tregðu á því að lýsa of snemma yfir hættuástandi voru sláandi: 

"Eigum við að bera ábyrgð á því að kalla úlfur! úlfur! og trufla með því umferð ferðamannanna á háannatímanum" og skapa stórkostlegt tekjutap ef hrunið og flóðbylgjan láta standa á sér í kjölfar aðvörunarinnar?"  

Og svarið var líka eftirminnilegt: "Hvort vegur þyngra, sala á minjagripum eða mannslífin?"


mbl.is Skjálftar í Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband