"Meiri háttar þorrablót." Þáttur Halldórs Gröndals og Björns M. Olsens.

Fyrri hluti þessa pistils um þorrablótin getur falist í innihaldi lagsins "Meiri háttar þorrablót" sem hægt er að finna á Youtube og sjá má og heyra í flutningi mínum og félaga úr Frumherjum rokksins.

Síðan kemur áframhaldið: 

Þorrablót voru haldin hér og þar og af og til allt frá heiðni.

Í Kaupmannahöfn stóðu stúdentar undir forystu Björns M. Olsens fyrir nokkrum þorrablótum undir lok 19. aldar, og saman gerðu hann og Hannes Hafstein texta við lagstúf eftir Mozart sem gengið hefur undir heitinu "Þegar hnígur húm að þorra. 

Þorrablótin í Höfn voru gagnrýnd fyrir að vera aftan úr rammri forneskju í anda heiðni og lognuðust útaf. 

En á árunum milli 1955 og 1960 urðu straumhvörf.

Í því efni skipti það miklu máli, að með tilkomu veitingastaðarins Naustsins við Vesturgötu og þorrablótanna, sem Halldór Gröndal stóð þar fyrir á skipulagðan hátt . 

Gott orðspor þessara þorrablóta spurðist hratt út og á örfáum árum ruddu þorrablótin sér til rúms um allt land í svipuðu formi og þau hafa verið síðan og urðu síðan að þætti í starfsemi Íslendingafélaga erlendis. 

Halldór Gröndal varð síðar sóknarprestur og það sýnir kannski aukið frjálslyndi og umburðarlyndi að maður, sem varð prestur, skyldi verða helsti frumkvöðull í að innleiða fyrirbæri, sem gagnrýnt var rúmri hálfri öld fyrir of mikið heiðið yfirbragð.

Raunar eru þorrablótin ekki einu hátíðarhöldin, sem voru upphaflega heiðin, en urðu síðar hluti af kristnu þjóðlífi, því að jólin voru upphaflega heiðin hátíð á Norðurlöndum í tilefni af hækkandi sól, en breyttust síðan í kristna hátíð.

Nafnið jól á Norðurlöndum sýnir tengslin við heiðni, en í ensku er hátíðin kennd við Krist í heitinu Christmas. 

 


mbl.is Þorrablót í sveitum létta lund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt atriði, jafnvel milljarða virði.

Það er ekki langt síðan að fáum hefði dottið í hug að Íslendingar vektu athygli erlendis fyrir afburða matargerð. En sú er raunin, jafnvel þar sem samkeppnin er hörðust á álþjóðlegum keppnismótum í matargerð. 

Það er heldur ekki langt síðan að fáum hefði flogið í hug að þetta hefði hið minnsta gildi. 

Og engan veginn neitt fjárhagslegt gildi fyrir íslenskt þjóðarbú á þeim tímum sem matargerð hefði verið flokkuð með fjallagrasatínslu og lopapeysugerð sem dæmi um hið fánýta "eitthvað annað en stóriðja", sem væri einskis virði. 

Ferðaþjonusta féll á þessum árum undir vonleysistalið um "eitthvað annað", en nú hefur annað komið á daginn, hinir stórkostlegu möguleikar þessarar mestu gjaldeyrisuppsprettu þjóðarinnar og burðarási í öflugra efnahagslífi. 

Þótt einstæð náttúra Íslands sé og fái vonandi að verða áfram helsta aðdráttaraflið fyrir erlenda ferðamenn er það líka gulls ígildi að önnur atriði séu í lagi, hvað þá ef þau verða alþekkt. 

Það er aðlaðandi fyrir ferðafólk að njótaa góðrar tónlistar og annarrar menningar og afþreyingar, góðra hótela og annarrar nauðsynlegrar aðstöðu og ekki hvað sist góðs matar. 

Hvert þessara atriða getur verið milljarða virði og ef svo fer að íslensk matargerð verði rómuð verður það dýrmætur plús. 


mbl.is Ísland í þriðja sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of stutt síðan Framsókn var í stjórn með Sjöllum?

Stjórnarandstaðan í tíð síðustu ríkisstjórnar náði býsna góðri málefnasamstöðu og batt vonir við það á fundi á Lækjarbrekku rétt fyrir kosningar að fá sjálf meirihluta í kosningunum. 

En tilkoma Viðreisnar og firnasterk oddaaðstaða þess flokks í stjórnarmyndunarviðræðum batt enda á þessar vonir. 

Björt framtíð límdi sig strax við Viðreisn, vitandi það að sá flokkur myndi á endanum ráða hvert stjórn með þátttöku hans myndi halla sér.

Því væru mestir möguleikar á stjórnarþátttöku með bandalagi við Viðreisn.

Með myndun Engeyjarstjórnarinnar var Björt framtíð komin Sjallamegin í pólitíkina og farin úr Lækjarbrekkuhópnum.

Benedikt Jóhannesson sagði strax eftir kosningar að hann myndi ekki fara í stjórn, þar sem Viðreisn yrði þriðja hjólið undir vagni fyrrverandi stjórnar Sjalla og Framsóknar.

Nú virðist svipað fyrirbæri vera ofarlega í huga hjá þingflokkum Vg, Pírata og Samfylkingar, að gefa Framsókn ekki færi á að verða fjórða hjólið undir núverandi stjórn.

Framsókn er einn af fjórum flokkum í núverandi stjórnarandstöðu og vegna þess að hún er tvöfalt stærri en Samfylking á þingi, telur hún sig eiga frekar rétt á nefndarformannssæti en Samfylking, af því að einhver af þessum fjórum flokkum getur hvort eð er ekki fengið slíkt sæti.

Það virðist uppi svipað og var í desember 1979 þegar þingflokkur Alþýðuflokksins lét sér renna úr greipum að hafa samstarf við Sjálfstæðismenn um kosningu í þingnefndir.

Jón Baldvin Hannibalsson kallaði það rúmum áratug síðar "pólitískt umferðarslys", sem orðið hefði vegna þess að einblínt hafi verið á núið í stað þess að horfa til framtíðar. 

Nú virðíst einblínt á núið og að Framsóknarmenn séu svo nýkomnir úr heitu faðmlagi við Sjalla, að ástæðulaust sé að hygla þeim með því að fá þeim formennsku í þingnefnd, þar sem þeir geti hjálpað hinni veiku nýju stjórn ef svo ber undir. 

Nú verður fróðlegt að vita hvort svona mat sé rétt þegar til lengri tíma er litið.

Það veit enginn núna, ekki frekar en að vitað sé einhver kalli þetta pólitískt umferðarslys seinna meir.   


mbl.is Gaf frá sér formennsku í þremur nefndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forysturíki á sviði mannréttinda?

Að "gera Bandaríkin mikifengleg að nýju" virðist í augum Bandaríkjaforseta þýða neikvætt afturhvarf og afturhald  á mörgum sviðum, meðal annars hvað snertir mannréttindi. 

Ef Bandaríkjamenn ætla að kalla sig forystuþjóð í baráttunni gegn mannréttindabrotum, eins og Ameríkanar urðu með þátttöku sinni í Seinni heimsstyrjöldinni, verður afturhvarf til pyntinga og mannréttindabrota dapurlegt bakslag. 

Það er einstakt þegar forystumaður þjóðar, sem vill kalla sig brjóstvörn frelsis og mannréttinda í heiminum gefur undirmönnum sínum frítt spil til að misþyrma og pynta að vild sinni og hafa það að afsökun að andstæðingarnir séu verri. 

Hitler gaf hermönnum sínum leyfi til þess að skjóta að vild sinni sovéska kommisara í herförinni inn í Sovétríkin með þeirri afsökun að Sovétríkin væru ekki aðilar að Genfarsáttmálanum um meðferð stríðsfanga.

Á þessu og því sem Trump leyfir er að vísu stigsmunur en ekki eðlismunur.

Hægt er að gera pyntingar svo kvalafullar að sá, sem pyntaður er, vilji frekar verða skotinn.  


mbl.is Telur að vatnspyntingar beri árangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband