2007 í fullu veldi, að tífalda allt á ofsahraða!

Nú eru menn búnir að gleyma því hvert gullæðið fyrir 2008 leiddi okkur. Á 2006 til 2007 héldu menn því ekki aðeins fram að íslenska "efnahagsundrið" fælist í snilli ofurmenna, sem hefðu fundið upp alveg ný lögmál fjármála og hagfræði, heldur hvöttu sumir, svo sem Hannes Hólmsteinn í "að bæta í" af enn meiri ákafa en áður.

Þegar farið er yfir það sem til stendur núna í laxeldinu hér á landi, meðal annars að tífalda framleiðsluna á metttíma í gull- og græðgisæði sem gefur bankabólunni og því sem fólst í samheitinu 2007 ekkert eftir, blasir nakin gróðafíknin við í öllu sínu veldi. 

Árið 2006 munaði hársbreidd að hið uppblásna og hátimbraða "snilldar"-bankakerfi hryndi, en viðbrögð við því að sleppa naumlega með allar aðvörunarbjöllurnar hringjandi voru aðeins þau "að bæta í" og tryggja með því að Hrunið, sem á eftir fór, yrði sem allra hrikalegast. 

Í ofanálag við stórhættu á óförum vegna mengunar og annars, sem fer úrskeiðis í laxeldinu í Noregi ætla menn að endurtaka það, sem gerst hefur þar í landi, að örfá stórfyrirtæki og auðmenn verði fljót að sölsa laxeldið hér á landi undir sig og verða svipaðir greifar og kvótagreifarnir í fiskveiðunum.   

Tífalda! Tífalda! Tífalda! Hver ósköpin liggur svona á? Og alveg eins og í stóriðjuæðinu að réttlæta hvað sem er með því að það sé eina færa leiðin til að "bjarga landsbyggðinni"?


mbl.is „Við erum að feta í fótspor feigðarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannlíki Trumps.

Sannleikur er ágætt orð sem hefur hreina merkingu. En nú er kominn fram annar sannleikur, sannleikur, sem hann er svo mikið hans eigin, að hann vílar ekki fyrir sér að segja að sólin hafi skinið á sig við embættistökuna þótt öll heimsbyggðin hafi séð að það rigndi allan tímann, þótt það væri ekki mikið. 

Trump segist hafa dregið að sér fleiri til að vera viðstadda athöfnina en nokkur annar forseti hafi gert, þótt myndir, sem teknar hafa verið af viðstöddum hjá Obama sýni annað. 

Í tengslum við þetta hefur verið notað orðið "alternate truth", sem þýða mætti að hluta með íslensku nýyrði, sannlíki, samanber smjörlíki og smjör. 

Trump segist hafa fengið meirihluta atkvæða í kosningunum þótt Hillary hafi fengið 2,9 milljónum fleiri atkvæði. Þau atkvæði hafi verið frá fólki sem ekki hefði átt að hafa atkvæðisrétt.

Trump segist ætla að láta Mexíkóa borga fyrir múrinn mikla með 20 prósenta tolli, sem verði settur á mexíkóskar vörur í Bandaríkjunum.  

En þessar vörur hafa selst í Bandaríkjunum, vegna þess að bandarískir neytendur hafa sparað sér peninga með því að kaupa þær og nú hafa hagfræðíngar reiknað það út að bandarískir neytendur muni borga fyrir múrinn þegar öll kurl koma til grafar.

Trump hefur alla ævi talið sig hafa sigrað í öllu sem hann hefur tekið sér fyrir hendur, hafa unnið málaferli sem hann tapaði og verið sigurvegari í gegnum gjaldþrot sín.

Hann segist hafa verið besti hafnarboltamaðurinn í New York þegar hann var ungur, þótt engin gögn hafi fundist um það.  

Trump talaði alla innsetningaræðu sína um það sem hann hefur talað um alla sína hunds- og kattartíð, um sig sjálfan, það sem hann ætlaði að gera og það sem hann hugsaði og gerði. 

Trump nálgast nú að vera að eigin dómi jafn upphafinn og goðum líkur og annar þjóðarleiðtogi á síðustu öld sem sagðist vera ofurmenni í hópi ofurmenna og réttvalinn af forsjóninni sem alráður leiðtogi í valdamesta embætti heims. 

Á síðustu dögum sínum sagði hann að þjóð sín og allir aðrir hefðu brugðist, en hann sjálfur hefði aldrei brugðist né haft rangt fyrir sér. 


mbl.is Myndi bitna á bandarískum neytendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjötíu ára bið.

Um þessar mundir eru um sjötíu ár síðan amma mín, Ólöf Runólfsdóttir frá Hólmi í Landbroti, og afi minn, Þorfinnur Guðbrandsson frá Hörgslandi á Síðu, sögðu mér frá Kötlugosinu 1918. 

Ég lá hjá þeim veikur í nokkrar vikuTunglið, TF-ROS, Suzuki Foxr í mars 1947, og þegar Hekla gaus og ég hafði ekkert við að vera nema að fá að hlusta liggjandi á útvarpið, útskýrðu þau gosið fyrir mér og lýstu hinum miklu áhrifum sem gosið í Kötlu hafði á Skaftfellinga. 

1918 var hún 22ja ára og hann 28 ára. 

Ég man óljóst eftir frásögnum þeirra en þó það, að þær voru svo magnaðar, að ég ímyndaði mér hvernig það yrði að vera á ferð í grennd við Kötlu eða þar, sem vel sést til hennar, þegar hún gysi næst, væntanlega á síðari hluta 20. aldarinnar. 

Eftir því sem áratugirnir hafa liðið hefur þetta orðið að einskonar bið og þegar ég sé til hennar á flugi í björtu veðri að vetrarlagi tala ég við hana og líka við Heklu, sem einnig er komin á tíma og segi það sama við þær báðar, hvora um sig.

"Svona nú, það er kominn tími á þig og úr því að þú munt hvort eð er gjósa, væri ekki verra ef þú lykir því af núna á þeim árstíma sem þetta veldur minnstum usla." 

Þetta átti líka við þegar ég dvaldi oft á Hvolsvelli á árunum 2010 til 2014, en gosmökkur frá hvorri þeirra sem væri, myndi strax sjást þaðan, á þessari mynd bera við tunglið. 

En ekkert gerist og það er einfaldlega lögmál og djúp speki, að því eldri sem maður verður, því meiri líkur eru á því að maður drepist og það sé þar með kominn tími á mann sjálfan. 


mbl.is „Löngu kominn tími á hana“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband