Einangrunarstefna hefur ekki reynst farsæl.

Forsetar Bandaríkjanna hafa forðast að taka upp einangrunarstefnuna, sem var aflögð árið 1941 með "láns- og leigulögunum", hervernd Íslands og Atlantshafsfundi Roosevelts og Churchills. 

Síðan hefur alþjóðasamvinna verið meginstefið í 75 ár í valdatíð alls 23ja Bandaríkjaforseta, 12 demókrata og 11 repúblikana. 

Einangrunarstefna Bandaríkjamanna gagnvart Evrópu gaf Þjóðverjum færi á því 1914 að gera tilraun, sem var nærri því að heppnast, til að ná Evrópu undir sig í Fyrri heimsstyrjöldinni og hún endurnýjuð einangrunarstefna gaf Hitler svipað færi 1939.

Á miðjum sjöunda áratugnum söng Tom Lehrer svonefnt "MLF-Lullaby" þar sem hann setti sig í spor þeirra ráðamanna vestra sem reyndu að róa þá sem voru áhyggjufullir vegna þess að Þjóðverjar fengju taka þátt í ákvörðunum um notkun "Multilateral force", sameiginlegs kjarnorkuherafla. 

"One of the fingers on the button will be German", söng Lehrer en bætti við: 

"Once all the Germans were warlike and mean  /

but that will not happen again.  /

We tought them a lesson in 1918  /

and they´ve hardly bothered us since then! /

 

Einangrunarstefnan byggðist á því að "hollur væri heimafenginn baggi" og að stuðningur við alþjóðasamtök og önnur ríki væru íþyngjandi útgjöld fyrir Bandaríkin.

Marshall-aðstoðin í kjölfar Seinni Heimsstyrjaldarinnar til stríðshrjáðra landa í Evrópu byggðist á hugsun sem var mun dýpri framsýnni en hin hráa einangrunarstefna, það er, að það yrði mikil upplyfting fyrir Bandaríkin þegar Evrópuríkin myndu miklu fyrr úr kútnum en annars hefði orðið þegar fjárfestingin í endurreisninni færi að skila hagnaði og framförum. 

Fyrir bragðið urðu Ameríkuþjóðirnar og Evrópuþjóðirnar samstíga í einhverri hröðustu uppsveiflu og endurreisn allra tíma á sjötta og sjöunda áratugnum og raunar Japanir einnig.

Það var samstarf á sviði Sameinuðu þjóðanna sem gerði kleyft að grípa til aðgerða alþjóðlegs herliðs til að aftra því Norður-Kóreumenn næðu allri Suður-Kóreu á sitt vald sumarið 1950 með innrás í landið, og það var víðtækt samstarf Bandaríkjamanna undir forystu George Bush eldri 1991 sem stuðlaði að farsælli lausn þegar Saddam Hussein lagði Kuveit undir sig með hervaldi.

Það er kaldhæðnisleg mótsögn fólgin í því þegar Donald Trump virðist taka veldi Bandríkjanna á fyrrnefndum áratugum sem fyrirmynd að því sem hann kallar "að gera Bandaríkin stórkostleg á ný."

Veldi Bandaríkjanna á þessum áratugum byggðist nefnilega á andstæðu einangrunarstefnunnar, á því að þau hefðu forystu og tækju öflugan þátt í starfi alþjóðastofnana á borð við Sameinuðu þjóðirnar og legðu mikið af mörkum í alþjóðasamvinnu.

Auðvitað var þetta alþjóðlega lögregluhlutverk eins og það var stundum nefnt í gagnrýnistóni, oft á tíðum fólgið í skaðlegri íhlutun í innanríkismál annarra ríkja eða stuðningi við einvalda og harðstjóra, en jákvæðu hliðarnar voru fleiri.

Einangrunarstefnan í Bandaríkjunum reyndist tvívegis illa á síðustu öld og það mun ekki reynast betur í þriðja sinn ef einhverjum verður gefið færi á að stíga inn í það tómarúm sem stikkfrí afstaða Kana mun skapa.

Í hin fyrri tvö skipti nýttu herská öfl í Þýskalandi sér það að geta stigið inn í tómarúmið og valsað þar um.   


mbl.is Tómarúmið skaðlegt bandarískum hagsmunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þétting verður að vera til hagsbóta fyrir alla.

Hugsunin á bak við þéttingu byggðar er sú að hún stuðli að aukinni hagkvæmni í samgöngum og þar með í rekstri þjóðarbúsins. 

En þá verður líka allt að haldast í hendur, líka aðkoma að nýjum blokkum og stæði fyrir bíla, sem vonandi þróast yfir í að verða umhverfisvænni og taka minna pláss en nú er. 

Þess vegna þarf til dæmis að vanda til þéttingar byggðar við Efstaleiti á svæði sem var áður í eign Ríkisútvarpsins. 

Áður en nýjar stofnanir fluttu inn í Útvarpshúsið í sambýli við RÚV var oft þröng á þingi á bílastæðum fyrir utan húsið. 

Nú gerist tvennt: Fjölgun starfsfólks í húsinu og bygging íbúðablokka á lóð Útvarpshússins. Nú þegar er orðið ófremdarástand á bílastæðunum áður en blokkirnar hafa risið. 

Að vísu eru enn ósnert græn svæði á lóðinni, og að sjálfsögðu sjónarsviptir að þeim ef þau verða að víkja með öllu, því að það hljóta að vera takmörk fyrir því hve miklu eigi almennt að fórna af grónum opnum svæðum í borgarlandinu undir malbik. 

Það leiðir síðan hugann að þeim möguleikum sem eru til að skipuleggja flota samgöngutækjanna betur en hefur ekki enn verið gert. 


mbl.is Vilja ekki blokkir í stað leikskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græðgi og skammsýni eiga sér lítil takmörk.

Olíu- og kolaiðnaður og önnur nýting jarðefnaeldsneytis er langöflugasti iðnaður jarðarbúa og hefur yfir langmestum fjármunum að ráða. 

Stórfyrirtækin leika sér að því að ráða orkustefnu þjóða heims og kaupa sér stuðning stjórnmálamanna og jafnvel einstakra vísindamanna til þess að halda uppi svo miklum deilum um hnattræna hlýnun að þekking almennings er afvegaleidd. 

Þegar ég var yngri hélt ég að bætt vísindi og upplýsingar í gegnum þau myndu breyta hegðun jarðarbúa til hins betra. 

Þetta hefur reynst rangt því að eðli og siðgæði mannsins tekur engum framförum.

Engar framfarir verða á því sviði, því að eftir því sem auður og umsvif verða meiri, því meiri verða hagsmunirnir og græðgin, og auðæfi og skammsýni ráða alveg jafn miklu og verið hefur frá ómunatíð.

Síðustu tólf þúsund ár hefur hitastig á jörðinni verið í einstaklega góðu jafnvægi.

En nú hefur á fáum áratugum verið af mannavöldum dælt svo miklu af svonefndum gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið, að meira en 800 þúsund ár eru síðan eins mikið magn af koltvísýringi hefur verið í lofthjúpi jarðar.

Hlýnunin af þessum völdum og súrnun sjávar eru staðreynd, en það er ekki það versta, því að þegar jöklar verða grárri og hafið verður blátt í stað þess að verða ísi þakið þannig að minna af geislun sólar varpast frá sjó og landi út í lofthjúpinn og gróðurhúsalofttegundir streyma upp úr víðfeðmum freðmýrum Síberíu myndast keðjuverkun sem gæti hraðað hlýnuninni enn meira en spáð er. 

En á allt þetta ulla Donald Trump og olíutengdir hjálparmenn hans og svo langt er gengið, að talað er um að 40 þúsund fífl hafi verið á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París og að Obama og Frans páfi séu hreinir asnar, enda fari loftslag kólnandi!

Ég hef undanfarin 20 ár fylgst með Brúarjökli árlega af jörðu niðri og séð hann lækka með eigin augum. Einnig verið í návígi við aðra jökla, svo sem Breiðamerkurjökul, Skriðjökla Öræfajökuls, Sólheimajökul, Gígjökul, Múlajökul o. s. frv. og séð hraða minnkun þeirra allra. 

Það hefur einnig samsvarað mælingum vísindamanna. En þetta segja kuldatrúarmenn og svarnir andstæðingar nokkurra aðgerða gegn umhverfisvánni að séu hreinir hugarórar og bull. 

Þjóðarleiðtogar, Páfinn og vísindasamfélagið allt saman fífl og bullikollar. 


mbl.is Hnattræn hlýnun tók sér enga pásu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband