"Hjólaárið" 2015 það grænasta til þessa, minnst 200 þús kr. árssparnaður.

Með bestu áramótakveðjum er siglt inn í nýtt ár þar sem eiga við orð skáldsins, að eilífðin er búin til úr óteljandi augnablikum. Og hvert augnablik er það eina sem við höfum í hendi hverju sinni.Náttfari við Engimýri

Þegar leið að áramótum í byrjun ársins 2015 pældi ég í grænum áramótaheitum til að fylgja eftir grænum ferli rafreiðhjólsins Náttfara og verkefnum í sambandi við það, auk nýrra áskorana.

En fyrir einu ári leit svo sem ekkert svo vel út með það að standa við græn áramótaheit sem spöruðu peninga og flyttu skilaboð. 

Ég hlaut slæma byltu og kom illa niður eftir fall ofan af leiksviði á litlu jólunum á Sólheimum í desember og hægri öxlin lemstraðist og brotnaði. Léttir við Freysnes

Ég var með höndina í fatla um áramótin og fyrir "rétthendan" mann er afleitt þegar hægri höndin er gagnslaus. Ráðlegg rétthendum að brjóta sig frekar vinstra megin ef þeir á annað borð lenda í beinbrotsslysi. 

Þetta riðlaði öllum fyrirætlunum mínum og aðal verkefnið frestaðist endanlega um ár eftir að bíl var ekið á mig í apríl á rafreiðhjólinu svo að sexfalt meiri lemstrun hlaust af en við axlarbrotið og ökklabrot bættist við auk blóðugra meiðsla innvortis og útvortis á báðum ökklum, báðum hnjám, hægri olnboga og hægri öxl, já aftur á hægri öxlinni!Léttir%2c ská aftan frá

Enda þótt ég væri ekki tilbúinn í slaginn vegna meiðslanna varðandi áframhald grænu byltingarinnar fyrr en seinni partinn í ágúst tókst að nýta seinni part ársins til þess að geirnegla "hjólabyltinguna" sem ég hef áður lýst hér á síðunni, að færa 80% af ferðum mínum af bílum yfir á tvö hjól, rafreiðhjól og vespuvélhjóliið Létti (Honda PCX 125) og minnka með því persónulegt kolefnisspor mitt um að minnsta kosti 60%.

Þetta er mesta lífsstílsbreytingin hjá mér í 56 ár. 

Meiðslin í apríl sannfærðu mig um að lokaður hlífðarhjálmur er ómissandi öryggistæki á öllum hjólum, líka reiðhjólum, auk þægindanna varðandi það að verða aldrei kalt neins staðar á höfðinu.

Það er alveg eins hægt að lenda í því að bíll aki á mann á reiðhjóli eins og á vélhjóli og góður hjálmur og vélhjólastígvél eru mikilvæg, já raunar lágmark. 

Fatnaður með varnir á hnjám og olnbogum verða um sinn á óskalista. 

Ég hefði ekki ökklabrotnað í umferðarslysinu ef ég hefði verið í vélhjólaklossum og mátti þakka fyrir að hinn létti reiðhjólahjálmur brotnaði ekki við það að ég braut framrúðuna á bílnum með höfðinu.  

Eftir samræmda notkun hjólanna tveggja frá júlílokum til dagsins í dag hefur eldsneytiskostnaðurinn minnkað um 70 þúsund krónur þessa rúmu fimm mánuði frá því sem annars hefði verið, og framundan er stórminnkaður annar kostnaður varðandi viðhald og afskriftir.

Á þessu ári ætti að vera mögulegt að spara minnst 200 þúsund krónur í heild miðað við hlaupandi kostnað, en mun meira ef allt er reiknað með.

Bæði hjólin eru nú á vetrardekkjum og það er aðeins í stormi, yfir 20 m/sek, eða þegar ég þarf að flytja einhvern varning, sem ég nota bíl konu minnar, sem var reyndar ódýrasti, einfaldasti og sparneytnasti bíllinn á markaðnum þegar hún keypti hann fyrir tveimur árum.  


mbl.is Græn áramótaheit sem spara peninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árleg viðbót sem samsvarar öllu árinu 2011.

Fjölgun ferðamanna 2016 frá árinu áður er svipuð tala og tala allra ferðamanna sem komu árið 2011 þegar fjölgun ferðamanna var komin á skrið ári eftir Eyjafjallajökulsgosið. 

Þetta þýðir að á síðasta ári hefði þurft að stækka allt það sem tilheyrir ferðamennskunni sem svarar öllu því sem til var 2011, hótelherbergjum, rútum, bílaleigubílum o. s. frv. 

Sem betur fer er þetta samt ekki alveg svona svakalegt, því að dreifingin á milli árstíða varð betri en áður, þannig að fjölgunin kom mest á þá hluta ársins þegar færri komu til landsins en á sumrin. 

Í febrúar 2005 fór ég í ferðalag til Lapplands í Norður-Svíþjóð og Norður-Finnlandi til að sjá hvernig stæði á því að jafn margir ferðamenn komu þá til þessara köldu og dimmu slóða á veturna og allt árið á Íslandi.

Greindi frá því í sjónvarpsfrétt að þarna norður frá væru eftirtalin fjögur atriði seld: Kuldi, myrkur, þögn og ósnortin náttúra. 

Sem sagt nokkurn veginn það sem talið væri verst og lítilfjörlegast hjá okkur og mest til trafala. 

Viðbrögðin við fréttinni voru mest fólgin í vantrú og afsökunum eins og því að það væri svo langt til Íslands frá markhópunum í Evrópu.

Þetta var ekki á rökum reist eins og sést þegar litið er snöggt á landakort:  Það er lengra til Lapplands en til Íslands, einkum er styttra frá Bretlandseyjum, Frakklandi og Íberíuskaganum til Íslands auk þess sem Ísland getur verið áfangastaður á leiðinni vestur um haf, en Lappland augsjáanlega ekki áfangastaður í neina átt.

 

Eitt helsta viðfangsefni okkar er augsjáanlega að gera mikið átak í styrkingu innviða og skipulagningu ferðaþjónustunnar.

Sumir telja þegar komið fram yfir þann fjölda sem landið ráði við.

Þetta stenst ekki þegar skoðuð eru sambærileg svæði erlendis.

Yellowstone þjóðgarðurinn fær þrjár milljónir ferðamanna árlega, og nær allir þessir ferðamenn koma bara yfir sumarið.

Þjóðgarðurinn er 9000 ferkílómetrar eða ellefu sinnum minni en Ísland.

Vel er fyrir öllu séð í Yellowstone, ferðafólkið kaupir passa við innganginn með áletruninni "Proud partner", stoltur þátttakandi í að vernda náttúruna og styrkja innviði garðsins.

1600 kílómetrar af göngustígum eru í þjóðgarðinum og ítölu er beitt til þess að tryggja upplifun ferðafólks.

140 ára reynsla liggur að baki þessu, en hér á landi kölluðu menn þetta "auðmýkingu" og "niðurlægingu."   


mbl.is Ekkert lát á fjölgun ferðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður "biðlundin" ekki samt endalaus?

Samkvæmt fréttum af kísilmálmverinu United Silicon í Helguvík hefur úblástur frá verksmiðjunni aldrei farið yfir svokölluð viðmiðunarmörk. 

Svipað er sagt um stóriðjuverin á Grundartanga þrátt fyrir ýmis einkenni í búsmala bænda á svæðinu og þrátt fyrir að ljótir reykjarmekkir hafi stundum stigið frá járnblendiverksmiðjunni þar um margra ára skeið.

Stóriðjustefnan hefur ekki verið aflögð hér á landi ef marka má fyrirætlanir um fleiri verksmiðjur á þessum tveimur stöðum.

Væntanleg sólarkísilverksmiðja á Grundartanga verður með alveg nýja framleiðsluaðferð, sem er svo góð að sögn eigendanna, að ekki þarf að viðhafa mat á umhverfisáhrifum.

Fyrst þessi augljósa tilraunastarfsemi þar er svona örugglega mengunarlaus er undarlegt að menn séu í vandræðum með þekktar aðferðir í kísilmálmverinu í Helguvík.

 

Það þykir fréttnæmt að "einhugur virðist ríkja í bæjarstjórn Reykjanesbæjar um að hafa eftirlit með kísilmálmverinu United Silicon í Helguvík."

Maður hefði haldið að ekkert væri sjálfsagðara en að hafa eftirlit, jafnvel þótt "mengun væri innan viðmiðunarmarka" eins og það er orðað. 

Það var líka sagt á sínum tíma að einhugur væri um sem allra mesta stóriðju í Helguvík þar sem risaálver myndi "bjarga Suðurnesjum", því að önnur "atvinnuuppbygging" en stóriðja væri óhugsandi.

 

Þess vegna virka orð eins og "að biðlund verði ekki endalaus" máttlítil og kannski mest til heimabrúks til að halda óánægjuröddum í skefjum.

Því að meðan "mengun er innan viðmiðunarmarka" er ekki hægt að sjá að hægt sé að snúa við á þeirri braut sem mörkuð var 2006-2007 og hefur verið fetuð síðan í átt til ítrustu stóriðju, og vandséð er, hvernig bæjaryfirvöld muni láta leggja niður atvinnustarfsemi stórs fyrirtækis, sem átti að vera hluti af því að "bjarga" byggðinni og "atvinnuuppbyggingu" á svæðinu.   

 


mbl.is „Höf­um ekki enda­lausa biðlund“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svelt Landhelgisgæsla og fjórfalt dýrari flutningur.

Þrátt fyrir brýna nauðsyn á að móta heildarstefnu varðandi sjúkraflug er í raun verið að móta stefnu með því sem gert er um þessar mundir í þeim málum, og sú stefna er fullkomlega galin. 

Verið er að svelta Landhelgisgæsluna svo mjög að hún fjarlægist það að geta vaktað landhelgina og sinnt öryggishlutverki sínu.

Viðhald á þyrlum er margfalt dýrara og tímafrekara en á flugvélum af sambærilegri stærð og þess vegna þurfti Kaninn á sínum tíma fimm björgunarþyrlur á Keflavíkurflugvelli, tveimur fleiri en Gæslan hefur núna.

Þrjár þyrlur nægja ekki og bjóða upp á rússneska rúllettu með líf og limi þeirra, sem þær eiga að þjóna.

Þyrlur hafa þann kost að geta flogið beint á milli staða þar sem hægt er að lenda þeim. 

En ókostirnir eru líka margir. Þær eru ekki með jafnþrýstiklefa, flugvélarnar komast upp fyrir veðrin og fljúga næstum tvöfalt hraðar. 

Það er minnst fjórum sinnum dýrara að nota þyrlu en sömu stærð af sjúkraflugvél þannig að fjársvelti Gæslunnar vinnur gegn þyrlunotkun og mun hugsanlega kalla á að fækka þyrlum hennar ofan í tvær.  

Á sama tíma er lokað fyrir einu flugbrautina við Faxaflóa sem snýr upp í hvassar suðvestanáttir vetrarveðranna og ekki tekið í mál að leyfa notkun hennar á meðan ekkert hefur enn breyst flugtæknilega gagnvart því að hægt sé að nota hana.

Það sem ráðamennn eru að gera þýðir að heildarstefna er í raun komin í gildi, - galin heildarstefna afturfarar og vandræða. 


mbl.is Brýnt að móta framtíðarstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins ein jörð.

AÐEINS EIN JÖRÐ. (Með sínu lagi) 

 

Aðeins ein jörð. /

Það er ekki´um fleiri að ræða. /

Takmörkuð er á alla lund  /

uppspretta lífsins gæða. /

 

Aðeins ein jörð. / 

A henni plágur mæða: /

Rányrkja grimm, sem örbirgð hlýst af  /

með eyðingu´og stríðið skæða, /

flóðin, sem byggðir færa í kaf  /

er fárviðri´um löndin æða.

 

Aðeins ein jörð.

Um hana stormar næða.

Auðlindir þverra ef að þeim er sótt

aðeins til skamms tíma´að græða. 

 

Aðeins ein jörð. 

Afglapasporin hræða.

Lögmálið grimma lemur og slær

og lætur ei að sér hæða:

Ef deyðir þú jörðina deyðir hún þig

og deyjandi mun þér blæða.

 

Aðeins ein jörð

samt alla mun fæða og klæða

ef um hana standa viljum vörð,

vernda´hana´og líf hennar glæða, -

elska þessa einu jörð, -

það er ekki´um fleiri að ræða.

 

Aðeins ein jörð! 

 

(Lesið og birt á Youtube) 

Ensk þýðing: Only One Earth einnig birt á Youtube) 


mbl.is Fegurstu myndirnar af móður jörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband