"Hvort eð er" röksemdin og bilanir öfugu megin við tengingu.

"Hvort eð er" röksemdin hefur verið fyrirferðarmikil hjá virkjanamönnum í gegnum tíðina. 

Nú er hún orðuð þannig að það sé "hvort eð er" komið svo langt í undirbúningi fyrir Hvalárvirkjun að ekki verði aftur snúið. 

Náttúruverndarsamtök eru ásakaðar fyrir að hafa ekki fyrr sýnt andstöðu við virkjunina. 

Ef þau hefðu gert það hefðu þau verið ásökuð um að vaða fram áður en Skipulagsstofnun væri búin að skoða málið. 

Sífellt er klifað á því að það að virkjanakostur fari í svonefndan nýtingarflokk hjá rammaáætlun (þetta er leiðandi heiti því að í verndun felst yfirleitt líka nýting) þýði sjálfkrafa að virkjað verði. 

Það er alrangt, því að ef það væri svo, þyrfti ekkert álit Skipulagsstofnunar né mat á umhverfisáhrifum. 

Á korti sem sýnt er yfir bilanir á Vesturlínu sést, að nær allar bilanirnar verða fyrir vestan Kollafjörð þar sem línan á að koma frá Hvalárvirkjun inn á Vesturlínu. 

Hvalárvirkjunarlínan mun sáralitlu breyta um bilanatíðnina, sem framkvæmdastjóri Vesturverks segir að hafi verið ástæða þess að hann og Vesturverk fóru af stað með þetta verkefni. 

Fyrir liggur að það verkefni að styrkja Vesturlínu eða leggja línu um Ísafjarðardjúp til Ísafjarðar yrði svo dýrt að það yrði augljóslega ekki gert. 

Merkilegt er að úr því að framkvæmdastjóranum fannst nauðsynlegt að virkja til að minnka rafmagnstruflanir vestra skyldi hann ekki fara í að virkja í botni Hestfjarðar eða Skötufjarðar, sem er margfalt nær Ísafirði en virkjun hinum megin á Vestfjarðakjálkanum. 

Röksemdin varðandi sparnað á útblæstri varaaflstöðva dettur dauð niður en í staðinn kæmi aukalega útblástur allra hinna stórvirku vinnuvéla sem notaðar yrðu við virkjunina.  


mbl.is „Nú förum við og virkjum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin þrönga sýn virðist yfirgnæfandi.

Í gær voru tvö atriði samliggjandi á dagskrá Arctic Circle sem sneru að áhrifum loftslagsbreytinga á heimsvísu. 

Annars vegar ávarp, kynning og umræður varðandi yfirlýsingu Alkirkjuráðsins sem lesin var á Lögbergi og undirrituð í Þingvallakirkju í gærmorgun, þar sem prestar og leiðtogar þeirra 500 milljóna kristinna manna, sem eru innan vébanda ráðsins eru hvatir til þess að láta til sín taka í umræðum og aðgerðum varðandi vaxandi umhverfisvanda heimsins, en hins vegar umfjöllun og umræður um niðurstöður svonefnds hóps sem kom saman í Marrakesh fyrir frumkvæði Ólafs Ragnars Grímssonar til að komast að markvissri og einfaldrar niðurstöðu varðandi það að beisla afl almennings og þar með ráðamanna til baráttu gegn loftslags- og umhverfisvandanum.

Þegar rennt er yfir umfjöllun íslenska fjölmiðla um Arctic Circle virðist hins vegar hin þrönga sýn á beina efnahagslega hagsmuni þjóðanna á norðurslóðum yfirgnæfandi.

Fyrirsögnin á tengdri frétt á mbl.is, "tryggja þarf sjálfbæra þróun" lofa góðu, en innihald fréttarinnar veldur vonbrigðjum.

Vitnað er í orð utanríkisráðherra Íslanda um "sjálfbæra þróun efnahags-og viðskiptalífs, í sátt við umhverfið efnahags- og viðskiptalífs á svæðinu, að vísu í sátt við umhverfið á svæðinu."

Að vísu heitir ráðstefnan Arctic Circle en viðfangsefni Marrakeshópsins, sem Ólafur Ragnar kynnti, sýnir að málið er miklu stærra og snertir allt mannkynið. 

Má sem dæmi nefna að fulltrúi Fiji eyja lýst því á áhrifaríkan hátt í pallborði Alkirkjuráðsins á Arctic Circle hver áhrif bráðnandi jöklar á Íslandi og norðurslóðum hafa á búsetuskilyrði og hag hundraða milljóna manna sunnar á hnettinum. 

Á Fiji-eyjum hvílir tilvera  fátæks 800 þúsund manna þjóðfélags að mestu á nýtingu á ströndum eyjanna, en nú þegar er hækkandi sjávarborð farið að valda vandræðum.

Hér á landi sjá fulltrúar hinna fjarlægu þjóða þá bráðnandi og minnkandi jökla sem eru að verða örlagavaldar fyrir varnarlaust fólk hinum megin á hnettinum.

En þröng sýn á eðli viðfangsefna Arctic Circle, virðist yfirgnæfandi hjá fjölmiðlunum, helst umfjöllun um hin "fjölbreyttu tækifæri" sen bráðnun íssins og hlýnandi loftslag muni færa þjóðum á norðurslóðum, en siður umfjöllun um neikvæðar hliðar eins og súrnun sjáar, hvað þá alvarlegar afleiðingar annars staðar á hnettinum. 

Vonandi er þó enn tími til að bæta úr því. 


mbl.is Tryggja þarf sjálfbæra þróun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gott þegar beinn hagsmunaaðili eins og landeigandi ræður úrslitum.

Reglur um vanhæfi varðandi mikla einkahagsmuni hafa verið að siast inn hér á landi, en því miður of hægt. 

Vanhæfi felst meðal annars í því að dómari telst vanhæfur að dæma í umdeilanlegu máli sonar sínst og víkur sæti. 

Engi skiptir þótt hann segist ætla að dæma son sinn svo hart að allir sjái að hann hafi tekið óhlutdræga afstöðu. 

Ef hann gerir það hefur það bitnað á syni hans hver faðir hans var. 

Í vanhæfisreglunum felst að ekki skiptir máli hvort málið er umdeilanlegt eða ekki, tengsl úrskurðaraðila og aðila máls vega þyngra. 

Í hreppsnefnd Árneshrepps, sem miklu ræður um gang margra mála í hreppnum, ætti landeigandi, sem græðir persónulega á því að selja jörð sína til umdeilanlegra framkvæmda að sjálfsögðu að víkja sæti þegar hreppsnefnd tekur afdrifaríkar ákvarðanir um mál. 


mbl.is Snerist hugur um Hvalárvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalárvirkjun skapar ekkert starf til frambúðar, gagnstætt friðun.

Vatnajökulsþjóðgarður hefur skapað 70 störf og þar af eru 70 prósent starfanna konur á barneignaaldri, en sá fjöldi ræður úrslitum um lífsmöguleika byggða. 

Drangajökulsþjóðgarður myndi að vísu ekki skapa eins mörg störf, en samt yrði himinn og haf á milli þess, sem við það myndi skapast, og Hvalárvirkjunar sem skapar EKKERT starf. 

Það gleymist alltaf þegar gefið er upp hve margir muni fá vinnu við virkjanaframkvæmdirnar, að þau störf eru til stutts tíma, kannski í mesta lagi tveggja til þriggja ára, og eftir að virkjun er fullgerð missa ALLIR atvinnuna. 

Hinu megin við flóann átti Blönduvirkjun að "bjarga" Norðvesturlandi á níunda áratugnum. 

Niðurstaðan varð sú, að þegar virkjanaframkvæmdum var lokið, misstu allir atvinnuna, sem framkvæmdunum fylgdu og í hönd fór mesta mannfjöldahrun í fjórðungnum síðan í Móðuharðindunum. 

Á málþingi í Árnesi í sumar ætlaði yfirmaður gerðar mats á umhverfisáhrifum að komast upp með það að fullyrða við fundarmenn, að það yrði hægt að hafa virkjunina inni í þjóðgarði, af því að slíkt væri alsiða erlendis. 

Sem betur fór var hægt að reka þetta ofan í hann, því að þeir, sem halda þessu fram hafa ekki getað nefnt nein dæmi um slíkt utan tvö í Bandaríkjunum, þar sem virkjun var samliggjandi þjóðgarði og slíkt var gert fyrir meira en öld þegar allt önnur viðhorf ríktu. 

Vesturverk lofar stórkostlegum vegabótum í formi vegarslóða þvert yfir Ófeigsfjarðarheiði vestur í Djúp.

Einn fundarmanna orðaði viðbrögð sín við þessu svona: Við höfum fengið alveg nóg af vegum sem eru ófærir vegna snjóa mestallt árið, enda myndi þessi vegarslóði liggja í meira en 500 metrra hæð yfir sjávarmáli. 

 

P.S. Magma Energy á yfirgnæfandi hlut í HS orku, sem á meirihluta í Vesturverki, en raunverulegur eigandi Magma Energy kanadíski auðkýfingurinn Ross Beaty. 


mbl.is Aðþrengd sveit tekst á við virkjunaráform
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband