Ástandið 2009 ósambærilegt við það sem nú er.

Vinstri stjórnin 2009 tók við mörg hundruð milljarða króna hruni ríkissjóðs Íslands og enn stærra bankahruni og hruni fyrirtækja. 

Það er því fráleitt að bera saman neyðaraðgerðirnar þá, sem óhjákvæmilega hlutu að felast í hækkun skattprósentu, við ástandið nú eða undanfarin ár, en það var reynt í sjónvarpsumræðum í kvöld. 

Þessi brunarústaríkisstjórn 2009 skerti að vísu kjör aldraðra og öryrkja og hefði átt að láta það ógert. 

Í öllu fimbulfambinu í umræðunum í kvöld um tuga og hundruð milljarða fjárhæða loforð stjórnmálaflokkanna var aðeins einu sinni minnst á það atriði sem hefur búið til öll þessi verðmæti, þrefalda fjölgun erlendra ferðamanna á örfáum árum. 

Ekki hafði þetta verið nefnt í þetta eina sinn í kvöld fyrr en Sigmundur Davíð reyndi að gera lítið úr því með einhverri mestu talnakúnstaleikfimi sem heyrst hefur. 

Umræðurnar voru annars ágætis sjónvarpsefni, fjörugar og stundum allt að því dramatískar eins og þegar tilfinningarnar báru Ingu Sæland ofurliði. 

Bjarni Benediktsson naut þess kannski frekar en hitt að langflestum spurningum þátttakendanna var beint til hans og hann gat nýtt sér yfirveguð svör aukinn tíma á skjánum.  

Björt framtíð er nú í slæmri stöðu og góð ráð dýr. Björt Ólafsdóttir, sem hefur staðið sig vel sem umhverfisráðherra, reyndi að höfða til náttúruverndar- og umhverfisverndarfólks með því að leggja höfuðáherslu á græna framtíð, stöðvun virkjanaæðis og þjóðgarð á miðhálendinu, en ákvæðið um 5% þröskuld atkvæða á landsvísu er ósanngjarnt. 

Það er ekki sanngirni í því að 4,9% atkvæða gefi engan þingmann á sama tíma og 1,5% atkvæða eru að jafnaði á bak við hvern þingmann þeirra flokka, sem komast yfir þennan þröskuld. 

Miðað við síðustu skoðanakannanir er Björt framtíð alveg á mörkum þess að fá einn þingmann og Flokkur fólksins á mörkum þess að fá þrjá. 


mbl.is „Geturðu aðeins haldið þér rólegum?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best að hnýta alla hugsanlega hnúta strax.

Það er alltaf vandaverk að ganga frá vistaskiptum í atvinnu. Þau felast í starfslokum hjá einum vinnuveitanda og upphafi starfs hjá öðrum og margs konar álitaefni geta oft komið upp, oft óvænt. 

Ef farið hefur verið yfir öll hugsanleg atriði fyrirfram í trúnaði milli aðilanna þriggja er minni hætta á að álitamál og ágreiningsmál komi upp. 

Reynsla mín af tvennum vistaskiptum um ævina bendir til þess að miklu skipti að allir þrír aðilarnir, tveir vinnuveitendur og launþeginn, hnýti alla hugsanlega lausa hnúta strax og fari í fyllsta trúnaði yfir öll nauðsynleg atriði og mál, sem komið gætu upp. 

Þegar ég fór af RÚV yfir á Stöð 2 1988, var það gert í ítarlegu samráði allra aðila. 

Ákvörðunin og undirritun ráðningarsamnings við Stöð 2 voru í júníbyrjun, en samið um að vistaskiptin yrðu 1.september. 

Það þýddi að ég ynni á fullu hjá Sjónvarpinu í þrjá mánuði þótt allir vissu, að ég færi þaðan eftir þann tíma. 

Samið var um að ég kláraði fjóra tilgreinda sjónvarpsþætti, sem byrjað hafði verið að undirbúa og taka á Sjónvarpinu, eftir að ég hæfi störf hjá Stöð 2. 

Í viðræðum við forráðamenn Stöðvar 2 líkti ég þessum sjónvarpsþáttum við eins konar börn frá fyrra hjónabandi. 

Mér létti og var afar þakkláttur fyrir að þessi vistaskipti gengu snurðulaust fyrir sig og þættirnir voru kláraðir og sýndir á RÚV í fyllingu tímans, einn þeirra að vísu eftir að mér var boðið að flytja mig til baka sex og hálfu ári síðar.

1994 snerist dæmið nefnilega við, og var gengið hljóðlega í trúnaði frá því með munnlegu samkomulagi við báða vinnuveitendur í ágúst 1994 að ég færi af Stöð 2 yfir á RÚV fúmum fjórum mánuðum síðar, 1.janúar 1995. 

Samið var um að ég fengi að ganga frá tilgreindum frágangsmálum á Stöð 2 eftir að ég væri byrjaður á RÚV, og gekk það allt eftir án vandkvæða. 

Mest allan tímann, frá ágúst fram í desember voru þeir aðeins taldir á fingrum annarrar sem vissu af fyrirhuguðum vistaskiptum og á þeim tíma vann ég af kappi á stöðinni og lauk meðal annars við þátt um Goðafosslysið hálfri öld fyrr, sem var mikilvægur vegna þess að viðmælendur mínir voru orðnir aldraðir. 

Auðvitað er aldrei hægt að sjá allt fyrir sem komið getur upp á, og það þurfti heppni að fylgja í því að ekkert færi úrskeiðis í þessum vistaskiptum.

Ég hef ég alla tíð verið þakklátur fyrir það að þetta gekk allt vel.  


mbl.is Segir fordæmin í máli Loga mörg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningin er áfram um skráningu árgerðar.

Rafrænar forskráningar eru vafalaust sjálfsagðar og í þeim fólgin framför og hagræði.

En fjöldi bíla er í umferð hér á landi sem eru skráðir af árgerð, sem ekki var til og þeirri spurnningu er ósvarað hvort þar verði breyting á.

Dæmi: Bíll er skráður af árgerð 2014 en árið áður hafði verið hætt framleiðslu þessara bíla. 

Ástæðan er sú að ef bílarnir seljast ekki strax þegar þeir koma til landsins, verða þeir ekki skráðir fyrr en þeir seljast síðar meir. 

Ef bílarnir eru geymdir utan húss lengi, ætti kaupandinn og aðri hugsanlegir kaupendur á eftir honum að eiga rétt á að vita hið sanna. Í hitteðfyrra var fjallað lauslega um þetta hér á mbl.is en ég hef ekki séð að neitt hafi breyst síðan þá. 

Þvert á móti er mér kunnugt um að ökutæki, sem var orðið þriggja ára gamalt, var selt og skráð sem splunkunýtt. 

Ef forskráningin sem nú hefur verið tekin í gagnið, verður til þess að árgerð hvers ökutækis miðist við framleiðsluár þess, er það hið besta mál. 


mbl.is Bifreiðaumboð fá leyfi til forskráninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er að standa við stóru orðin.

Afar fróðleg umfjöllun sjónvarpsþáttarins 60 mínútur nú nýlega fjallaði um það sem Donald Trump hefur nú gert að tilefni áætlunar til þess að ráðast gegn misnotkun sterkra verkjalyfa eða "læknadóps", sem drepur 17 þúsund Bandaríkjamenn á hverju ári. 

Í 60 mínútum kom fram að þrýstihópar lyfjaframleiðenda sem dæla sterkum verkjalyfjum í stórum stíl eftir útsmognum leiðum út á markaðinn í gegnum spillingarkerfi af versta tagi hefði fengið þingmenn í lið msð sér til þess að breyta lagaumhverfi, reglum og starfsemi lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (DEA) þannig, að þetta eftirlit hefur verið lamað og gert ónýtt. 

Eitt helsta kosningaloforð Trumps var að ráðast gegn heimsfrægri spillingu í röðum banddarískra þingmanna, en í 60 mínútum var talið líklegt að hinir ósvifnu fíkniefnadreifarar myndu finna leiðir til þess að múta honum eins og fleirum. 

Nú er að sjá hvort Trump takist að standa við stóru orðin. 


mbl.is „Þjóðarskömm“ drepur 140 daglega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband