Eitt af allra hættulegustu eldfjöllum á Íslandi?

Færðar hafa verið líkur að því að tvö eldfjöll, sem sjaldan ber á góma þegar talað er um líkindi á jarðeldum, geti í raun verið hættulegustu eldfjöll landsins. 

Þetta eru Öræfajökull og Snæfellsjökull. 

Að vísu er langt síðan gaus í Snæfellsjökli

Mesta eldvirknin á landinu er örhægt að færast frá vestri til austurs, svo að líkurnar á gosi í fjallinu eru litlar og fara minnkandi ef eitthvað er.

Eftir stendur sú staðreynd, að vegna þéttbýlis á Sandi, Ólafsvík og við Arnarstapa og Hellnar auk margfalds ferðamannastraums, yrði stórt sprengigos á borð við gosið í Vesúvíusi 79 f.kr, Krakatá 1883, Saint-Pierre á Martinique 1902 og í Öræfajökli 1362 stórhættulegt og gæti orðið mannskætt.  

Eftir stendur Öræfajökull, sem gaus ógurlegu gosi 1362, sem eyddi stórri og blómlegri byggð sem bar nafnið Litla-Hérað.  

Fyrir þann tíma hafði þetta verið eitt blómlegasta hérað landsins og ætt Svínfellinga verið sú eina á austanverðu landinu, sem hægt var að bera saman við öflugust höfðingjaættir á Suður- Vestur- og Norðurlandi. 

Aðeins var hægt að endurbyggja bæi á litlum blettum meðfram fjallinu og það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem margfölduð ferðaþjónusta hefur rennt stoðum undir mikla mannfjölgun og umsvif meðfram þessu hæsta fjalli landsins. 

Rétt eins og líklegt er talið að jafnvel hundruð manna hafi farist í gosinu mikla 1362 gæti jafnöflugt sprengigos nú orðið mannskætt. Hekla

Það gaus aftur í fjallinu 1747 en það gos var minna og olli minna tjóni. Eftir rúma öld verður aftur liðinn álíka langur tími frá því gosi og leið á milli gosanna 1362 og 1747.

Ekki má gleyma Heklu í þessu sambandi. Eftir 1947 hefur hún að vísu komist í meinleysislegri fasa en áður, en enginn veit með vissu hvað sú gamla er að bralla. 

Þeim möguleika hefur verið velt upp að það ástandi gæti skapast, að fjallið hreinlega rifnaði í sundur í ógurlegu sprengigosi með hrikalegum afleiðingum, því að umferð fólks er mikil nálægt því á ferðamannatímanum.  

 

 


mbl.is Jarðskjálfti í Öræfajökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsagnirnar í kjördæmamörkunum.

Rökin fyrir því að skipta löndum í kjördæmi hafa verið sú, að mismunandi landshættir geri það að verkum að bæði menning og hagsmunir séu misjöfn á milli landshluta og héraða og einnig sé gott að sem nánast samband og tengsl séu á milli þingmanna og kjósenda. 

Þegar kjördæmin voru stækkuð þannig að þau urðu sex í stað átta var báðum þessum atriðum riðlað og það á mismunandi hátt. 

Vesturland og Norðurland vestra voru sameinuð í Norðvestukjördæmi, Norðurland eystra og Austfirðir sameinuð í Norðausturkjördæmi, og Suðurland og Reykjanes sameinuð í Suðurkjördæmi. 

Öll þrjú kjördæmin eru of stór, ekki aðeins vegna þess hvað erfitt er fyrir þingmenn að sinna tengslum við kjósendur, heldur ekki síður vegna misjafnra hagsmuna innan kjördæmanna. 

Þannig eiga kjósendur á Akranesi, í Bolungarvík og í Fljótum í Skagafirði fátt sameiginlegt. 

Kjósendur á Siglufirði og á Djúpavogi eiga fátt sameiginlegt. 

Og kjósendur í Vogunum eiga fátt sameiginlegt með Hornfirðingum.

En síðan kom svo brandarinn, að skipta Reykjavík, sem er eitt sveitarfélag, í tvö kjördæmi. 

Rökin voru þau að Reykjavík væri svo fjölmennt kjördæmi, að það yrði að búta það niður í tvennt til þess að minnka áhrif íbúanna, sem þó hafa alla tíð búið við stórlega skert vægi atkvæða. 

Þar að auki hefur fjölmennið orðið til þess að svonefnt kjördæmapot hefur verið minna hjá Reykjavíkurþingmönnum en víðast annars staðar. 

Grafarvogshverfi í Reykjavík er álíka fjölmennt og Akureyri og næstum tíu sinnum fjölmennara en Siglufjörður eða Húsavík, en aldrei heyrist talað um þarfir Grafarvogsbúa eða þingmenn, sem sinni þeirra kjörum og einstöku málum persónulega. 

Miðað við þá forsendu kjördæmaskipunar að skipta ætti landinu í kjördæmi vegna þess að hagsmunir væru misjafnir á einstökum svæðum, hefði mátt halda að eðlilegast væri að skipta Reykjavík í tvennt við Eilliðaárnar, þannig að úthverfin yrðu sérstakt kjördæmi. 

En það var öðru nær. Vegna hættu á "kjðrdæmapoti" innan Reykjavíkur var ákveðið að skipta Reykjavík þannig, að sem minnstur munur væri á hagsmunum, og þess vegna sitja menn uppi með hina hlægilegu skiptingu eftir endilangri borginni, sem líka þarf að breyta fyrir hverjar kosningar. 


mbl.is Kjördæmamörkin ákveðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynlegur réttur landnemanna til sjálfsvarnar?

"Það er ekki tímabært að ræða um vopnaeign núna" eru viðbrögð Hvíta hússins við fjöldamorðunum í Las Vegas. 

Enda liggur fyrir stefna sem enginn mun geta breytt úr því að forsetinn er eindreginn stuðningsmaður samtaka byssueigenda og byssuframleiðenda sem halda því fram að öryggi borgaranna verði best tryggt með sem allra flestum og stærstu byssum í höndum sem allra flestra svo að borgararnir hafi sem best og mest vopn í höndum til sjálfsvarnar. 

Og þá liggur í augum uppi, að því hrikalegri og stórvirkari sem byssurnar eru, því öflugri verði þessi möguleiki til sjálfsvarnar og þar með möguleiki til eignar á eins afkastamiklum og mörgum byssum og unnt er að komast yfir. 

Rökin eru líka þau, að Bandaríkin séu landnemaland í grunninn (frontier) og þess vegna sé gríðarleg byssueign og byssudýrkun eðlilegt og nauðsynlegt fyrirbæri. 

Ekkert land á Vesturlöndum státar af annarri eins byssueign og jafn feikna öflugum samtökum byssueigenda og byssuframleiðenda og Bandaríkin. 

Íhaldssinnaður eins dómara meirihluti í Hæstarétti landsins hefur gefið fjárframlög til stjórnmálamanna frjáls þannig að þingmenn og ráðamenn verða æ háðari peninga- og valdaöflum sem styðja þá. 

Því fleiri sem kaupa vopn og þvi fleiri sem hafa hag af framleiðslu og sölu þeirra, því sterkari verða þessi öfl til að hafa fjárhagsleg áhrif á stjórnmálamenn. 

Þegar framangreint er allt lagt saman, blasir hins vegar við ákveðinn vítahringur og þá er erfitt að halda því fram miklu hærri tíðni morða með skotvopnum í Bandaríkjunum en hjá öðrum "landnemaþjóðum" sé óhað hinni gríðarlegu vopnaeign. 

Bæði hjá Ástralíumönnum og Kanadamönnum, sem búa við svipaðar aðstæður og menningu og Bandaríkjamenn og eru landnemaþjóðir eins og Bandaríkjamenn, er tíðni byssudrápa miklu minni en í Bandaríkjunum og byssueign líka miklu minni. 

"Hvort eð er" rökin, sem notuð eru til þess að andæfa byssudýrkuninni, eru dapurleg: Það munu hvort eð er koma fram menn á borð við Stephen Paddock þannig að við því er ekkert að gera. 

Trump hótaði meira að segja því í kosningabaráttunni, að byssumeigendur myndu beita sér ef Hillary Clinton yrði kosin. 

Hann nefndi það að vísu ekki beint á hvern hátt þeir myndu beita sér, en byssueigendur eru jú alltaf byssueigendur, sem munu telja sig þurfa að bregðast við í sjálfsvörn ef eitthvað á að hagga við þeim.  


mbl.is Fundu gríðarlegt magn skotvopna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband