Hverjir komu okkur í þá stöðu að stóriðjan hafi forgang? "Let it be done!"

Skammtímagræðgi og skortur á framtíðarsýn er og verður vaxandi vandamál í heiminum. 

Um það er fjallað í laginu "Let it be done!" sem er nú komið á Youtube. 

Þar er heitið "Let it be done! 2 10 17, ný og endurbætt útgáfa af þessu lagi sem notar stuðið í hjólreiðumm og hjá hugsjónafólki í umhverfismálum og náttúruverndarmálum í bland við einstæða íslenska náttúru til þess að tjá heitustu óskir þessa fólks. 

Slóðin er: 

https://youtu.be UP7ZZx_cMPs

80 prósent af raforkuframleiðslu landsins fer til stóriðju. Hún hefur forgang. Ekki er hægt að reisa neinar háspennulínur nema hrikalegar risalínur vegna þess að íslensk heimili og fyrirtæki eru útundan. 

Öll orka Þeistareykjavirkjunar, nýjustu virkjunarinnar, sem er margfalt nær Akureyri en nokkur önnur ný virkjun, fer í stóriðju. 

Hverjir eru þeir sem hafa keyrt þessa stefnu áfram og vilja bæta í? 

Hvers vegna ekki að horfa lengra fram á við og segja:  Let it be done! 


mbl.is „Endalausar kærur og ósamstaða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bæði haldið og sleppt. Þungaflutningar - léttvæg framlög.

Það verður ekki bæði haldið og sleppt að vegakerfið þurfi að standast álag vaxandi þungaflutninga og margfaldaðs ferðamannastraums á meðan léttvæg framlög til vegamála fá að líðast. 

Hver stór þungaflutningabíll veldur meira álagi á vegina en hundruð smærri bíla, og þess vegna er hagræðið af notkun þessa flutningamáta stórlega ofmetið nema að séð sé fyrir því að mæta hinum vaxandi skemmdum sem verða á vegakerfinu, þegar það er hvergi nærri nógu öflugt til að standast álagið. 

Ef ekkert verður að gert mun vegunum einfaldlega hraka á sama tíma og þess er sárlega þörf.

Sem lítið dæmi um vanreikning má nefna, að sú niðurstaða mín að með að nota að mestu rafreiðhjóls- og létt Hondu vespuhjól í stað bíla í ferðum mínum innanbæjar og utan spari ég 70 prósent af fyrra notuðu eldsneyti og minnki kolefnissporið sem því nemur. 

En inn í þennan reikning er ekki tekið með tífalt minna álag þessara farartækja á vegakerfið en meðal einkabíll veldur.  


mbl.is Vegakerfið fær falleinkunn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í raun er hrópað á meiri stóriðju. Olía í viðbót við kolin.

Það dreifikerfi raforku á Íslandi, sem ekki þjónar stóriðju, hefur verið látið sitja á hakanum, og í raun hefur stefnan verið þessi: Ef þið standið á móti því að reistar verði risalínur, sem þjóna stóriðju, fáið þið engar nýjar og minni línur fyrir íslensk heimili og fyrirtæki og því síður endurbætur á neinum línum, sem ekki þjóna stóriðjunni. 

Allri orkunni frá Þeistareikjum er veitt til nýrrar stóriðju, en frá nýjum virkjunum er langstyst þaðan til Akureyrar. 

Á Norðurlandi vestra stillti þáverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins sér upp í miðjum hópi þeirra sem ætla sér að reisa og krefjast nýs álvers fyrir sunnan Skagaströnd. 

Nú boðar hann í nýjum flokki anda norðlensku skáldanna Jónasar og Davíðs á sama tíma og staðið hefur yfir hörð sókn fyrir því að reisa risalínu fyrir stóriðjuna niður Öxnadal framhjá fæðingarstað Jónasar. 

Kaupfélagsstjórinn á Sauðárkróki, æðsti prestur "skagfirska efnahagssvæðisins" hefur ásamt félögum sínum sóst eftir að kaupa allar jarðir sem geta gefið af sér gróða vegna virkjanaframkvæmda. 

Stefnan í þessum málum tekur á sig kynlegar myndir. Þannig er stefnt að því að flytja inn til landsins hundruð þúsunda tonna af kolum á ári vegna komandi stóriðju á Bakka og í Helguvík, og þeir sem ætla að reisa kísilverksmiðju á Grundartanga segjast stefna á að gera það þótt það tefjist eitthvað um sinn. 

Það er því ekki lengur á skjön að flytja inn olíu svo að stóriðjan geti svelgt í sig alla mögulega orku hér á landi úr því að kolainnflutningur vegna hennar liggur þegar fyrir.

 


mbl.is Hóta að reisa dísilrafstöðvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er íslenskara en Heiða?

Ég hef lengi haft miklar mætur á Heiðu Guðný Ásgeirsdóttur á Ljótarstöðum. Hún minnir mig á baráttukonuna og ömmusystur mína, Björg Runólfsdóttur, sem ég var í sveit hjá í fimm sumur og var líka bóndi og náttúruverndarsinni og barðist ein með tvö börn sín á jörð sinni bestu ár ævi sinnar fyrir því að eignast jörðina aftur, sem fyrrum maður hennar hafði selt ríkinu þegar kreppan stóð sem hæst. Heiða á Ljótarstöðum

Heiða er Skaftfellingur að ætt eins og Björg Runólfsdóttir var. 

Við Heiða erum skyld í sjötta lið. 

Björg var heit Framsóknarkona af gamla skólanum en gerðist afhuga flokknum á efri árum. 

Sumir telja sig sjá ákveðna samsvörun með hluta af Vinstri grænum og þessum eðal Framsóknarmönum á fyrstu áratugum þess flokks áður en hann gerðist heilmingaskiptaflokkur með Sjálfstæðisflokknum og barðist hatrammlega fyrir hræðilega ranglátri kosningalöggjöf. 

Hvorugur Framsóknarflokkurinn nú sýnist líklegur til þess að gefa eftir í stóriðju- og virkjanasókn sinni, - annars hefði Sigmundur Davíð ekki stillt sér upp í miðjum hópi þeirra sem ætla sér að reisa álver á milli Blönduóss og Skagastrandar.  

Þórólfur Gíslason og hans menn hafa þegar keypt upp helstu bújarðir þar sem hægt verður að græða á virkjanaframkvæmdum. 

Nú er Heiða komin í BBC og varla er hægt að hugsa sér íslenskara en hana til kynningar á landi okkar. 


mbl.is Fjallað um Heiðu fjallabónda á BBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband