"Eitrað peð" áfram.

Sterkar og afgerandi persónur, sem gustar að, hafa löngum getað dregið að sér fylgi í stjórnmálum og gert jafnvel ótrúlega hluti á mettíma, svo sem að stofna stjórnmálaflokka sem sópar að.

Nefna má dæmi eins og Albert Guðmundsson og Borgaraflokk hans, Vilmund Gylfason og Bandalag jafnaðarmanna og Jóhönnu Sigurðardóttur og Þjóðvaka. 

Það kom mörgum á óvart þegar liðsfólk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar stofnaði Miðflokkinn á mettíma fyrir síðustu kosningar og kræktu í 10 prósenta fylgi. 

En rétt eins og að Framsóknarflokkurinn með Sigmund Davíð innaborðs kom aldrei til umræðu í stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningarnar í fyrra, hefur Miðflokkurinn verið í svipaðri stöðu nú. 

Ástæðan er einföld og að ýmsu leyti grátleg, staðföst ítrekun SDG á því að á Tortóla sé virt og viðurkennd fjármálastarfsemi og að það hafi verið fullkomlega eðlilegt að hann leyndi því, eftir að hafa byrjað á að tala um Tortólu sem skattaskjól í heimsfrægu viðtali, að hann hefði í raun verið beggja vegna borðsins í viðskiptum og samningum íslenska ríkisins, sem hann var í forsæti fyrir, við "hrægamma", "vogunarsjóði" og skylda aðila. 

Af þessum sökum er hver sá flokkur, sem hann er í, eins konar "eitrað peð" í stjórnarmyndunarviðræðum. 

Hér að ofan var notað orðið "grátlegt" um þetta. Því að það er bagalegt þegar jafn öflugur stjórnmálamaður og Sigmundur ´Davíð vissulega er, lætur jafn einfalda en afdrifaríka afneitun sína loka dyrum fyrir sér.  


mbl.is Píratar útiloka Miðflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur varð forsætisráðherra 1983.

Þegar lítill hluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins gekk til liðs við höfuðandstæðingana Alþýðubandalag og Framsóknarflokk 1980 varð djúpstæður klofningur í þingflokknum. 

Minnugur viðbragða fimm þingmanna flokksins gegn mynduna ríkisstjórnar Ólafs Thors með "kommúnista" og krata innanborð 1944 ákvað Geir Hallgrímsson að reka ekki "svikarana" úr flokknum 1980, heldur horfa fram á við til framtíðar þegar kosningar yrðu 1983. 

Fyrir bragðið gengu Sjálfstæðismenn sameinaðir og samtaka til þeirra kosninga og sömdu eftir þær við stærsta andstæðing sinn, Framsókn um myndun ríkisstjórnar með tryggan meirihluta. 

Í þeirri stjórn yrðu meðal annarra Steingrímur Hermannsson, sem hafði verið ráðherra í "vinstri stjórn" Gunnars Thoroddsens. 

Þeir tók líka þá taktísku afstöðu að gefa Framsóknarmönnum kost á að fá forsætisráðuneytið gegn því að Sjallar fengju fleiri ráðherra í skiptunum. 

Stærsti kosturinn við það var sá, að með því var mun tryggara að þingflokkur Framsóknarmanna, sem var mun minni en þingflokkur Sjalla, yrði leiðitamari en ella við þær róttæku aðgerðir gegn 100% plús verðbólgu, sem þurfti að höggva niður með harkalegum og óvinsælum aðgerðum.

Í þeirri einu stjórn sem Vg hefur setið í, varð urgur í ýmsum þingmönnum flokksins yfir því sem þeim fannst vera of mikil áhrif Samfylkingar í stjórninni, til dæmis vegna þess að Vg hefði orðið við kröfu Samfylkingar um aðildarumsókn að ESB. 

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kallaði hina "óþægu" þingmenn Vg "villikettina" og varð það síst til að bæta andrúmsloftið. 

Hjá báðum flokkum, Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum er það ákveðinn hemill við stjórnarmyndun að þessir flokkar eru á sitt hvorum jaðrinum í íslenskum stjórnmálum. 

Í stjórn Sjalla, sósíalista og krata 1944 sem var mynduð "yfir allt litrófið" vinstri/hægri studdu fimm þingmenn Sjalla ekki stjórnina og líklegt er að fleiri Sjallaþingmenn hefðu gengið úr skaftinu ef Ólafur Thors formaður þeirra hefði ekki verið forsætisráðherra. 

En það hjálpaði til við þessa óvenjulegu sátt anstæðustu afla íslenskra stjórnmála að Sovétmenn voru þá í nánu bandalagi við Bandaríkjamenn og Breta og að gífurlegar gjaldeyrisinnistæður Íslendinga erlendis auk mikillar efnahagslegrar uppsveiflu gerðu það að verkum að hægt var nota þessa miklu fjármuni til að efla bæði stórútgerðir einkaframtaksins, almenna neyslu og miklar velferðarbætur, meðal annars í "besta almannatryggingarkerfi heims" á þeim tíma.  

Stjórnarmyndun nú með Sjöllum, Framsókn og Vinstri grænum svipar mjög til hinnar óvenjulegu myndunar Nýsköpunarstjórnarinnar 1944. Enn uppsveifla i efnahagslífinu, Kalda stríðið úr sögunni og ESB ekki á dagskrá að sinni að minnsta kosti. 

Á jöðrum Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna er samt jarðvegur fyrir "villiketti." 

Í ljósi þess getur það verið taktísk nauðsyn að formaður Vg verði forsætisráðherra, af því að sá þingflokkur er minni en hjá Sjöllunum og því hættara við því að hann teldi á sig hallað í komandi samstarfi undir forystu stóra flokksins á hinum jaðrinum. 

Ef þetta gengur ekki, þá yrði lausnin hugsanlega sú að Sigurður Ingi yrði forsætisráðherra í krafti ágætrar reynslu af honum í því embætti í fyrra. 

 


mbl.is Sætta sig við Katrínu í forsæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seinþreyttir til stórræða en Evrópuher í pípunum.

Lærdómur Evrópuþjóða af Seinni heimsstyrjöldinni var sá að forðast það að slíkt gæti gerst aftur. 

Þegar Bandaríkin reyndust bera ægishjálm fjárhagslega og hernaðarlega yfir hinar veiku Evrópuþjóðir með allt sitt stríðstjón, kom það sér vel fyrir báða aðila að Kanarnir nýttu mátt sinn til að standa fyrir því að verjast hugsanlegri frekari útþenslu kommúnismans. 

Kommúnistar voru öflugir bæði í Frakklandi og á Ítalíu og háðu borgarastyrjöld í Grikklandi. 

En Stalín hélt grundvallarsamkomulagið við Churchill og lyfti ekki litla fingri til að skipta sér af kommunum í Grikklandi. 

Raunar þótti hann hafa verið heldur frekur til valda í austantjaldsríkjunum, einkum í Tékkóslóvakíu, en með því að halda að sér höndum í Grikklandi ávann hann sér það, að Vesturveldin lyftu ekki heldur litla fingri þegar Sovétherinn óð inn í Ungverjaland 1956 og inn í Tékkóslóvakíu 1968. 

En síðan hefur margt breyst, Kalda stríðinu löngu lokið og ný sviðsmynd blasir við í Evrópu. 

Ýmsum óar við því að fyrrum stríðsþjóðir, Þjóðverjar og Frakkar, vígbúist, einkum að Þjóðverjar geri það. 

En það verður óhjákvæmilegt eftir að Donald Trump hefur reynt að þvinga þær til þess til þess að létta á Bandaríkjamönnum. 

Einvers konar Evrópuher er því á leiðinni ef svo heldur fram sem horfir. 

Hvaða áhrif það hefur á stöðu Íslands veltur mjög á afstöðu Bandaríkjamanna. 

En meðan varnarsamningurinn frá 1951 er í gildi hljótum við að teljast á áhrifasvæði Kananna. 


mbl.is Stefna að auknu varnarsamstarfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband