Rætist spá um úrslitaáhrif Flokks fólksins?

Þrátt fyrir óvægin átök á milli þinglokka yst til hægri og vinstri hefur þrisvar í fullveldissögunni tekist að koma á því sem kallað hefur verið "sögulegar sættir" í íslenskum stjórnmálum. 

Fyrst gerðist það í svonefndri þjóðstjórn 1939, síðan í Nýsköpunarstjórninni 1944-1946 og loks var það í kjölfar ábendingar Morgunblaðsins um slíka stjórn um áramótin 1979-1980 um sögulegar sættir Sjálfstæðismanna og Alþýðubandalagsmanna, sem hluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins tók sig til og gekk í stjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi, en reynar ekki alveg á þann hátt sem Styrmir og Matthías höfðu hugsað sér. 

Eftir að aðeins eitt ár er liðið síðan Viðreisn sagðist ekki ætla að verða þriðja hjól undir stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokk er eins og að ýmsum í röðum Vinstri grænna sýnist Katrín Jakobsdóttir ætla að leiða Vinstri græna til slíks. 

En vika getur verið langur tími í stjórnmálum og líka eitt ár, og því er það mjög áhugavert ef slíkt tekst nú. 

Í þessum bloggpistlum var því spáð fyrir um daginn að Flokkur fólksins gæti orðið til þess að eiga stóran þátt í því hvernig stjórn yrði mynduð, og miðað við hinn langa og hugsanlega erfiða fund hjá Vinstri grænum í kvöld sýnast vaxandi líkur á því að svo muni verða. 

Þessi langi fundur minnir á afar langan og erfiðan fund Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður, átti með grasrótinni þegar erfiðast gekk í Vinstri stjórninni 2009-2013.  

Af kynnum mínum af stjórnmálastarfi verða slíkir fundir oft miklu erfiðari og menn taka meira inn á sig en á átakafundum við pólitíska andstæðinga. 

Satt að segja var varla hægt annað en að dást að því hvernig Steingrímur fór að því að standa í þessu. 

Miðað við reynsluna af innaflokksátökum þá er varla við því að búast að langur og erfiður fundur nú muni verða líklegur til að lægja allar öldur. 

Utan við fundarstaðinn bíður sú hugsanlega staða að með þáttöku Flokks fólksins í miðju-vinstri stjórn geti myndast álíka staða og í borgarstjórn Reykjavíkur, að minni flokkarnir geti ekki einir upp á sitt eindæmi fellt stjórnarmeirihluta. 

Það ætti að vera eitthvað sem Framsóknarmönnum hugnast betur en stjórnarmeirihluti með eins atkvæðis meirihluta.  Og "villiköttunum" í Vg mun áreiðanlega hugnast slíkt betur en að leiða Sjalla, Bjarna Ben og Framsókn aftur til valda. 

 


mbl.is Svavar hvetur Katrínu til dáða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurlæging íslenskunnar og takmarkalaus enskudýrkun.

Að undanförnu hefur síbylja auglýsinga um "Happy Thanksgiving" verið keyrð í fjölmiðlum.

Eftir nokkra daga er svonefndur "Dagur íslenskunnar" einmitt um það leyti ársins sem Thanksgiving, Singles Day, Friday og Cyber Monday, allt bandarískir dagar, tröllríða hér öllu og kaffæra hinn íslenska dag í krafti fjöldans og umsvifanna, auk Singles Day, sem er kínverskur að uppruna en orðinn alþjóðlegur á skömmum tíma. 

Af þessum dögum er Singles Day kannski hinn eini, sem réttlæta má, því að hann er tengdur nýju alþjóðlegu fyrirbæri á netinu, og veður því uppi í öllum heimshornum. 

Og blaðakona mbl.is má eiga þakkir fyrir að voga sér að kalla Singles Day Dag einhleypra. 

Því að engu er líkara en að ósýnileg ensk málfarslögga sé að taka hér öll völd. 

Svo hratt hefur þetta gerst, að Cyber Monday er ekki enn eins þekktur og hinir, en það verður örugglega ekki lengi, sannið þið til, svo mikilvægt sem það er að við eltum Kanann og séum ekki eins og eitthvert meningarsnautt útnárafólk. 

Betra hefði verið að segja "Dagur einhleypra heldur velli" heldur en að hann "sé kominn til að vera" ("is here to stay")

En Thanksgiving, Black Friday og Cyber Monday koma íslenskri menningu, sögu og aðstæðum nákvæmlega ekkert við, og hafa ekki frekar skírskotun til Íslendinga en að Þorláksmessa hafi skírskotun til Bandaríkjamanna. 

Bandaríska þakkarhátíðin er frídagur og þess vegna er mikil verslun á eftir honum. Til þess að Svartur föstudagur eigi sér íslenska skírskotun þyrfti að gera Þakkarhátíðina að frídegi, en því verður hugsanlega kippti fljótlega í liðinn, sannið þið til. 

Nú hefði maður haldið að hið gengdarlausa og einfeldningslega dekur okkar við allt, sem bandarískt og enskt er, hefði átt að duga. 

Við getum ekki einu sinni drullast til að kalla þetta Þakkarhátíð eða Svartan föstudag, nei, "Happy Thanksgiving" og "Black Friday" skal það vera. 

En, þetta er ekki allt. Eins og Björn Bjarnason hefur skrifað á bloggsíðu sína, nær enskudýrkunin nýjum hæðum eða réttara sagt nýjum lægðum í lágkúru í auglýsingum bíóhúsa á myndinni "Þór-Ragnarök". eins íslensku fyrirbæri og hugsast getur, skráð og mótað af Íslendingum. 

Heitið Þór-Ragnarök virðist ekki þykja nógu fínt. "Thor-Ragnarok" skal það heita. Ekkert sveitalegt og hallærislegt íslenskt nafn, takk fyrir. 

Kannski er stutt í það að mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar, sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna, verði nefnd "The Childrens of the Nature" svo að það þyki nógu fínt. 

Um það verður hann liklega ekki spurður ef til þess kemur, né heldur ég varðandi þáttinn um Gísla á Uppsölum, Samúel í Brautarholti og Sólveigu í Selárdal, sem kom á undan mynd Friðriks Þórs og bar heitið "Börn náttúrunnar." 

Að maður skyldi ekki fatta það hvað þetta var lubbalegt heiti. 

Aðeins eitt vantar til þess að fullkomna leiftursókn enskunnar til að gera alla tyllidaga í nóvember að enskum dögum; að breyta nafninu á Degi íslenskrar tungu og nefna hann "Day of Icelandic Language", nafnorðin að sjálfsögðu skrifuð með stórum stöfum að enskra sið. 

Ég yrði ekki hissa þótt það færi að styttast í það. 

 

 


mbl.is Dagur einhleypra kominn til að vera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband