Gott starf Íslendinga í Mósambík en sendiráðið vakti spurningar.

Það var áhugavert að fylgja utanríkisráðherra Íslands til Mósambík árið 2003 og kynnast því sem Íslendingar voru að gera þar. 

En sendiráðsbyggingin stóra og flotta vakti spurnningar, þótt hún gæfi tilefni til að varpa ljósi á hrópandi andstæðurnar hjá þessari fátæku þjóð. 

Með uppistandi við glæsislotið var hægt að benda yfir flóann og segja eitthvað á þessa leið: "Hér stöndum við á besta stað í höfuðborginni þar sem eru glæsivillur sendiráða ríkra þjóða og vitum af því hvernig mestöll heimsbyggðin er komin í gervihnattasamband, en þegar skyggnst er yfir flóann sjáum við djarfa fyrir svæði, þar sem svo mikil fátækt ríkir, að fólk þar er algerlega úr sambandi við nútíma veröld og býr við ömurlega örbirgð, en þessu kynntumst við í ferð þangað í gær til að sjá hvernig íslenska þróunarhjálpin hefur reist þar einfalda heilsugæslustöð sem gjörbyltir öllu á þvi sviði. 

Áður en hún reis, þurfti kona, sem var í barnsnauð, að fara gangandi eða í besta falli ríðandi á asna til þess að komast nálægt einhverri lágmarksþjónustu. 

Við sáum í gær hvernig fólkið þarna kom að úr öllum áttum til að fagna íslenskum gestum með því meðal annars að syngja og dansa í útivist. 

Sérstaka athygli vakti unglingur, sem hafði sett saman gítar úr einum bensínbrúsa, spýtu og nokkrum vírstrengjum, sem hann lék á að hreinustu list. 

Og fólkið söng saman á ógleymanlegan hátt með hinum mögnuðu sjálfsprottnu raddsetningum, sem er svo einkennandi fyrir þjóðirnar syðst í álfunni. 

Við fórum líka og kynntumst líknarstarfinu sem Íslendingar hafa sinnt í návígi við eitt af aumustu og illræmdustu fátækrahverfi landsins, þar sem allt að fimmtungur ungs fólks verður alnæmi að bráð." 

Á einu götuhorninu sáum við unglingspilt leika sér þannig að fótbolta, að sumt sem hann gerði hafði maður ekki séð jafnvel þá allra frægustu í þeirri íþrótt leika slíkt. 

Síðan var hann horfinn og manni varð hugsað til þess að í kringum 1960 vildi svo til að portúgalskur knattspyrnuþjálfari sá pilt einn leika sér með bolta á svipaðan hátt, stöðvaði bílinn og tók hann með sér til Portúgals. 

Á HM í London 1966 varð hann stjarna mótsins og vakti heimsathygli. Nafn hans var Eusobio, og hann var svo heppinn að það var knattspyrnuþjálfari sem sá til hans en ekki fréttamaður frá Íslandi, sem átti leið framhjá og hvarf sjónum. 

Og kannski átti knattspyrnusnillingurinn 2003 eftir að bætast í hóp þess unga fólks sem grimmur sjúkdómur felldi umvörpum á þessum tíma.

Íslendingar hjálpuðu líka til við fiskverkun í Mapútó og kenndu vinnubrögð og aðferðir við vinnslu og sölu. 

En stóra sendiráðsvillan, ein sú stærsta á svæðinu, truflaði þessa sýn. Þegar spurt var hvort hún væri ekki bruðl var svarið að verðlag allt væri svo lágt í þessu fátæka landi, að kostnaðurinn við slotið þætti lítill á íslenskan mælikvarða. 

Nú er búið að loka sendiráðinu og verið að þróa aðrar leiðir til þess að sinna þeim göfugu verkefnum, sem hrópað er á svo víða um lönd, þar sem kjör hundruð milljóna fólks eru svo langt frá því sem við eigum að venjast, að það er stundum líkt og ljósár séu á milli.  


mbl.is Sendiráði Íslands í Mósambík lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brauðmolakenningin í framkvæmd.

Donald Trump sagði hróðugur í kosningabaráttunni í fyrr að hann hefði skapað svo geysilega mörg og góð störf og tekjur fyrir svo marga með því að fjárfesta í glæsihöllum og eignum, sem aðeis er á færi hinna ofurríku í heiminum. 

Þetta er eitt afbrigði af "brauðmolakenningunni" svonefndu sem slær því föstu, að því ríkara sem það eitt prósent jarðarbúa verður sem á helming allra auðæfa heimsins, því meiri tekjur muni skapast af bruðlumsvifum hinna moldríku í formi "afleiddra starfa við að framleiða þessar miklu eigur. 

Þegar ég var ungur hélt ég í barnaskap mínum, að sú tíð kæmi aldrei aftur að tiltölulega fámennur aðall og yfirstétt í heiminum velti sér upp úr auðæfum sínum á sama tíma sem almúginn þjónaði undir þetta lið og þægi mola úr lófum þeirra, þegar best léti. 

En þetta virðist ekkert hafa breyst. 

Glöggir hagspekingar hafa reiknað út fánýti brauðmolakenningarinnar. En með henni gera valdhafar í krafti auðsins allan almenning sér háðan, þar sem "litli maðurinn" lýtur hinum valdamikla í auðmýkt þess, sem þráir "vernd" hins volduga og ríka en gerist með því í raun meðvirkir í því að sóa auðæfum og auðlindum jarðar á þannn hátt að allir eiga eftir að tapa á því. 

"Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barinn þræll er það, því að i brjósti hans lifir frelsið" var einhvern tíma skráð. 

Þeir sem vilja eitthvað örlítið réttlátari skiptingu jarðargæða og betri meðferð á auðlindum jarðar eru úthrópaðir sem "kommúnistar" og "öfgafólk." 

Er þó aðeins um að ræða að slá tiltölulega lítið á ójöfnuðinn og skerða frelsi hins almenna einstaklings sem minnst. 

En jafnvel frumkvæðlar kapítalismans viðurkenndu, að frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar. 

Sú grundvallarstaðreynd er þögguð niður.  


mbl.is Ríkasta prósentið á helming auðæfanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað andrúmsloft og í febrúar 1980?

Í febrúarbyrjun 1980 ríktu pattstaða og stjórnarkreppa hér á landi. Mikill órói og átök höfðu ríkt í stjórnmálum og á vinnumarkaðnum allt frá síðari hluta ársins 1977, fyrst með aðgerðum verkalýðssamtakanna sem fólust í svonefndu útflutningsbanni, síðan með lagasetningu ríkisstjórnar Geir Hallgrímssonar sem kippti vísitölunni úr sambandi við launagreiðslur, sem kallaði á kjörorð í hörðum kosningum til byggða og þings 1978: "Samningana í gildi!" 

Í kjölfarið misstu Sjálfstæðismenn meirihlutann í borgarstjórn Reykjavík eftir 60 ára samafelld völd og stofnuð var vinstri stjórn 1978 eftir afhroð stjórnarflokkanna í kosnningum. 

Sífelldar og harðar deilur innan stjórnarinnar stóðu til vors 1979 og stjórnin sprakk í september, líkt og nú og farið var í vetrarkosningar í desember. 

Þá tók ekki betra við, sex vikna stjórnarkreppa. 

Allt þetta skóp ástand þreytu og vantrúar almennings á stjórnmálum og stjórnmálamönnum, ekki ósvipað og ríkt hefur hér síðan í apríl í fyrra. 

Kristján Eldjárn forseti var með utanþingsstjórn Jóhannesar Nordal uppi í erminni. 

Þá beitti Gunnar Thoroddsen djörfu stjórnkænskubragði og myndaði með fimm þingmönnum Sjálfstæðisflokksins meirihlutastjórn með flokkunum tveimur á vinstri vængnum, Alþýðubandalagi og Framsóknarflokknum. 

Hatrömm átök urðu í Sjálfstæðisflokknum við þetta en í skoðankönnunum eftir stjórnarmyndunina kom í ljós að þessi sérkennilega ríkisstjóron var með mikið meirihlutafylgi kjósenda. 

Fólk var einfaldlega búið að fá upp í kok af getuleysi og sundrungu stjórnmálamanna. 

Þótt viðtöl sjónvarpsfólks á förnum vegi veiti afar hæpna vísbendingu, virtist svipaður andi algengur hjá aðspurðum í slíkum viðtölum Stöðvar 2 í gær varðandi þá stjórnarmyndun, sem nú er í gangi. 

Ef af þessari stjórnarmyndun verður mun það valda óróa innan flokkanna lengst til vinstri og hægri. 

Í stjórnarmynduninni 1980 var forsætisráðherrastóll Gunnars Thoroddsens lykillinn að því að því að hún væri möguleg. 

Nú virðist það vera forsætisráðherrastóll Katrínar Jakobsdóttur. 

1980 ríkti einstakt erfiðleikaástand vegna hrikalegrar hækkunar á olíuverði í heiminum og ríkisstjórn Gunnars mistókst að ná tökum á óðaverðbólgu sem í lok kjörtímabilsins komst yfir 100%. 

Nú eru í bili allt aðrar ytri aðstæður fyrir nýja ríkisstjórn, en á hinn bóginn sér gerbreytt fjölmiðlunarumhverfi fyrir því að vandi þeirrar stjórnar sem nú er verið að reyna að mynda felst í miklum óróa hjá hluta fylgismanna flokkanna lengst til hægri og vinstri. 

Hvernig sem allt fer, ætti að vera nokkuð líklegt, að almenna kjósendur þyrstir í að óróatímabilið frá því í apríl 2016 endi og að fyrirheit stjórnmálamanna um nýtt andrúmsloft og stöðugleika verði efnd.  

1980 tókst Geir Hallgrímssyni og hinum framsýnni Sjálfstæðismönnum að koma í veg fyrir að flokkurinn klofnaði og menn yrðu reknir úr honum, og fyrir bragðið gátu Sjálfstæðismenn gengið sameinaðir til kosninga 1983 og myndað sterka stjórn í kjölfarið. 

Þetta fyrirbæri gæti orðið framhaldið innan Vinstri grænna ef mynduð yrði stjórn undir forsæti þeirra með Sjöllum og Framsókn. 


mbl.is Viðræðurnar eru sagðar ganga vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband