Alþjóðaflugleið skammt frá. FRÚin úr sögunni síðustu árin.

Það er ekki tilviljun að flugstjóri í millilandaflugi tók fyrstu myndina þar sem nýi sigketillinn uppi á Öræfajökli sást.

TF-FRÚ og Cuore á HvolsvelliÍ langflestum tilfellum þegar flogið er á flugleiðum milli Kaflavíkurflugvallar og flugvalla í norðar er flogið yfir flugleiðsöguvita á Ingólfshöfða. 

Þess ber að geta að Öræfajökull er ekki eina eldfjallið á Íslandi, sem gusthlaup gæti komið úr. 

Hættan á slíku er til dæmis líka fyrir hendi við Snæfellsjökul og Heklu, en hins vegar er afar ólíklegt að fyrrnefnda fjallið gjósi. 

Þess má geta, að í gær flaug ég ekki á TF-FRÚ yfir Öræfajökul eins og sagt er á texta undir myndinni á tengdri frétt á mbl.is, heldur á TF-JEG, sem er af sömu gerð og FRÚin, en ekki í minni eigu. 

Haustið 2014 gafst ég upp á að reka TF-FRÚ vegna mikils og hraðvaxandi rekstrarkostnaðar síðustu árin, sex milljónir króna á aðeins fjórum árum bara í ársskoðanir, burtséð frá því hvort hún flygi. 

Og samt var flugvélin óflughæf í lengri tíma á milli ársskoðana á þessum árum en hún var með gilt lofthæfisskírteini. 

Þætti það sæmilegur kostnaður vegna bílaskoðana ef árlegar skoðanir kostuðu slíkt burtséð frá því hvort bílunum væri ekið eða ekki. 

En síðustu fjögur ár FRÚarinnar voru góð, þegar hún var mestallan tímann á túni í Vestari-Garðsauka við Hvolsvöll, og ég þar langdvölum í minnstu bílum landsins, til taks fyrir myndatökur vegna eldgosanna þriggja á þeim tíma og vegna annarra myndatökuverkefna minna. 


mbl.is Gjóskuflóð færu hratt niður hlíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir um sumt á stjórnarmyndunina 1950.

Þriggja flokka ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar sprakk snemma árs 1949. Ástæðan lá í efnahagsmálum og skattamálum, meðal annars í því hvort ætti að fella gengi íslensku krónunnar. 

Ólafur Thors myndaði minnihlutastjórn, sem vildi fella gengið, en þá var samþykkt vantraust á stjórnina og haldnar kosningar í október. 

Í kosningunum setti Framsóknarflokkurinn fram býsna róttæk stefnumið, og í Reykjavík gerðust þau undur og stórmerki að flokkurinn fékk í fyrsta skipti í sögu sinni þingmann þar, en þá voru Reykjavíkurþingmenn sex. 

Rannveig Þorsteinsdóttir náði kosningu undir kjörorðinu "að segja fjárplógsstarfseminni stríð á hendur," hvorki meira né minna. 

Nú tók við einhver lengsta, ef ekki lengsta stjórnarkreppa sögunnar. 

Sveinn Björnsson sá í hendi sér að vegna djúpstæðs ágreinings um utanríkismál, sem sprengdi Nýsköpunarsjórn Ólafs Thors 1946, yrði ómögulegt að mynda meirihlutastjórn nema að stóru turnarir, Sjallar og Framsókn, slíðruðu sverðin og mynduðu stjórn. 

Í það fóru margar vikur, meðal annars vegna ágreinings um gengismálin og skattamálin. 

Þar að auki voru formenn flokkanna svo persónulega ósáttir frá 1942 vegna svonefnds "eiðrofsmáls", að hvorugur gat myndað stjórn undir forsæti hins. 

Loksins, á síðustu stundu undir hótun forseta að mynda annars utanþingsstjórn tókst að mynda stjórn, sem margir hafa síðar kallað "helmingaskiptastjórnina". 

Sjálfstæðismennn beygðu sig fyrir kröfu Framsóknarmanna um stóreignaskatt en á móti gáfu Framsóknarmenn eftir í gengismálunum með því að setja á laggirnar fyrirkomulag með margföldu gengi, svonefnt Bátagjaldeyrisfyrirkomulag til að "bjarga sjávarútveginum."  

Á síðasta valdaári stjórnarinnar var búið til sérstakt gengi til þess að liðka fyrir óhjákvæmilegri endurnýjun bílaflotans, en bílainnflutningur hafði þá í að mestu stöðvast í átta ár, og má geta þess, að svipað fyrirkomulag var þá í Danmörku; dollarinn á miklu hærra verði en ella í frjálsum bílakaupum. 

Vandamálið með flokksformennina var leyst með því að Steingrími Steinþórssyni alþingismanni úr Framsóknarflokknum, var falið að ljúka stjórnarmynduninni og gegna embætti forsætisráðherra. 

Hann var úr minni stjórnarflokknum, sem var meira til vinstri en hinn, og samsvaraði að því leyti til Katrínu Jakobsdóttur, að forsætisráðherrann kæmi vinstra megin frá frá smærri flokknum, en ekki úr Sjálfstæðisflokknum. 

Þrátt fyrir að vandamálin 1950 væru miklu meira aðkallandi og brýnni en nú, tók þetta svona langan tíma. 

Og þá, eins og nú, voru skattamálin og efnahagsumhverfið einna snúnust viðfangs. 

Til að finna lausn í þeim þurfti drjúgan tíma til að búa til kerfi, sem báðir aðilar gætu sætt sig við.  

Það ætti því ekki að koma á óvart að það muni taka tíma að finna samkomulagsgrundvöll núna. 

 


mbl.is „Ætluðum að vera komin lengra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvor Framsóknarflokkurinn er betri í að "vinsa það besta úr"?

Framsóknarflokkarnir á Íslandi eru minnsta kosti tveir en þó líklega fleiri flokkar sem hafa innanborðs menn sem eru "Guðjón inn við beinið." 

Bæði Sigurður Ingi Jóhannsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafa sagt það, að það sé aðall Framsóknarmanna, að skoða sem best allar mögulega kosti og fá hægri, vinstri og miðjumenn til samstarfs. 

Hann segir að Framsóknarmenn séu allra stjórnmálamanna vanastir að vinna sitt á hvað til hægri og vinstri. 

Í gamla daga var talað um að "Framsókn væri opin í báða enda."

Sigmundur Davíð hefur lýst því sem einum helsta kosti Miðflokksins að hann geti sem miðjuflokkur laðað til sín flokk úr öllum áttum til að sameinast um stór verkefni.

Spurningin er því hvor Framsóknarflokkurinn sé líklegri til að ná árangri í því að vera límið í ríkisstjórn eftir að hafa "vinsað það besta úr til hægri og vinstri." 

Meðan ekkert liggur enn fyrir um það hvers konar stjórnarsáttmála Sjallar, Framsókn og Vg sjóða saman, er erfitt að segja nokkuð um málið. 

Og jafnvel þótt það myndi liggja fyrir hvernig sáttmálinn væri eða á hverju strandaði ef það verður niðurstaðan, er ekki síður erfitt að giska á hvort og þá hvernig Miðflokkurinn hefði náð betri árangri við myndun ríkisstjórnar.  

 

 


mbl.is „Mynda samsæri gegn kjósendum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband