Risastórt kapphlaup upp á líf og dauða milljarða fólks.

Síðustu áratugi hefur staðið yfir eitthvert víðfeðmasta kapphlaup allra tíma á milli sýklahers, sem verður æ öflugri og illvígari, og lyfja, sem geti hamlað gegn framrás og sigrum hins ógnvekjandi hers. 

Slík lyf snerta líf milljarða manna um allan heim. 

Fyrir um 30 árum naut ég stórfróðlegs fyrirlesturs sessunautar míns í flugvél Flugfélags Íslans á leið frá Akureyri til Reykjavíkur um það heimsstríð sem þá var hafið, meðal annars með nýjum sjúkdómum á borð við alnæmi af völdum HIV-veirunnar. 

Mesta ógnin stafaði af lausatökum og mistökum tveggja þjóðfélagshópa, fíkniefnaneytenda og gamals fólks sem ruglaðist í inntökum á sýklalyfjum. 

Einnig af mikilli ofnotkun sýklalyfja. 

Þetta þrennt skapaði jarðveg fyrir sýkla, sem lifðu af lyfjameðferð og fengju með því möguleika á að þróa með sér svonefnt fjölónæmi gagnvart sýklalyfjum. 

Um þessar mundir hallar heldur á lyfin, og því er það stórfrétt ef verið er að þróa nýja kynslóð sýklalyfja sem búa yfir nýjum möguleikum til að vinna bug á sýklunum skæðu. 

Fyrir 10 árum upplifði ég það fyrirbæri, sem hefur vofað yfir, að til þess að vinna bug á sterkustu sýklunum verði að beita svo sterkum lyfjum, að þau geti jafnvel drepið hýsilinn í sókninni gegn sýklunum. 

Sigur yfir stórri og skæðri ígerð kostaði það að aðeins öflugasta sýklalyfið var nothæft, en var svo öflugt, að lifrin brast og orrustan tók fjóra mánuði vegna lifrarbrestsins sem olli gulu, ofsakláða og svefnleysi, sem getur haft alvarlegar afleiðingar.

Þessa dagana, eftir að ég var fyrr á árinu búinn að halda upp á tíu ára afmælið í orrustunni um lifrina, gerðist það svo síðastliðinn mánudag, að á óvæntan hátt, fékk ég snögga og skæða sýkingu (blóðeitrun) í vinstri fót af völdum sýkla, sem höfðu laumað sér inn í gagnum örlítið nokkurra millimetra stórt sár. 

Viðbrögð líkamans við sýkingunni urðu athyglisverð. Það var líkt og bjöllur glymdu og ljós blikkuðu í viðvörnarkerfi: 

Mikill kuldaskjálfti, hausverkur og beinverkir ásamt ógleði og uppköstum helltust yfir á 0rskotsstund.  

Áður en þetta gerðist hafði ég orðið var við eins konar tognun á innaverðu læri og hélt ranglega að það væri vegna ofreynslu við að lyfta þungum hlut. 

Ranglega hélt ég að loksins væri ég að fá flensu eftir eftir meira en áratugs langan pestarlausan tíma, og fyrir bragðið tók ég ekki eftir bólgunni og bjúgnum í fætinum, fyrr en sólarhring síðar. 

Það tafði fyrir gagnaðgerðum í sólarhring, en við tók dags spítaladvöl með sýklalyfjagjöf í æð eftir að læknirinn hafði dregið línu með penna við útjaðar eldrauðs sýkingarsvæðisins, sem var í tveimur pörtumm, annars vegar allt frá ökkla upp að hné og hins vegar ofan hnés. 

Nú er tekin við heimalega til þess að hamla frekari bjúgmyndun og maður fylgist með stöðu og útbreiðslu "rauð hersins" eins og úr njósnaflugvél við loftmyndaflug yfir vígstöðvum.

Af fyrri reynslu er vitað að það getur orðið tímafrekt að sækja gegn innrásarhernum en framrás hans er stöðvuð, að minnsta kosti í bili. 

Sem dæmi um áhrif sýklalyfja má nefna að þau ráðast að hluta til á mikilvæg gerlasvæði líkammans svo að ráðlagt er að borða gerlamjólk til mótvægis.  


mbl.is Þróa næstu kynslóð sýklalyfja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Shakespeare lýsti þessu best.

Í Þrettándakvöldi Shakespeares er hlutverki trúða og grínista lýst svo vel að betur verður varla gert. Leikritið endar reyndar á Söng Fjasta, hirðfífsls greifynjunnar Ólivíu, en hún glímir við þunglyndi. 

Fjasti reynist laginn við að veita Ólivíu sálfræðiþjónusu sem aðrir geta ekki veitt henni og á mikinn þátt í að glima við að leysa þær flækjur og þrautir sem plaga aðalpersónur leikritsins.  

Söng Fjasta er að finna á safndiskinum "Hjarta landsins", sem var gefinn út og kynntur í hringferð um landið í sumar, og á diskinum er í megindráttum sú útgáfa með íslensku lagi sem flutt var á sýningu Herranætur á leikritinu 1959. 

Í diskinum heitir lagið "Hann rignir alltaf". 

Ýmsar setningar í leikritinu minna á hlutverk hirðfíflsins svo sem "ekki er munkur þótt í kufl komi" og "betra er viturt fífl en flónskur vitringur." 

En á einum stað eyðir Shakespeare heilli einræðu í að lýsa hlutverki spaugara og trúða, svo að betur verður varla gert. 

Því miður er nú rúm öld síðan ég las leikritið síðast og kórréttur texti því ekki tiltækur fyrir mig, en í einræðunni er því lýst hve vel "fiflið" verði að vera að sér í aðstæðum samtíðar sinnar, skynja þjóðfélagsgerðina, strauma hennar og þróun og vera næmur á að finna atriði sem varpa spaugilegu og þar með eftirtektarverðu og lærdómslíku ljósi á aðalatriðin. 

Að þessu leyti sé hlutverk trúðsins miklu mikilvægara en flestir geri sér grein fyrir. 

Eitt besta dæmið sem ég þekki úr leikhúsinu er einþáttungurinn í "Þjófar, lík og falar konur" sem gerist við spilaborð. 

Einn þátttakandinn virðist alger auli, aumkunarverður og hafður að háði og spotti af spilafélögunum. En í óvæntum endi kemur hið gagnstæða í ljós,- hann rúllar þeim upp og gerir þá að fíflum. 

Frammistaða Gísla Halldórssonar í þessu atriði var með því besta sem ég hef séð á íslensku leiksviði, en því miður var einfaldara atriði, með tveimur öskukörlum, prýðilegt að vísu, valið til upptöku og sýningar í Sjónvarpinu. 

Á þessum byrjunarárum Sjónvarpsins var fjárhagurinn svo knappur, að þegar ég fór fyrir hönd þess til Helsinki til þess að vera fulltrúi Íslands í norrænum gamlársþætti, var aðeins efni á að hafa samskipti við dagskrárstjórann heima með því að senda honum jólakort. 

Of dýrt að senda bréf eða tala í síma. 

 

 


mbl.is Trúðurinn er ekkert fífl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gætum garðsins, yndisarðsins og unaðar mannsins í Hjarta landsins!"

Virkjanaæði var orð sem forstjóri Orku náttúrunnar notaði nýlega um þá margföldu atlögu gegn ósnortnum víðernum Íslands, sem erlendir auðmenn með aðstoð skósveina sinna gera nú vítt og breitt um landið. Hjarta landsins framhlið

Athugið, að þessi orð hrutu ekki af vörum "öfga-náttúruverndarmanna" eins og tíðkast hefur að nefna það fólk sem berst fyrir því að einstæðustu og mesu verðmætum Íslands verði á glæ kastað. 

Sjálfur hef ég verið atyrtur harðlega fyrir að nota orðið virkjanafíkla, en öðruvísi er varla hægt að líta á það, að nú eru uppi áform um hvorki meira né minna en 57 mismunandi nýjar virkjanir í landi þóðar, sem framleiðir fimm sinnum meira rafmagn en hún þarf fyrir eigin heimili og fyrirtæki. 

Í tilefni hinnar merku gjafar til baráttunnar fyrir hálendi Íslands birti ég hér textann "Hjarta landsins" sem er á samnefndum 72 laga safndiski, sem gefinn var út og kynntur í sumar í hjólafarð báða hringvegina um landið, þann stóra og hinn minni, Vestfjarðahringinn, því að það er líka hart sótt að hálendi Vestfjarða. 

Lagið má finna á Youtube og ég set það líka inn á facebook-síðu mína. 

 

HJARTA LANDSINS. 

 

Gætum garðsins, 

yndisarðsins 

og unaðar mannsins 

í hjarta landsins!

 

Stöldrum mú við, gætum garðsins,

grasanna´og móabarðsins, 

blómanna´og yndisarðsins 

af útsýni fjallaskarðsins! 

 

Gætum fossa og flúða

með fegursta regnbogaúða, 

sem bylgjast um bergrisa prúða 

og breiður af rósanna skrúða!

 

Andæfum ógnvaldi mannsins; 

ógöngum skammgræðgisdansins, 

ágengni í hjarta landsins 

í ásókn mannvirkjafansins!

 

Munum að vinna og vaka

og hvergi á klónni að slaka

meðan jöklarnir byltast og braka 

og blíðan söng fuglarnir kvaka!  

 

Gætum garðsins, -

yndisarðsins

og unaðar mannsins

í hjarta landsins! 

 

Djörf grípum glaðbeitt til varna, 

þótt grimm mun baráttan harðna!

Vor líf, það sé leiðarstjarna

landsins framtíðarbarna! 

 

Kom, í dýrð íssinsins og eimsins

í algleymi bláfjallageimsins, 

uppljómun andlega seimsins

á Íslandi, gersemi heimsins! 

 

Gætum garðsins, - 

yndisarðsins

og unaðar mannsins 

í hjarta landsins.   

 

La,la,la,la,la,la...Gætum að hjarta landsins!  


mbl.is Úr Newmans verndar hálendið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband