Hvað læti út af viðskiptum við "virt og viðurkennd" fyrirtæki?

Þegar fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins hóf kosningabaráttuna á fyrsta stóra fundi formanna flokkanna fyrir kosningarnar 2016 byrjaði hann á því að fulyrða að fyrirtækið sem hann hefði verið í viðskiptum við væri alls ekki "skattaskjól" heldur virt og viðurkennt fyrirtæki. 

Þetta var svipað og að segja að hann væri stoltur af því að hafa geymt peninga fyrrum forsætisráðherrahjóna þar. 

Þetta var raunar alveg á skjön við fyrstu svör hans í viðtalinu fræga vorið áður þar sem hann lýsti því að ráðamenn ríkja heims, þeirra meðal Íslands, væru í samræmdri herferð gegn viðskiptum við svona fyrirtæki, og það var á þessu augnabliki í sjónvarpsþættinum með flokksformönnunum sem Sigurði Inga Jóhannssyni og fyrrverandi formenn flokksins urðu felmtri slegnir yfir því á hvaða nótum hreinnar afneitunar ætti að sigla inn í kosningabaráttuna. 

Þeir hörðustu, sem gagnrýna RÚV stundum daglega, hafa haldið því fram að Panamaskjölin hafi ekki verið til og séu því tilbúningur, og að RÚV hafi staðið fyrir alheimssamsæri fjölmiðla á hendur íslenskum stjórnmálamönnum með eigur í virtum og viðurkenndum erlendum fyrirtækjum. 

En nú hefur það gerst að enn á ný fara fjölmiðlar heimsins af stað með viðbótarskjöl, sem þeir nefna Paradísarskjölin, þar sem fjölmörg ný nöfn erlendra ráðamanna og einhverra Íslendinga líka koma við sögu, og eru afsakanir hinna erlendu ráðamanna og útskýringar um margt af svipuðum toga og var hjá hinum íslensku og erlendu í fyrra. 

En í þetta skiptið bregður svo við að hinir hörðu gagnrýnendur RÚV hafa þagað þunnu hljóði allan daginn, fram að þessu. Nú er ekki hrópað um alheimsssamsæri sem RÚV stjórni á grundvelli skjala, sem ekki séu til. 

Dagurinn er senn á enda og maður bíður spenntur eftir því að eitthvað heyrist hjá þessum hörðu gagnrýnendum um nýju "ofsóknarherferðina" sem RÚV stjórni. 

Kannski finnst þeim þetta ekki umfjöllunarvert né merkilegt. Hvaða læti eru þetta út af viðskiptum við virt og viðurkennd fyrirtæki?

 


mbl.is Skatturinn rannsakar þekkta Svía
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaf Björn Leví tóninn? Svipað og 1974 og 1978?

fyrir ári kom í ljós að einstök óvarleg ummæli í kosningabaráttu og stjórnarmyndunarviðræðum urðu til trafala við stjórnarmyndun. Þetta virðist vera að endurtaka sig, í þetta sinn meðal annars vegna ummæla eins þingmanns Pírata. 

Að vísu hefur verið bent á að ef viðkomandi þingmaður yrði ráðherra og segði sig frá þingmennsku á meðan myndi verða hægt að setja undir þennan leka. 

En efinn um hann og aðra þingmenn í stjórnarsamstarfi þar sem enginn má ganga úr skaftinu virðist hafa nægt. 

Fyrir kosningarnar 1974 sýndist mér og mörgum fleiri að það myndi verða eina lausnin eftir kosningar að Sjallar og Framsókn færu í stjórn. 

Ég kaus meira að segja Framsókn til þess styrkja stöðu hennar í hermálinu í komandi stjórn. 

Flokkurinn svaraði því kalli mínu með því að leggjast í býsna mikið hermang. 

En enda þótt stjórnarmyndunarviðræður Sjalla og Framsóknar gengju ágætlega þegar Geir Hallgrímsson hafði umboðið, strönduðu þær. 

Ólafur Jóhannesson tók þá við keflinu og leysti málið með því snjalla úrræði að mynda stjórn, sem yrði undir forsæti Geirs! 

Var haft í flimtingum að Ólafur hefði myndað stjórn fyrir Geir og reyndist það Geir lítill vegsauki þegar frá leið. En stjórnin sat í fjögur ár. 

1978 virtist eini mögulegi kosturinn vera að mynda vinstri stjórn, en vegna rígs A-flokkanna strandaði sú myndun þar til Ólafur bjargaði málum og myndaði stjórn þrátt fyrir mesta ósigur Framsóknarflokksins í sögu hans fram að því. 

Nú liggur svipað í loftinu, að í raun muni litlu að stjórnarmyndun takist. 

Ástandið virðist ekki ósvipað og 1974 og 1978. Kannski nægir að að annar en Katrín, til dæmis Sigurður Ingi, finni lausn, til dæmis með hlutleysi eða þátttöku fimmta flokksins. 

Einfaldast sýnist að Flokkur fólksins komi til greina, en það gæti líka orðið annar flokkur en hann. 


mbl.is Augljóst að bjóða fleirum að borðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherradómur er fullt starf. Starf Alþingismanns líka.

Sú var tíð að það þótti ekkert tiltökumál þótt Alþngismenn gegndu jafnframt störfum ráðherra eða borgarstjóra í Reykjavík. Svo mikilvægt þótti að flokksræðið væri algert, að þegar Þorsteinn Pálsson varð formaður Sjálfstæðisflokksins án þess að sitja á þingi, var mikið gert í því að koma honum á þing. 

Kölluðu gárungar það fyrirbæri "stól handa Steina." 

Þess vegna rennur þeim, sem þrá sem mest völd flokksforingja og mest flokksræði yfirleitt kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þeir heyra rætt um það að ráðherrar segi af sér þingmennsku á meðan þeir gegna ráðherradómi. 

Er þó löngu viðurkennt að framkvæmdavaldið hér á landi sé of sterkt miðað við löggjafarvaldið, að jaðri við það að Alþingi sé afgreiðslustofnun fyrir ráðherrana. 

Með þessu ofríki framkvæmdavaldsins sé lýðræði skert og ráðríkir ráðherrar eigi stóran þátt í þeim átakastjórnmálum og skotgrafahernaði sem hefur valdið því að traust kjósenda og almennings á þinginu er að mestu leyti þorrið ef marka má skoðanakannanir. 

Það er því viðbúið að nú sé rekið upp ramakvein þegar þingmenn eins flokksins nefna þann möguleika að hugsanlegir ráðherrar hans fái að sinna ráðherrastörfum eins og vert sé, því að það sé fullt starf en ekki hálft. 

Og jafnframt því sé séð til þess að þeir sem sinni þingmennsku líti á það sem fullt starf en ekki hálft. 

Tal um launakostnað í þessu samhengi er hjákátlegt. Það getur aldrei verið hagkvæmt og góð ráðstöfun á almannafé að borga tólf þingmönnum fullt kaup fyrir að sinna hálfum störfum. 


mbl.is 50 milljón króna ráðherrar Pírata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vakti undrun í upphafi Eyjafjallajökulsgossins 2010.

Það vakti undrun og jafnvel hneykslan sumra þegar gaus í Eyjafjallajökli og við Ari Trausti Guðmundsson minntumst á það í sjónvarpi, að austan við Eyjafjallajökul væri mun hættulegri eldstöð, Katla, sem gæti valdið margfalt meiri búsifjum. 

Erlendum sjónvarpsmönnum, sem flykktust hingað til lands, fannst þetta merkilegt.Hekla

Þeim fannst líka merkilegt að löngum frægasta fjall Íslands, Hekla, gæti gosið með klukkustunar fyrirvara, miðað við aðvörunarkerfiið við fjallið.  

En þetta er nú einfaldlega staðreynd, sem verður æ ljósari þegar málið er skoðað í heild. 

Ekki hefur það skapað minni undrun þar sem ég hef verið staddur erlendis, til dæmis nýlega á þingi evrópskra dreifbýlissamtaka, ERP, og greint frá því að loftslagsbreytingar geti fjölgað hættulegum eldgosum á Íslandi verulega með afleiðingum sem fyndist fyrir um alla jörðina, samanber Móðuharðindin 1783. 

Fólk grípur andann á lofti þegar greint er frá því, að talið sé að við hvarf ísaldarjökulsins fyrir um 11 þúsund árum hafi tíðni eldgosa norðan Vatnajökuls orðið 30 sinnum meiri en dæmi eru um á jafnlöngum tíma. 

Að visu var isaldarjökullinn margfalt stærri og þyngri en íslensku jöklarnir eru núna, en ljóst er þó að tíðnin muni aukast á næstu áratugum og öldum. 

Ótrúlegt en satt, þá hafa loftslagsbreytingar ekki aðeins áhrif á landi, í sjó og í lofti, heldur ná þau líka niður í iður jarðar. 

þau líka niður í iður jarðar. 

 

P.S. Á þeim stað þar sem myndin af Heklu er tekin, var engin leið að ná besta sjónarhorninu nema að fara langa óvissuferð í leit að betri stað, eða einfaldlega að vera ekkert að fela veruleikann:  Löngu úrelta línu, sem truflar aðflug að flugbraut og búið er að margbiðja árangurslaust um að  að setja í jörð. Það er aldrei til peningur, því að þegar litið er yfir sviðið hér á landi í heild verður að láta risalínurnar fyrir stóriðjuna hafa forgang. 

 


mbl.is NRK fjallar um Kötlugos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband