Tvær aðaluppsprettur hlaupa í Jökulsá á Fjöllum.

Vatnasvið Jökulsár á Fjöllum er stórt. Kverká og Kreppa koma með vatn úr Brúarjökli.Kverkfjöll og Herðubreið.

Og frá tveimur af þremur hæstu eldfjöllum landsins, Kverkfjöllum og Bárðarbungu, kemur vatn í ána undan Dyngjujökli. 

Komið hefur fyrir að stíflulos í Kverkfjöllum, þar sem er mikill jarðhiti undir jökli og á yfirborði, hafi valdið hlaupum í ánni, en einnig óx jarðhiti undir vestanverðum Dyngjujökli þegar umbrot urðu undir jöklinum í aðdraganda Holuhraunsgossins.Bárðarbunga, Dyngjujökull, Kverkfjöll Jökulsá á Fjöllum, Herðubreið

Jarðhiti er það mikill í austanverðri Bárðarbungu að í fyrsta skipti í sögunni var hægt síðsumars að horfa niður í gegnum jökulinn ofan í jarðhitasvæðið í gegnum lóðrétt op, sem hitinn hafði brætt.  


mbl.is Rafleiðni í ánni farið hækkandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins ein af 57 leiftursóknum. Nýbúið að fórna ennþá magnaðra gljúfri.

Það var í daginn í fréttunum að nú væru áformaðar 57 nýjar virkjanir um allt land. Stærstur hluti þeirra eru virkjanir sem eru fyrir einskæra tilviljun 9,7 - 9,9 megavött. 

Einskæra tilviljun? Nei, því að ef þær væru 10 megavött þyrftu þær að fara inn á rammaáætlun. 

Rökin fyrir öllum þessum virkjunum hjá þjóð, sem þegar framleiðir fimm sinnum meira rafmagn en hún þarf fyrir eigin fyrirtæki og heimili, eru ævinlega þau sömu, "framfarir, hluti af atvinnuuppbyggingu og lífskjarasókn, opnun á aðgengi fyrir ferðafólk, betra afhendingaröryggi, o. s. frv. " - nefndu það. 

Við lestur tengdrar fréttar á mbl.is sést að hluta ruglið sem drífur þetta æði áfram. 

Gljúfrið sem Hverfisfljót er að sverfa, er ekki það eina sem er eða hefur verið skotmark í virkjanaæðinu, en það orð var notað af forstjórna Orku náttúrunnar nýlega um það ástand sem hefur ríkt og ríkir enn hér á landi í orkumálum. Hjalladalur.Stapar

Innsti hluti gljúfurs Jöklu í Hjalladal var ekki aðeins óvenju fjölbreytt og litfagurt þegar því var sökkt í drulluna 2006, heldur hafði Jökla, afkastamesti fjöllistamaður heims meðal fljóta, sorfið það á innan við öld. 

Myndin á forsíðu þessarar bloggsíðu er tekin við þetta gljúfur. 

Munurinn á því og gljúfrinu, sem á að stöðva Hverfisfljót við að skapa, er hins vegar sá, að enda þótt sköpunin í farvegi Hverfisfljóts verði stöðvuð, stendur gljúfrið þó væntanlega þurrt að mestu eftir, og að hugsanlega yrði hægt að hleypa ánni á síðar. 

En nú þegar er gljúfur Jöklu komið á kaf í drullu og á eftir að enda í meira en hundrað metra dýpi í jökulaur að lokum.   

Gljúfrið og það, að geta horft á þessa listsköpun, var hins vegar léttvægt fundið þegar þessu svæði var tortímt á sínum tíma.   


mbl.is Vill virkja í einu yngsta árgljúfri heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skrifaðu flugvöll." Of líkt veðursvæði og Suðurnes.

Þekkt var sagan sem hermd var upp á bankamann einn í Reykjavík, sem fór í framboð fyrir krata í einmenningskjördæmi úti á landi og var með mann með sér til að skrifa niður athugasemdir. 

Umræðan barst að samgöngum, og sagði þá einn fundarmanna, að komnir væru vegir og ein lítil höfn, en það vantaði flugvöll. 

"Skrifaðu flugvöll" sagði þá bankamaðurinn við ritara sinn. 

Þetta kemur upp í hugann þegar mönnum hugkvæmist það einu sinni enn að gera stóran fullbúinn flugvöll við Selfoss, og er þá oftast hugmyndin að hann geti verið varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll eða komið í staðinn fyrir Reykjavíkurflugvöll. 

Þá gleymist alveg að Flóinn er á sama veðursvæði og Keflavíkurflugvöllur, gersamlega óvarinn fyrir sömu algengustu hvössustu og mestu rigningarveðrunum og súldinni og Keflavíkurflugvöllur er. 

En stærsti kostur Reykjavíkurflugvallar er, að í þessum algengustu slæmu veðrum er hann varinn af Reykjanesfjallgarðinum fyrir þessum veðrum og því oft opinn þegar Keflavíkurflugvöllur er lokaður. 

Það er álíka langt frá Eyrarbakka til Þingvalla og frá Reykjavík til Þingvalla og aðeins 25 kílómetrum styttra frá Eyrarbakka til Geysis frá Eyrarbakka en er frá Eyrarbakka til Geysis. 

Á sama tíma og gargað er á fjármagn til að styrkja þá innviði flugsins sem þegar eru fyrir hendi koma hugmyndir um milljarðatuga eða jafnvel milljarðahundruð króna aftur og aftur upp á yfirborðið. 

Flugvöllur bankamannsins bláeyga hér um árið var hleginn í hel á stundinni, hefur enn ekki verið gerður, enda ekkert stæði né ástæða fyrir stóran flugvöll í Dölunum. 

 

 

 

 

 


mbl.is Kanna möguleika á alþjóðaflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband