Það var víst heldur aldrei stéttamunur á Íslandi.

Í 17. júní ræðu á Austurvelli fyrir þremur árum sagði þáverandi forsætisráðherra að það væri eitt af einkennum íslensks þjóðfélags, að alla tíð hefðí ekki verið hér sá stéttamunur sem verið hefði í öðrum löndum.

Það er nefnilega það.

Amma mín fékk ekki kosningarétt fyrr en hún var á fertugsaldri. 

Afi minn var vinnumaður austur í Skaftafellssýslu fram undir þrítugt og var í raun í vistarbandi. 

Hann var látinn fara gangandi að austan um hávetur og bjarga sér yfir allar óbrúuðu árnar á leiðinni vestur í Garð á Suðurnesjum, þar sem hann stundaði hættulegt og vosbúðarfullt útræði fram í maí. Þá fór hann fótgangandi austur á ný til að afhenda húsbóndanum launin fyrir vertíðina og vann vinnumannsstörfin áfram fram eftir árinu þar til næsta vertíðarganga hans hófst.

Í staðinn fékk hann mat og húsaskjól. 

Lengst af veldistíma Dana hér á landi áttu innan við 10% bændanna allar jarðirnar en almennt voru bændur leiguliðar. 

Þetta var að sjálfsögðu íslensk útgáfa af lénsveldistímanum í Evrópu, þar sem ríkjandi stéttir á Íslandi, stórbændur, embættismenn og útgerðarmenn, réðu meira en nokkur aðall í Evrópu gerði. Hvergi í Evrópu réði einvaldskonungur jafn litlu og Danakonungur á Íslandi. 

Hinn íslenski aðall stóð þversum sem afturhald fyrir breytingum, eyðilagði meðal annars framfaratillögur svonefndrar Landsnefndar konungs upp úr 1770 og kom eftir mætti í veg fyrir þéttbýlismyndun við sjávarsíðuna.  

Hinir fjölmörgu öreigar og sveitarómagar á Íslandi höfðu hvorki kosningarétt né kjörgengi fyrr en þriðjungur 20. aldarinnar var liðinn. 

Amma mín var reidd á hesti sjö ára gömul frá Hólmi í Landbroti austur yfir Skeiðarársand til Svínafells í Öræfum og kú leidd til baka. Þetta voru slétt "verslunarviðskipti" og þetta var nú allt stéttleysið og jafnréttið. 

Og nú er því haldið fram að kynbundinn launamunur sé ekki til á Íslandi. 

Kanntu annan?


mbl.is Segir ummæli ráðherra ótæk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversvegna ekki Trump eins og þeir Nixon og Kissinger?

Opinber heimsókn Richards M. Nixons Bandaríkjaforseta til Kína 1972 var einhver merkasti atburður síðari hluta 20. aldar og vakti gríðarlega undrun og athygli.

Nixon var republikani og því kom þetta mönnum á óvart. 

En kannski var það einmitt vegna þessa, sem hann átti möguleika á að ná samkomulagi við kommúnistaríkin. Það var síður hægt að væna hann um undanlátssemi við vinstri öflin en forseta demókrata og sama ár fór Nixon til Moskvu og undirritaði svonefnt SALT samkomulag við Sovétmenn.

Að baki þessari merku stefnumótun stóð Henry Kissinger, öryggismálaráðgjafi Nixons.

Fram að förinni höfðu Bandaríkin aðeins viðurkennt stjórn kínverskra þjóðernissinna á Tævan sem löglega stjórn Kína og meinað kommúnistastjórnni í Peking inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar með tilheyrandi þátttökurétti og setu fulltrúa Kína í öryggisráði Sþ.

Fyrstu þrjár vikur í embætti hefur Donald Trump farið mikinn í yfirlýsingum og aðgerðum, og safnað að sér vafasömum ráðgjöfum og samstarfsmönnum, miklum jábræðrum og hagsmunafélögum, sem hafa meðal annars fullyrt, að það stefni í stórstríð við Kína og annað stríð í Miðausturlöndum á næstu árum.

Nú örlar þó á smá glóru hjá Trump varðandi þetta mikilvæga utanríkismál sem varðar sambúð tveggja af öflugustu hagkerfum heims.

Henry Kissinger er enn á lífi og vonandi hefur Trump munað eftir því. 

 


mbl.is Trump segist munu virða „eitt Kína“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsti viðburður í sambúð lands og þjóðar á 20. öld.

Saga Íslands geymir mörg dæmi um mátt eyðingaraflanna, einkum eldfjalla landsins. "Pompei norðursins" varð til víðar en á Heimaey, svo sem í eyðingu öskufallsins úr Heklu 1104, Öræfajökli 1262 og eyðingu byggðar af völdum hraunstrauma í Skaftáreldum 1783. 

Á 20. öld olli Kötlugosið 1918 tjóni og kom róti á samfélagið í Skaftafellssýslum, en enginn viðburður af þessu tagi á 20. öld jafnast þó á við gosið í Heimaey.

Það var tvímælalaust stærsti, áhrifaríkasti og dramatískasti viðburður í sambúð lands og þjóðar á síðustu öld.

Þótt Landeyjahöfn hafi markað mikla framför í samgöngum við Vestmannaeyjar er sá galli á, að höfnin nýtist ekki allt árið.

Það hefur skapað rof í ferðamannatímann, sem hefur dregið úr þeim stórkostlegu möguleikum, sem "Pompei norðsins" skapa í ferðaþjónustu, ekki aðeins í Eyjum, heldur á landsvísu sem einstæður staður.

Er því vel að hugað sé að því að vekja athygli á minjum og sögu hins einstæða viðburðar, sem Heimaeyjargosið var.   


mbl.is Húsveggur í hraunjaðri endurbyggður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta "vá!" upplifunin: Eins og frjálst fall ofan í Almannagjá.

Þriðji áratugurinn var uppgangstími á Íslandi, áratugur lagningar vega, byggingar brúa á borð við Hvítárbrú í Borgarfirði, stórsóknar bílanna og steinhúsanna um allt land.

Á næsta áratug kom kreppan, en glæsilegar byggingar á borð við Landsspítalann, Landssímahúsið, héraðsskóla, bíó- og samkomuhús, verksmiðja og verslunarhúsa, auk dýrra og íburðarmikilla íbúðarhúsa risu fyrir ágóða "the roaring twenties" á Íslandi.Almannagjá 2

Á myndunum frá Þingvöllum og víðar á myndum úr vörslu Jóns Ófeigssonar sést hvernig hestar og bílar blandast saman í umferðinni um sameiginlegum vegum. Það er löngu liðin tíð. 

Fyrsta "vá!" upplifun mín sést á tveimur myndum af Almannagjá, annarri með bílaröð og hinni með hesti. Almannagjá 1

Ég var tæpra fjögurra ára sumarið 1944, þegar þessi fyrsta stóra náttúruupplifun helltist yfir.Almannagjá 3

Hún fólst í þvi að koma í bíl eftir sléttu sólböðuðu landi og steypast alveg upp úr þurru nánast í "frjálsu falli ofan í myrkvaða gjána milli svartra hamraveggja, sem virtust við það að kremja bílinn.

Þetta var ógleymanleg upplifun.

Nú er umferð á Þingvöllum fyrir löngu orðin þess eðlis, að þetta er svæði gangandi fólks.

Á tímabili gældi ég við það að opna mætti gjána í svo sem klukkustund á dag fyrir einstefnu bílaferð niður gjána, en sú hugmynd fékk öruggt andlát.  


mbl.is Innsýn í landkynningu Íslands 1925
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband