Kínverjar breyta heimsmyndinni frekar en Rússar.

Hver hefði trúað því þegar veldi Sovétríkjanna var sem mest, að árið 2017 yrði hagkerfi Rússlands aðeins brot af hagkerfi Kína og minna en hagkerfi Spánar?

Það er Kína miklu fremur en Rússland, sem breyta mun núverandi heimsmynd, og er ekki aðéins í óða önn að breyta henni, heldur hefur í raun breytt henni nú þegar. 

Það eina sem gefur Rússum spil á hendi er hið ægilega kjarnorkuvopnabúr þeirra, efldur herafli og meiri heppni varðandi útfærslu á stefnu í málefnum Miðausturlanda. 

Kjarnorkuvopnabúrið er að vísu tvíbent vopn, því að beiting þess yrði eitthvað það heimskulegasta sem maðurinn getur gert hér á jörðu, loftslagsváin og þurrð á auðlindum vegna rányrkju meðtalin. 

 


mbl.is Vill endalok núverandi heimsmyndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Legg þú á djúpið..."

Þegar séra Hjálmar Jónsson velti því fyrir sér á sínu tíma, hvort hann ætti að fara úr prófastsembættinu nyrðra og bjóða sig fram til þings, hafði hann samband við ýmsa, meðal annars mig, til að heyra hvað vinum hans fyndist um þennan möguleika. 

Ég mælti með framboðinu og sendi honum vísu þar sem orðin "Legg þú á djúpið, þú sem enn ert ungur...", voru leiðarstef. 

Síðar kom að því að Hjálmar hætti á þingi og gerði um það vísuna, sem er í tengdri frétt á mbl.is

Því er það sjálfgefið, að ég sendi honum nú vísu þar sem bregður fyrir orðalagi úr stöku minni hér um árið og úr stöku hans, sem hann vitnar í, auk ummæla hans um hugsanlegt starf, sem taki nú við. 

 

Legg þú á djúpið þótt þú sért ekki ungur

og ofan úr prédikunarstólnum dottinn, 

og það sé ólíkt sem aldraður karlapungur  

að ávarpa rútufarþega eða Drottin. 


mbl.is Hjálmar hættir í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótakerfið lengdi verkfallið.

Langvinn, já, alltof löng verkföll sjómanna, eru ekki nýtt fyrirbrigði. Áður en kvótakerfið var sett á,  voru dæmi um allt að sjö vikna verkföll. 

Sjö vikna verkfall fyrir daga kvótakerfisins voru miklu alvarlegri en átta vikna verkfall nú. 

Ástæðan er tvíþætt: Tæknin og afköstin eru orðin það mikil, að þótt veiðar falli niður í tvo mánuði, er hægt er að veiða allan kvótann á tíu mánuðum fiskveiðiársins. 

En fyrir daga kvótakerfisins veiddu allir eins mikið og þeir gátu allt árið, þannig að sjö vikna hlé var ekki hægt að vinna að fullu upp. 

Í öðru lagi var útgerðin í stöðugu basli vegna lágs gengis krónunnar og óhagræðisins vegna hins óheyrilega mikla sóknarkostnaðar hjá alltof stórum flota. 

Nú er þetta breytt og útgerðarmenn geta engu um kennt nema þrjósku þeirra sjálfra, hve verkfallið varð langt. Það átti ekki að taka átta vikur að leysa mál, sem var algerlega á ábyrgð samningsaðila. Og eftir sex ára bið frá síðustu samningum mátti búast við að sjómenn þyrftu að fá kjarabætur. 

Sjávarútvegsráðherra kemst vel frá þessu máli. Ef velja á milli þess að taka mark á fyrrverandi ríkisskattstjóra eða þingmanni í atkvæðaveiðum, hagsmunagæslu í kjördæmi sínu og hálfgerðri stjórnarandstöðu varðandi eðli sjómannaafsláttarins svonefnda, ætti frekar að vera að marka ríkisskattstjórann fyrrverandi. 

Ummæli og afstaða Páls Magnússonar voru hins vegar skiljanleg af þeim oddvita Sjallanna í kjördæmunum, sem hafði lang mest hlutfallslegt gildi, hefði átt að verða ráðherra og telur skyldu sína að tala fyrir munn þeirra sem kusu hann. 

Tjónið af allt of löngu verkfalli verður hins vegar þungbært fyrir ýmsar smærri útgerðir og sjávarbyggðir og kannski tekur tíma að vinna upp markaði, sem rýrnuðu um sinn. 

Gæði íslensks sjávarfangs ætti hins vegar að geta unnið upp markaðstjónið. 


mbl.is Samið í kjaradeilu sjómanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stigmögnun óvinaímyndarinnar. Þjóðin, það er ég.

Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseti kenndi fjölmiðlum, og sérstaklega Walter Cronkite, um það að hann yrði að hrökklast frá völdum vegna Víetnamstríðsins, með því að hætta við að bjóða sig fram til endurkjörs.

Sjónvarpsmyndir af hinu raunverulega eðli stríðsins höfðu þar mest að segja.  

Johnson sagði hins vegar aldrei að fjölmiðlar væru óvinir bandarísks almennings og þaðan af síður að myndir og umfjöllun í sjónvarpi væru "falsfréttir" og "falsveruleiki."

Richard M. Nixon sakaði fjölmiðla alla tíð um að vera sér óvinveittir, en hann sagði þó aldrei að fjölmiðlar væru óvinir bandarísku þjóðarinnar og heldur ekki að uppljóstranir þeirra í Watergatemálinu væru "falsfréttir" eða "falsveruleiki."

Donald Trump hefur hins vegar fært svona umræðu á nýtt stig með ummælum sínum og stanslausum fullyrðinguum um að helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna stundi lygar og fals.

Hliðstæð ummæli mátti finna hjá Erdogan hinum Tyrkneska, sem hefur auk þess rekið fjölmiðlafólk, ásótt fjölmiðla og rekið dómara og lögreglustjóra í stórum stíl.

Nú er spurningin sú hvort Trump klæjar í að gera eitthvað svipað. Það verður erfiðara fyrir hann en Erdogan vegna þess hve aðskilnaður framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds er skýrari í Bandaríkjunum en í Tyrklandi.

En viljann hjá Trump vantar áreiðanlega ekki og flestir helstu harðstjórar sögunnar eiga það sameiginlegt að setja samasemmerki á milli sín og þjóðarinnar í anda franska konungsins sem sagði: "ríkið, það er ég" en þykir flottara að orða með orðunum "þjóðin, það er ég."   


mbl.is Fjölmiðlar „óvinir almennings“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björt framtíð yst á jaðrinum.

Af 32 þingmönnum í stjórnarmeirihlutanum leggur Björt framtíð til þá 4 þingmenn sem eru yst til vinstri í hægri stjórn. Staða flokksins er því erfið gagnvart þeim, sem kusu hann eins og skoðanakannanir gefa til kynna. 

Að aðeins fjórðungur svarenda í skoðanakönnun sé ánægður með störf nýrrar ríkisstjórnar, þegar hún tekur við völdum í mikilli uppsveiflu af völdum ytri aðstæðna, er óvenju lágt hlutfall. 

Og enn verri er sú útkoma fyrir Bjarta framtíð, að aðeins 13 prósent kjósenda hennar í síðustu kosningum séu ánægðir með þátttöku ráðherra flokksins í stjórninni. 


mbl.is Fjórðungur sáttur við stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband