Hernaðurinn hertur gegn náttúru Mývatnssveitar.

Í fréttum:  Gullfoss í gær, - Mývatn í dag.  Í gær: "Brugðist strax við" við Gullfoss gegn drullusvaði, sem þar hafði myndast, - en í fréttum í kvöld fjallað um hvernig aðförinni að náttúru Mývatnssveitar er haldið áfram fyrir norðan.

Hernaðurinn nyrðra er alltumlykjandi og íslenska hræsnin yfirgengileg, auglýst og grætt á ferðamannasprengju með því að gorta af hreinu og grænu umhverfi einstæðrar náttúruperlu á sama tíma og hótelrekstur með bellibrögðum, svikum og vanrækslu varðandi hreinsun affalls er látinn dankast árum saman. 

Sveitarstjórnarmenn í bullandi hagsmunapoti sem birtist í undanþágum, aðgerðarleysi og því að fara þannig í kringum lagaákvæði til verndar umhverfinu, að þau verði gagnslaus. 

En það sem sást í fréttum kvöldins er aðeins hluti af hernaðinum. Námaskarð, Bjarnarflag, Mývatn

Fyrir norðan vatnið er farið fram með offorsi við að leggja stórar háspennulínur án þess að taka neitt tillit til eðlis landsins, sem þær eiga að fara um. 

Aðeins þrjá kílómetra austan við austurbakka vatnsins er búið að ryðja svæði fyrir 90 megavatta gufuorkuver í stíl virkjananna á Hellisheiðarsvæðinu.

Kröfluvirkjun á að þenja út og teygja norður á Leirhnjúks-Gjástykkissvæðið, þar sem eru náttúrufyrirbæri, sem hvergi finnast annars staðar á þurrlendi jarðar. Orkusvæði Bjarnarflagi

Hernaðurinn nær langt norðvestur fyrir Þeystareyki, þar sem háspennulínustæðið á að valda mestu mögulegu umhverfisspjöllum. 

 

 


mbl.is Brugðust strax við vegna drullusvaðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalt íslenskt fyrirbæri, "kaupstaðalyktin"?

Það er gamalt íslenskt fyrirbæri, að áfengisvandamálin hérna lýsi sér í því að menn "detta í það" um helgar eða séu svonefndir "túramenn." Svipað fyrirbæri hefur að vísu verið talið loða við Finna og haft í flimtingum í öðrum löndum. 

Í þátttöku í gerð norrænnar áramótadagskrár í sjónvarpsstöðinni í Helsinki 1966 kynntist ég dæmi um þetta. 

Þegar myndatökum var að ljúka og aðeins eftir að taka upp lokaatriðið að morgni dags, fór helsta dagskrárgerðarfólkið í heljarinnar partí þar sem mikið var drukkið. 

Sumir fóru þaðan beint, vel slompaðir, upp í sjónvarpshúsið til að taka upp "finalen." 

Þar var fremstur í flokki upptökustjórnandi að nafni Júgga Virgonen. 

Við Haukur Heiðar Ingólfsson minnumst þess enn þegar kallað var í kallkerfi stöðvarinnar, svo að heyrðist um alla bygginguna: "Júgga Virgonen, það var stolið frá honum!" 

Auðvitað var þetta ekki sagt svona orðrétt á Íslensku, heldur hljómuðu finnsku orðin svipað. 

Enn þann dag í dag hafa Finnar, sem ég hef beðið um að finna út hvað var hrópað, ekki getað ráðið þá gátu.  

Fyrir rúmri öld var íslenska þjóðfélagið enn á svipuðu stigi og verið hafði um aldir. Ef dreifbýlisfólk fór í kaupstað, var þar auðvelt að kaupa áfengi og sagt var stundum, um bændur, sem komu drukknir til baka, að það væri "kaupstaðalykt" af þeim. 

Íslendingar hafa löngum verið áhlaupamenn til vinnu og margir hafa umbunað sjálfum sér ríkulega um helgar. 

Og ný tegund af "kaupstaðarlyktinni" hefur haldið innreið sína með tilkomu sólarlandaferða. 

Hve margar þúsund Íslendinga hafa ekki drukkið sleitulítið eins og berserkir í slíkum ferðum til þess að "græða og spara útgjöld" og komið vel lyktandi aftur til landsins?  Angandi af "sólarlandalykt". 

1969 var gerð svipuð könnun á drykkjuvenjum Íslendinga og nú, og með svipaðri útkomu. 

Helstu niðurstöður:  

1. Árlegt áfengismagn á hvern íbúa það minnsta í okkar heimshluta.

2. Óhófleg drykkja tíðari hér en erlendis. 

Dani einn, Finn að nafni, starfaði þá um hríð í Sjónvarpinu og varð að orði, þegar hann heyrði þetta: 

"Ég skil ekki Íslendinga.  Íslendingar drekka lítið, en oft, og þá mikið."

Sagði þetta allsgáður. 


mbl.is Óhófleg drykkja tíðari hér en á Norðurlöndunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband