Þeir brúka bara syndugan kjaft.

Það er athyglisvert að hlusta á mismunandi málflutning fulltrúa Umhverfisstofnunar og fulltrúa United Silicon, svo gersamlega ólíkur er hann hjá þessum aðilum deilunnar um mengunarmálin. 

Fulltrúi Silicon fullyrti að mengunin hefði aldrei farið yfir tilskilin mörk og að engar úrbætur þyrfti að gera, því að það hefði verið gert. 

Hjá Umhverfisstofnun er hins vegar veitað hótun um að stöðva reksturinn "ef ekki verði ráðist í tafarlausar úrbætur í mengunarmálum." 

60 íbúar kvarta sáran yfir óviðunandi loftgæðum og þá getur bara þrennt komið til greina: 

1. Þeir ljúga bara allir saman. 

2. Mengunarkröfurnar eru svo litlar, að þetta ástand er eðlilegt og Íslendingar geti bara sjálfum sér um kennt að hafa ekki gert sér grein fyrir því hvers eðlis þessi yndislega og langþráða stóriðja væri.

3. Mælingarnar á menguninni eru ekki réttar.

En það er ekki nýtt að talsmenn stjóriðju og virkjana fyrir hana brúki syndugan kjaft.

Talsmenn gufuaflsvirkjananna á ysta hluta Reykjanesskagans hafa alla tíð þrætt staðfastlega fyrir að í þeim felist rányrkja, hvað þá stórfelld.

Sá síðasti sem ég hitti, fullyrti nýlega að svæðið væri ekki aðéins í jafnvægi, heldur streymdi inn á það meira af orku en af því væri tekið.

Síðan sér maður í fréttabréfi Landmælinga Íslands að nýjustu mælingar af Gufuaflsvirkjanasvæðanna á Reykjanesskaganu sýni allt að 18 sentimetra lækkun lands og umsögnin um það er einföld: "Ekki er ólíklegt að það tengist virkjunum á þessum svæðum"

Og svo fréttir maður rétt si svona, að Svartsengisvirkjun gangi bara á 75-80% af aflinu, sem uppsett var fyrir túrbínurnar.

Allir vita núna loksins nákvæmlega hvernig hliðstætt ástand er á Hellisheiðarsvæðinu.    

 

 


mbl.is Hóta að stöðva rekstur United Silicon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Look, what´s happening yesterday evening in Sweden!"

Nú eru komin fram óræk gögn um það hvernig búið var til með prettum viðtal, sem var aðal uppistaðan í þeirri mynd á stöðinni Fox sem Trump Bandaríkjaforseti hafði séð og hafði fræg áhrif á hann.

Ljósmyndarinn, sem tók myndina, er búinn að skoða frumupptökuna og staðfestir það sem lögreglumennirnir tveir sögðu um þessi óheiðarlegu vinnubrögð.

Þarna er dæmi um það sem Trump hefur kallað "alternate truth" eða "alternate facts" (á íslensku "sannlíki") og á að vera hið rétta, en annað, sem ekki passar við það eru "falsfréttir."

Í eftirá skýringunni hjá fylgjendum Trumps var sagt að þetta hefði hann átt við, en ekki eitthvert hryðjuverk sem hefði gerst kvöldið fyrir ræðuna.

Og núna liggur fyrir hverni þessi "sannleikur" forsetans varð til. Fróðlegt.  


mbl.is Frétt Fox lygi og útúrsnúningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengi getur vont versnað.

Það eru fimm ár síðan vitað var með vissu, að vá steðjaði að lífríki Mývatns og að vatnið yrði sett á svonefndan rauðan lista. 

Viðbrögð nýrrar ríkisstjórnar, sem tók við batnandi hag þjóðarbúsins 2013 voru þau að draga úr framlögum til þeirra aðila sem þyrftu að standa fyrir aðgerðum til að bregðast við þessu ástandi. 

Á þessum tíma skrifaði ég tvær blaðagreinar í Fréttablaðið um hernaðinn gegn náttúruverðmætum Mývatnssveitar, sem nú væri að fá á sig nýja mynd í viðbót við fyrri aðgerðir á virkjanasvæðum austan vatnsins. 

Í fyrra var svo komið vegna hnignunar lífríkis vatnsins, að þáverandi umhverfisráðherra setti á fót nefnd til að athuga ástandið og gera tillögur til úrbóta. Ekkert er farið að gera til úrbóta.

En lengi getur vont versnað. Nú liggur fyrir að búið hefur verið svo um hnúta að Umhverfisstofnun hefur í raun nær ekkert vald til að beita sér með neinum árangri í því skyni að hafa í heiðri lögu um verndurn Laxár- og Mývatnssvæðisins.

Ef stofnunin hefði svipað vald og Fiskistofa væri fyrir löngu búið að kæra umhverfissóðana, senda lögreglu til að stöðva framferði þeirra og láta dæma þá fyrir spjöll sín. 

En hvorki Umhverfisstofa né Landgræðsla Íslands geta í raun gert neitt nema senda bréf með áminningum og áranguslausu eða árangurslitlu nöldri.

Skammgróðapungar á svæðinu fara sínu fram, án leyfisveitinga, reisa hótel og mannvirki að eigin vali og fara í kringum lög og reglugerðir eins og ekkert sé.

Heilbrigðiseftirlitið er brandari, - sýnir fyllstu meðvirkni í raun og gróðapungarnir segja fullum fetum, að það sé engin ástæða til þess að virtar séu skuldbindingar Íslands í Ríó-sáttmálum um að náttúran sé ævinlega látin njóta vafans.  

Hámark ósvífninnar er síðan að græða á auglýsingum um það að hótel séu íðilgræn um umhverfisvæn vegna umhyggju eigendanna fyrir verndun vatnsins á sama tíma sem saur er dælt í það og reistar hiklaust nýjar byggingar án samráðs við Umhverfisstofnun.

Skammgróðagræðgin er svo mikil, að mönnum er skítsama, - orðið skítsama er rétta orðið - um það þótt þeir og afkomendurnir muni í framhaldinu getað tapað margfalt meira fé en þeir græða í augnablikinu.    


mbl.is Leyfislaus skolphreinsun við Mývatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt af ótal dæmum um skammtímagræðgina.

Daglega sjáum við fréttir um stóra orðið, sem ræður öllu í þjóðfélagi okkar: GRÆÐGI, - með stórum stöfum. 

Í Fréttablaðinu er sagt frá því hvernig orkan á upphaflega vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar hefur fallið um 78 megavött af 303 á rúmum áratug af því að í upphafi var vaðið þar fram í taumlausri skammtímagræðgi og viðhöfð það sem hefur verið nefnt "ágeng orkuvinnsla", en það er annað orð yfir það sem ekki má nefna: Rányrkja. 

Bent var á þetta árið 2007 í fyrsta bloggpistlinum af tæplega tíu þúsund, sem hafa verið skrifaðir þessari bloggsíðu, en í hvert skipti sem þessi óþægilegi sannleikur kemur fram, er hrópað annars staðar hundrað sinnum að þetta sé "endurnýjanleg orka." 

"Litla fréttin" frá Grundarfirði, segir sína sögu um skammtímagræðgina og gullæðinu í kringum stórvaxandi straum erlendra ferðamanna til landsins. 

Af því að mikill gróði felst í því að leigja íbúðarhús til ferðamanna er svo komið víða, að þeir, sem ættu að njóta góðs af ferðamannastraumnum, hrökklast í burtu til að rýma fyrir erlendum leigjendum, sem borga betur. 

Nú hefur á skömmum tíma myndast mesta húsnæðisekla hér á landi í 75 ár, eða síðan svipuð græðgi greip landann í gullæði stríðsáranna. 

Þrátt fyrir að erlendir ferðamenn hafi mokað 534 milljörðum inn í þjóðarbúið á síðasta ári, örlar ekki á því að við hinir innfæddu tímum að leggja neitt af mörkum til að byggja upp innviði fyrir þjónustu við hinn stóraukna ferðamannastraum. 

Og í Kastljósi í gærkvöldi mátti sjá hvernig þeir, sem græða á ferðamönnum við Mývatn, auglýsa vatnið sem einstæða náttúruperlu og starfsemi sjálfra sín sem íðilgræna á sama tíma sem hið fræga lífríki vatnsins hefur verið á rauðum lista í fimm ár og að allan þann tíma hafa þeir, sem helst eiga að standa vörð um það, stundað það linnulaust að brjóta lög og beygja á alla lund til að komast hjá því að gera lágmarks ráðstafanir til að bjarga vatninu frá dauða. 


mbl.is Gætu þurft að flytja úr bænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband