Hinar sérstæðu íslensku aðstæður eru vandamálið.

Byggingarfræðingur, sem ég á góðan aðgang að, og hefur frá því hann vann sem unglingur við húsaviðgerðir sérhæft sig í húsaskemmdum og húsaviðgerðum, tjáir mér að það sé ekki alveg rétt uppstilling hjá blaðamanninum í tengdri frétt á mbl.is þess efnis að vandamálið hérlendis tengist eingöngu "séríslenskri" aðferð við einangrun í veggjum. 

Hann segir að vandamálið liggi í því, að ekki sé brugðist rétt við þeirri staðreynd, hvergi þekkist í jafn miklum mæli og hér á landi, að hiti inni í húsum sé allt árið yfir 20 stig, en nánast aldrei svo hár utan húss. 

Af því leiði að viðvarandi þrýstingsmunur verður á heita loftinu inni í húsinu og kalda loftinu utan hússins, og þegar heita loftið leiti inn í veggina, kólni það og raki þess þéttist.

Það er nefnilega misskilningur ef við höldum að raki lofts, sem mældur er í prósentum, sé alltaf lægra innan húss en utan og minni í heitu lofti en köldu. 

Á veðurskeytum er bæði gefin upp þessi prósentutala en einnig svonefnt daggarmark, mælt í gráðum. Ef daggarmark er til dæmis fimm stig og hitinn fimm stig, er komin þoka. 

Ef daggarmarkið er fimm stig og hitinn tíu stig, er hins vegar gott skyggni. 

Ef raki á veðurstöð er uppgefinn 100% má búast við að þar sé slæmt sjónflugsveður, en hins vegar þeim mun betra sem þetta prósentustig er lægra. 

Þegar 19 stiga hiti mældist á Eyjabökkum um daginn, var uppgefið rakastig aðeins 20% enda blár himinn. 

Dæmi um hliðstæður við hús eru bílarnir okkar. Árum saman undraðist maður hvernig rúður og innra byrði bíla gat verið alvott af raka þegar komið var inn í bílana á morgnana til að setja þá í gang. 

En ástæða slíks er sú, að ef bíll er stöðvaður með funheitt loft inni í sér og honum lokað og læst, þéttist heita loftið við það að kólna yfir kalda nótt. 

Besta ráðið til þess að hamla gegn þessu er ekki að láta miðstöðina hamast sem mest við að hita upp bílinn áður en drepið er á vélinni, heldur þvert á móti, að taka miðstöðina tímanlega úr sambandi og opna glugga bílsins og láta hitann falla sem mest og lofta heita, raka loftinu út áður en bílnum er lagt og læst. 


mbl.is Vandamálið er hinn íslenski útveggur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sérstaklega önnur og þriðja kynslóð múslima."

Í að minnsta kosti einni af ræðum Donalds Trumps í kosningabaráttunni sagðist hann ætla að margefla leyniþjónustu og lögreglu í Bandaríkjunum til þess fylgjast ekki aðeins með komum múslima og íbúa múslimaríkja og Arabaríkja til Bandaríkjanna, heldur jafnvel enn frekar þeim múslimum, sem búa þegar í Bandaríkjunum. 

Trump fullyrti að 2. og 3ja kynslóð múslima væru svo hættulegar, að fylgast yrði sérstaklega með þeim í komandi lögregluríki. Mátti skilja á honum að þetta væri varasamara fólk vegna þess að þæð væri fætt og uppalið í Bandaríkjunum.  

Nú sjást þess þegar merki að byrjað sé á því að sækja að þessu fólki, og að loforð Trumps verði efnt, úr því að maður, sem fæddur var í Bandaríkjunum fyrir 44 árum og uppalinn þar, er settur undir sérstaka smásjá, stöðvaður og sviptur frelsi í tvær klukkustundir fyrir þær sakir einar að heita sama nafni og heimsfrægur faðir hans, einhver þekktasti Bandaríkjamaður síðustu aldar. 

Í dag má sjá af sjónvarpsumfjöllun af fjöldafundi Trumps að hann segist aðeins vera í starfi fyrir Bandaríkjamenn eina en alls ekki sem heimsborgari eða einstaklingur sem tilheyri mannkyninu, heldur eingöngu Bandaríkjamaður og ekkert annað. 

Veröldin utan Bandaríkjanna komi honum ekki við, aðeins Bandaríkin og æskilegir þegnar þeirra. 

Því að enda þótt Múhammad Ali yngri sé fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum nægir það ekki til þess að hann geti treyst því að vera áfram frjáls maður í landi frelsisins. 

Maður var að vona að bloggpistill minn fyrir viku um það að hæpið væri að ég fengi að ferðast til komandi dýrðarríkis Trumps vegna nafns míns, mætti skilja sem hálfkæring. 

En úr því að fæddur og uppalinn Bandaríkjamaður er litinn illu auga vegna nafns síns, er hugsanlega mun líklegra að útlendingar með því hræðilega nafni Omar verði teknir í bakaríið ef þeir voga sér að ætla að heimsækja Guðs eigin land. 

 

 

 


mbl.is Sonur Muhammad Ali stöðvaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf ádrepa.

Lítil saga úr umferðinni sem mér var sögð fyrir nokkrum dögum: Maður nokkur sat í hægra framsæti bíls hjá dóttur sinni, sem var í æfingarakstri. Þau stönsuðu á rauðu ljósi, en þegar aka átti af stað, drapst á bílnum. 

Fát kom á stúlkuna og tók brot úr mínútu að koma bílnum í gang. En sá tími nægði fyrir mann á bíl fyrir aftan til þess að rjúka út úr þeim bíl, þrífa upp hurðina hægra megin á bílnum fyrir framan og kýla föður stúlkunnar svo að hann hreinsaði úr honum allar tennur og beinbraut hann í ofanálag. 

Önnur persónuleg saga, sem ég sagði hér á blogginu fyrir níu árum án þess að hún hefði hin minnstu áhrif:

Ég á leið af bílasýningu hjá Öskju á pínulitlum fornbíl, NSU Prinz.

Bensíngjöfin bilaði þegar ég var nýlagður af stað, svo að ég ók utarlega á vegarbrúninni í vesturátt á Vesturlandsveginum á lítilli ferð. 

Þessi minnsti bíll landsins truflaði í engu umferðina sem var ekki mikil og gekk greiðlega,því að klukkan var að nálgast ellefu. Það var bjart sumarkvöld. . 

Þá kom bíll akandi framúr mér og stansaði um það bil hundrað metra fyrir framan mig. 

Út úr bílnum snaraðist maður og hljóp með hnefann á lofti í átt að mínum bíl. 

Þegar hann nálgaðist sá ég að hann var þrútinn af bræði svo að blóðhlaupin augun stóðu sem á stilkum, og af því að ég var með opinn glugga mín megin heyrði ég að hannn öskraði froðufellandi rétt í þann mund sem hann kom a bílnum: "Ég skal drepa þig, helvítið þitt!!" 

Sem betur fór er þessi bíll minn jafn snöggur og léttur í stýrinu og reiðhjól, þannig að á réttu augnabliki, þegar maðurinn var að komast að bílnum, svipti ég honum til vinstri svo að maðurinn lenti hægra megin við bílinn í stað þess að lenda mín megin. 

Hann framkvæmdi hins vegar hótun sína, því að kýla með hnefanum í gegnum hliðarrúðuna hægra megin svo að hún brotnaði og glerbrotin flugu um allan bílinn. Hefði hann slegið mín megin hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. 

Ég hélt ferðinni áfram og sá manninn koma hlaupandi á eftir bílnum en sem betur fer virtist hann ekki hafa úthald í að draga mig uppi og stansaði.  Var hugsanlega með blóðuga hönd og búinn að rasa út. 

Ég hélt áfram ferðinni og fór niður í Útvarpshús, þaðan sem ég hafði komið á bílnum. 

Sá hinn bílinn og hinn óða mann ekki aftur. 

Mér var svo brugðið við þessa óhugnanlegu lífsreynslu að ég gat engan veginn munað af hvaða gerð bíll árásarmannsins, eða árásarmannanna var, því að hugsanlegt er að brjálæðingurinn hafi verið farþegi. 

Það er vitað að ofstopafólk leikur lausum hala í okkar kæru borg og kemst upp með að lemstra fólk, valda örkumlum og drepa, ef svo ber undir.

Við vitum að hver sem er getur hvenær sem er orðið fyrir svona árásum. Mitt atvik gerðist um ellefuleytið á björtu vorkvöldi. 

Orð Runólfs í tengdri frétt eru orð í tíma töluð, orð, sem hafa verið sögð árangurslaust aftur og aftur um margra ára skeið.

Fólk hrekkur aðeins við þegar besti leikmaðurinn í handboltalandsliðinu okkar er barinn svo illa að tilefnislausu í miðborg Reykjavíkur að hann getur ekki beitt sér á stórmóti á eftir.

En strax á eftir fellur allt í sama farið. Æi, svona er nú bara Reykjavík og hvað með það? 


mbl.is „Ég hef sjaldan upplifað verri daga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaboðin: Þið hafið verra af ef þið hlýðið okkur ekki!

Nú þykir ýmsum það vera að renna upp fyrir sér, hvers vegna Donald Trump dáist að Vladimir Pútín og vill, í ljósi þess að hann verði honum fremri, fara fram úr Pútín í að segja fjölmiðlum stríð á hendur. 

Pútín hefur aldrei gengið svo langt að kalla fjölmiðla "óvini þjóðarinnar" og raunar minnist ég þess ekki að nokkur þjóðarleiðtogi á Vesturlöndum hafi skilgreint fjölmiðla með svona orðum síðustu 70 ár, ekki einu sinni Franco, Salazar eða gríska herforingjastjórnin. 

En sú skilgreining að óæskilegir fjölmiðlar séu "óvinir þjóðarinnar" býr til sóknaráætlun, sem er pottþétt: 

Ef þeir fjölmiðlar sem nú er bægt frá því að fjalla um málefni sem á að ræða um á "opnum" blaðamannafundi, reyna að andmæla eða andæfa þessari kúgun og grímulausu ritskoðun, er þessi mótspyrna túlkuð sem svo, að þessir fjölmiðlar sýni og sanni með þessu að þeir séu "óvinir þjóðarinar" og óvinir Trumps, því að eins og franskur einvaldskonungur sagði forðum: "Ríkið, það er ég", er hugsun Trumps sú sama: Þjóðin, það er ég.

Fjölmiðlunum er komið út´í horn, þar sem eina undankomuleiðin frá því að vera bannfærðir er að falla á kné og kyssa á vöndinn. 

 


mbl.is Völdum fjölmiðlum meinaður aðgangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband